Text
“Nú skil ég stráin, sem fönnin felur og fann þeirra vetrarkvíða. Þeir vita það best, sem vin sinn þrá, hve vorsins er langt að bíða. Að haustnóttum sá ég þig sigla burtu, og svo komi hinn langi vetur. Þótt vald hans sé mikið, veit ég þó, að vorið, það má sín betur. Minningin talar máli hins liðna, og margt hefur hrunið til grunna... Þeir vita það best, hvað vetur er, sem vorinu heitast unna. En svo fór loksins að líða að vori og leysa mjallir og klaka. Ég fann, að þú varst að hugsa heim og hlaust að koma til baka. Þú hlýtur að vera á heimleið og koma með heita og rjóða vanga, því sólin guðar á gluggann minn, og grasið er farið að anga. “ - Davíð Stefánsson, Nú skil ég stráin
20 notes
·
View notes
Text
“Það vex eitt blóm fyrir vestan, og vornóttin mild og góð kemur á ljósum klæðum og kveður því vögguljóð. Ég ann þessu eina blómi, sem aldrei ég fékk að sjá. Og þangað horfir minn hugur í hljóðri og einmana þrá. Og því geng ég fár og fölur með framandi jörð við il. Það vex eitt blóm fyrir vestan og veit ekki, að ég er til.” - Steinn Steinarr, Það vex eitt blóm fyrir vestan
23 notes
·
View notes
Quote
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin. Einir fara og aðrir koma í dag því alltaf bætast nýir hópar í skörðin. Og til eru ýmsir sem ferðalag þetta þrá, en þó eru margir sem ferðalaginu kvíða. Og sumum liggur reiðinnar ósköp á, en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða. En það er margt um manninn á svona stað og meðal gestanna' er sífelldur þys og læti. Allt lendir í stöðugri keppni' um að koma sér að og krækja sér í nógu þægilegt sæti. En þó eru margir sem láta sér lynda það að lifa' úti' í horni óáreittir og spakir, því það er svo misjafnt sem mennirnir leita að og misjafn tilgangurinn sem fyrir þeim vakir. En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða. En við sem ferðumst eigum ei annars völ, það er ekki um fleiri gististaði að ræða. Að vísu eru flestir velkomnir þangað inn og viðbúnaður er gestirnir koma' í bæinn. Og margir í allsnægtum una þar fyrst um sinn, en áhyggjan vex er menn nálgast burtferðardaginn. Þá streymir sú hugsun um oss sem ískaldur foss að allt verði loks upp í dvölina tekið frá oss, er dauðinn, sá mikli rukkari, réttir oss reikninginn yfir það sem skrifað var hjá oss. Þá verður oss ljóst að framar ei frestur gefst né færi á að ráðstafa nokkru betur. Því alls, sem lífið lánaði, dauðinn krefst í líku hlutfalli' og Metúsalem og Pétur.
Tómas Guðmundsson, Hótel Jörð
7 notes
·
View notes
Quote
Svo mánablíð og björt sem mjöll, ó, björt sem mjöll skein ásýnd þín. Og hingað komstu kvöldin öll og kvöldin öll var drukkið vín. Og stundin leið við ljóð og ást, við ljóð og ást. Ó, glaða stund og ljósu armar, liljumund. Ó, ljúfa stund, uns gæfan brást. En hví skal trega horfinn dag, sem heiður, bjartur framhjá rann? Og hví skal syrgja ljúflingslag, sem lífsglaðast í hjörtum brann? Um ást og vín bað æskan þín, og alls þess naut sá þúsundfalt, sem lifað hefur líf sitt allt einn ljúfan dag, við ást og vín. Ei þekkti ég ást sem aldrei dó. En ást sem gerði lífið bjart um stundarbið, ég þekkti þó. Og þegar næturhúmið svart um sálu mína síðast fer, og slekkur augna minna glóð, þá veit ég hvaða ljúflingsljóð mun líða hinst að eyrum mér: Ó, fagra veröld, vín og sól, ég þakka þér!
Tómas Guðmundsson, Fagra veröld
7 notes
·
View notes
Quote
Ég var álfaprinsessa kjóllinn minn var hvítur og saumuð á hann pappírsblóm álfaprinsinn kyssti mig og bauð mér sæti við hlið sér áhorfendur klöppuðu og við hneigðum okkur áðuren tjaldið féll seinna vildi álfaprinsinn kyssa mig í húsasundi og fékk að launum kinnhest sem allur bekkurinn hló að.
