#reykjavegan
Explore tagged Tumblr posts
Text
Uppskrift: Einfalt og gott spagettí með tofu „hakki“ í tilefni af #Veganúar í Heilsuhúsinu
Innihald:
½ pakki Biona heilhveiti Spagettí
½-1 flaska Biona basil passata
1 krukka Biona tofu
Grænmeti að eigin vali, ef vill! -> Ég notaði frosið lífrænt spínat. (Nokkrar tillögur að grænmeti sem passar við: sveppir, spínat, brokkolí, gulrætur, baunir)
Krydd + hvítlaukur ef vill! -> Ég notaði himalaya salt, svartan pipar, ítalska kryddblöndu og hvítlaukskrydd
Næringarger til að toppa með (svoldið eins og parmesan!)
Smá góð ólífuolía (ef vill)
Aðferð:
Byrjaðu á að sjóða pasta í potti með heitu vatni og smá himalaya salti. Pastað tekur lengstan tíma svo það er gott að koma því í gang áður en nokkuð annað er gert.
Þá er að brjóta tofu kubb niður í “hakk” með gafli.
Því næst steikir þú tofu upp úr svolítið af olíu á miðlungs hita (ég miða við svona 6/10) þar til það byrjar að taka smá lit og þorna, þá er gott að bæta við grænmeti ef vill (ég notaði frosið grænmeti svo ég lækkaði hitann örlítið og lengdi steikingartímann á móti)
Þegar grænmeti og tofu er farið að mýkjast og blandast sællega saman er gott að bæta smá kryddi við (þetta skref er valkvætt, það er krydd í sósunni, en ég er svolítil more is more týpa þegar kemur að kryddun) - og svo bara halda áfram að krukka í pönnunni og leyfa brögðunum að blandast, lækka undir spagettíinu sem er líklega orðið næstum alveg tilbúið á þessum tímapunkti og leyfi því að malla rólega með á lágum hita svo það kólni ekki.
Þegar tofuið (og grænmetið) er orðið brúnað og fallegt er kominn tími á sósuna. Það fer algerlega eftir dögum hvort ég vil nóg af sósu yfir allt eða reyni að ná að halda pasta og sósu nokkuð aðskildu - í dag valdi ég að nota alla flöskuna. Þegar sósan er komin á er gott að leyfa blöndunni enn og aftur, að malla aðeins. Ég vil sjá svolítið af vökva að gufa upp og blönduna þykkjast.
Mér finnst næs að setja góða ólífuolíu út á pastað og hræra saman, en ég blanda vanalega ekki sósunni og pastanu saman, sósan með gotteríinu fer bara ofan á pastafjallið eins og ljúffeng tofu húfa og þá getur fólk stjórnað hlutföllunum sínum sjálft.
Þá er ekkert eftir nema að toppa með ljúffengu næringargeri, bera fram og njóta!
Þessi uppskrift er einföld, nokkuð fljótleg, bíður upp á það að nota bara „það sem er til í skápnum“ ef letin herjar á og inniheldur fullt af próteini og trefjum, og ekki skemmir bragðið fyrir!
Uppskriftin var unnin í samstarfi við Heilsu og Heilsuhúsið.
0 notes
Text
VEGAN & ÓLÉTT: FYRSTI HLUTI
Þessa dagana er ég ófrísk í annað sinn sem hefur verið, tjah, bara rosalega allskonar, eins og gengur og gerist. Það virðist hinsvegar vera eðli mitt í þessum fasa að verða algjört óléttunörd. Ég les allar bækurnar, prufa allar snyrtivörurnar og sökkvi mér í öll helstu tips og tricks til þess að gera þessa líkamlega krefjandi tíma aðeins huggulegri. Þar sem þessi þekking gæti hugsanlega gagnast öðrum vegan bumbulínum og vegna þess að það er alls ekkert allt sem er markaðssett fyrir óléttar konur vegan, langaði mig að taka saman smá lista af frábærum vegan vörum sem ég hef kynnst undanfarna mánuði og hvar þær er að finna. Spoiler alert: Þegar mér líður ekki nægilega vel í líkamanum, eins og til dæmis núna á 8 mánuðinum, þá er ég rosalega fljót að vinda mér út í hverskonar sjálfsdekur, eða jafnvel að úthýsa dekrinu og fara í nudd (ef það verður bráðum keyptur nýr pottur í spaið á Hilton hótelið í Lágmúla þá verður hann í mínu boði, meðgöngunuddið þar er FRÁBÆRT og ég forgangsraða því mjög ofarlega í mánaðarlegum heimilisútgjöldum). En ég trúi fastlega á það sem Cassandra Bankson (sjúklega hress vegan og CF húðvörubloggari, mæli með!) segir alltaf "Skincare is self-care", smá dekur er dásamlegt og oft hreinlega ómissandi.
Hefjast þá meðmæli!
1. Vítamín & Bætiefni
Prental Multivitamin Complex - Terranova*
Ég hef notað þessa vöru á báðum meðgöngum og er alltaf jafn hrifin. Terranova línan er öll vegan og unnin úr fyrsta flokks hráefnum og þessi tiltekna blanda inniheldur allt það helsta sem ófrískar konur þurfa á að halda (td. fólinsýru, Omega 3, D3, járn) auk ýmissa frábærra jurta og er laust við óæskileg vítamín á meðgöngu (A-vítamín). Einhversstaðar hef ég séð talað um að