Ingibjörg Haraldsdóttir, Jólaskemmtun
25 notes
·
View notes
Quote
Augun mín og augun þín, ó, þá fögru steina mitt er þitt og þitt er mitt, þú veizt, hvað eg meina. Langt er síðan sá eg hann, sannlega fríður var hann, allt, sem prýða mátti einn mann, mest af lýðum bar hann. Þig eg trega manna mest mædd af tára flóði, ó, að við hefðum aldrei sést, elsku vinurinn góði. Engan leit eg eins og þann álma hreyti hjarta. Einn guð veit eg elskaði hann af öllum reit míns hjarta. Þó að kali heitur hver, hylji dali og jökul ber, steinar tali og allt, hvað er, aldrei skal eg gleyma þér. Augað snart er tárum tært, tryggð í partast mola, mitt er hjartað sárum sært, svik er hart að þola. Beztan veit eg blóma þinn, blíðu innst í reitum. Far vel Eyjafjörður minn, fegri öllum sveitum. Man eg okkar fyrri fund, forn þó ástin réni. Nú er eins og hundur hund hitti á tófugreni
Rósa Guðmundsdóttir, Vísur Vatnsenda-Rósu
32 notes
·
View notes
Quote
Veit duftsins son nokkra dýrðlegri sýn en drottnanna hásal í rafurloga? Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga! - Hver getur nú unað við spil og vín? Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín; mókar í haustsins visnu rósum. Hvert sandkorn í loftsins litum skín og lækirnir kyssast í silfurrósum. Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut af iðandi norðurljósum. Frá sjöunda himni að ránar rönd stíga röðlarnir dans fyrir opnum tjöldum, en ljóshafsins öldur, með fjúkandi földum, falla og ólga við skuggaströnd. Það er eins og leikið sé huldri hönd hringspil með glitrandi sprotum og baugum. - Nú mænir allt dauðlegt á lífsins lönd frá lokuðum brautum, frá myrkum haugum, og hrímklettar stara við hljóðan mar til himins, með kristalsaugum. Nú finnst mér það allt svo lítið og lágt sem lifað er fyrir og barist er móti. Þó kasti þeir grjóti og hati og hóti við hverja smásál ég er í sátt. Því bláloftið hvelfist svo bjart og hátt. Nú brosir hver stjarna þótt vonirnar svíki, og hugurinn lyftist í æðri átt, nú andar guðs kraftur í duftsins líki. Vér skynjum vorn þrótt, vér þekkjum í nótt vorn þegnrétt í ljóssins ríki. - Hve voldugt og djúpt er ei himinsins haf og hásigldar snekkjur, sem leiðina þreyta. Að höfninni leita þær, hvort sem þær beita í horfið - eða þær beygja af. En aldrei sá neinn þann sem augað gaf - og uppsprettur ljóssins ei fundnar né skýrðar. Með beygðum knjám og með bænastaf menn bíða við musteri allrar dýrðar. En autt er allt sviðið og harðlæst hvert hlið og hljóður sá andi, sem býr þar.
Einar Benediktsson, Norðurljós
8 notes
·
View notes
Quote
Hér sit ég einn, með sjálfstraustið mitt veika, á svörtum kletti, er aldan leikur við. Á milli skýja tifar tunglið bleika, og trillubátar róa fram á mið. Af synd og fleiru sál mín virðist brunnin. Ó, sestu hjá mér, góði Jesú, nú, því bæði ertu af æðstu ættum runninn og enginn þekkir betur Guð en þú. - - Og um það mál við aldrei megum kvarta, því uppi á himnum slíkt er kallað suð, en ósköp skrýtið er að eiga hjarta, sem ekki fær að tala við sinn Guð. Hver síðastur þú sagðir að yrði fyrstur, en svona varð nú endirinn með þig. Og úr því að þeir krossfestu þig, Kristur, hvað gera þeir við ræfil eins og mig?
Vilhjálmur frá Skáholti, Jesús Kristur og ég
38 notes
·
View notes
Quote
Hún hokin sat á tröppu, en hörkufrost var á, hnipraði sig saman, uns í kufung hún lá, og kræklóttar hendurnar titra til og frá, um tötrana fálma, sér velgju til að ná. Og augað var sljótt sem þess slokknað hefði ljós í stormabylnum tryllta, um lífsins voða-ós það hvarflaði glápandi, stefnulaust og stirt, og staðnæmdist við ekkert - svo örvæntingarmyrkt. Á enni sátu rákir og hrukka, er hrukku sleit, þær heljarrúnir sorgar, er engin þýða veit. Hver skýra kann frá prísund og plágum öllum þeim, sem píslarvottar gæfunnar líða hér í heim? Hún var kannski perla, sem týnd í tímans haf var töpuð og glötuð, svo enginn vissi af, eða geimsteinn, sem forðum var greyptur láns í baug, - en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug.
Gestur Pálsson, Betlikerling
20 notes
·
View notes
Quote
Þegar allt hefur verið sagt þegar vandamál heimsins eru vegin metin og útkljáð þegar augu hafa mæst og hendur verið þrýstar í alvöru augnabliksins - kemur alltaf einhver kona að taka af borðinu sópa gólfið og opna gluggana til að hleypa vindlareyknum út. Það bregst ekki.
Ingibjörg Haraldsdóttir, Kona
82 notes
·
View notes
Quote
Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað, og ljóðin, er þutu um þitt blóð frá draumi til draums, hvar urðu þau veðrinu að bráð, ó barn, er þig hugðir borið með undursamleikans eigin þrotlausan brunn þér í brjósti, vinur? Við svofelld annarleg orð, sem einhver rödd lætur falla á vorn veg ? eða að því er virðist vindurinn blæs gegnum strætin, dettur oss, svefngöngum vanans, oft drykklanga stund dofinn úr stirðnuðum linum. Og spunahljóð tómleikans lætur í eyrum vor lægra. Og leiðindin virðast í úrvinda hug vorum sefast. Og eitthvað, er svefnrofum líkist, á augnlok vor andar, vér áttum oss snöggvast til hálfs, og skilningi lostin hrópar í allsgáðri vitund vor sál: Hvar! Ó hvar? Er glatað ei glatað? Gildir ei einu um hið liðna, hvort grófu það ár eða eilífð? Unn þú mér heldur um stund, að megi ég muna, minning, hrópandi rödd, ó dvel! En æ, hver má þér með höndum halda, heilaga blekking! Sem vængjablik svífandi engla í augum vaknandi barna ert þú hverful oss, hversdagsins þrælum, og óðar en sé oss það ljóst, er undur þitt drukknað í æði múgsins og glaumsins. Svo höldum vér leið vorri áfram, hver sína villigötu, hver í sínu eigin lífi vegvilltur, framandi maður; og augu vor eru haldin og hjörtu vor trufluð af hefð og löggrónum vana, að ljúga sjálfan sig dauðan… En þei, þei, þei, - svo djúpt er vor samvizka sefur, oss sönglar þó allan þann dag við eirðarlaus eyrun eitthvað þvílíkt sem komið sé hausthljóð í vindinn, eitthvað þvílíkt sem syngi vor sálaða móðir úr sjávarhljóðinu í fjarska. Og eyðileik þrungið hvíslar vort hjarta hljótt út í bláinn: Hvar? … Ó hvar?
Jóhann Jónsson, Söknuður
13 notes
·
View notes
Quote
I Skáldsaga og ljóð skiptust á svofelldum skætingi á dögunum: Ljóðið kvað: Ég er leitt á sögunum. Skáldsagan mælti: Það er skömm að ljóðunum, reykur, reykur, sem rýkur úr hlóðunum. Ljóðið kvað: Það lifir í glæðunum. Þú ert aska, en eldur í kvæðunum. II Enn tók sagan í sama strenginn: Þú ert ljómandi í skáp, en það les þig enginn. Ljóðið kvað: Þú ert lítils virði. Botninn er uppi í Borgarfirði. Burtu skundaði skáldsagan hreykin, var þungt fyrir brjósti, þoldi ekki reykinn. En ljóðið söng: Ég á síðasta leikinn.
Davíð Stefánsson, Skáldsagan og ljóðið
21 notes
·
View notes
Quote
Lítill drengur lófa strýkur létt um vota móðurkinn, - augun spyrja eins og myrkvuð ótta og grun í fyrsta sinn: Hvar er amma, hvar er amma, hún sem gaf mér brosið sitt yndislega og alltaf skildi ófullkomna hjalið mitt? Lítill sveinn á leyndardómum lífs og dauða kann ei skil: hann vill bara eins og áður ömmu sinnar komast til, hann vill fá að hjúfra sig að hennar brjósti sætt og rótt. Amma er dáin - amma finnur augasteininn sinn í nótt. Lítill drengur leggst á koddann - lokar sinni þreyttu brá, uns í draumi er hann staddur ömmu sinni góðu hjá. Amma brosir - amma kyssir undurblítt á kollinn hans. Breiðist ást af öðrum heimi yfir beð hins litla manns.
Jóhannes úr Kötlum, Ömmuljóð
12 notes
·
View notes
Quote
Ég hélt ég væri smámey og hugðist vera til eins og hitt fólkið um bæinn. Og vorið kom og glóði um glugga mína og þil allan guðslangan daginn. Og sextán ára varð ég á vegin hins unga manns. Þá lá vorið yfir sænum. Og sumarnætur margar ég svaf á örmum hans. Ég var sælust allra í bænum. En vindar hafa borið margt visnað skógarblað um veginn, sem við gengum. Því meðan hjörtun sofa býst sorgin heiman að, og sorgin gleymir engum. Og seinna vissi eg betur, að birtan hverfur ótt og brosin deyja á vörum. Því seinna hef ég vakað við sæng hans marga nótt. Þeir sögðu hann vera á förum. Þá talaði hann oft um hið undarlega blóm, sem yxi í draumi sínum. Og orð, sem gáfu tungu hans töfrabjartan róm, urðu tár í augum mínum. Svo tóku þeir úr örmum mér hinn unga fagra svein og eftir var ég skilin. Við sængina hans auða ég vaki síðan ein, unz sólin roðar þilin. En systur mínar, gangið þið stillt um húsið hans, sem hjarta mitt saknar. Ég er dularfulla blómið í draumi hins unga manns, og ég dey, ef að hann vaknar.
Tómas Guðmundsson, Þjóðvísa
12 notes
·
View notes
Quote
Lítil stúlka. Lítil stúlka. Lítil svarteyg dökkhærð stúlka liggur skotin. Dimmrautt blóð í hrokknu hári. Höfuðkúpan brotin. Ég er Breti, dagsins djarfi dáti, suður í Palestínu, en er kvöldar klökkur, einn, kútur lítill, mömmu sveinn. Mín synd er stór. Ó, systir mín. Svarið get ég, feilskot var það. Eins og hnífur hjartað skar það, hjarta mitt, ó, systir mín, fyrirgefðu, fyrirgefðu, anginn litli, anginn minn. Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.
Kristján Einarsson frá Djúpalæk, Slysaskot í Palestínu
#Kristján frá Djúpalæk#Kristján Einarsson#poem#poetry#icelandic poetry#icelandic#ljóð#íslenska#íslensk ljóð
15 notes
·
View notes
Quote
Verndi þig englar, elskan mín, þá augun fögru lykjast þín, líði þeir kringum hvílu hljótt á hvítum vængjum um miðja nótt. Nei, nei það varla óhætt er englum að trúa fyrir þér, engill ert þú og englum þá of vel kann þig að lítast á.
Steingrímur Thorsteinsson, Verndi þig englar
89 notes
·
View notes
Quote
Ástarstjörnu yfir Hraundranga skýla næturský. Hló hún á himni, hryggur þráir sveinn í djúpum dali. Veit ég, hvar von öll og veröld mín glædd er guðs loga. Hlekki brýt ég hugar og heilum mér fleygi faðm þinn í. Sökkvi eg mér og sé ég í sálu þér og lífi þínu lifi. Andartak sérhvert, sem ann þér guð, finn ég í heitu hjarta. Tíndum við á fjalli, tvö vorum saman, blóm í hárri hlíð. Knýtti ég kerfi og í kjöltu þér lagði ljúfar gjafir. Hlóðstu mér að höfði hringum ilmandi bjartra blágrasa, einn af öðrum, og að öllu dáðist, og greipst þá aftur af. Hlógum við á heiði, himinn glaðnaði fagur á fjalla brún. Alls yndi þótti mér ekki vera utan voru lífi lifa. Grétu þá í lautu góðir blómálfar, skilnað okkarn skildu. Dögg það við hugðum, og dropa kalda kysstum úr krossgrasi. Hélt eg þér á hesti í hörðum straumi, og fann til fullnustu, blómknapp þann gæti eg borið og varið öll yfir æviskeið. Greiddi eg þér lokka við Galtará vel og vandlega. Brosa blómvarir, blika sjónstjörnur, roðnar heitur hlýr. Fjær er nú fagurri fylgd þinni sveinn í djúpum dali. Ástarstjarna yfir Hraundranga skín á bak við ský. Háa skilur hnetti himingeimur, blað skilur bakka og egg. En anda, sem unnast, fær aldregi eilífð að skilið.
Jónas Hallgrímsson, Ferðalok
9 notes
·
View notes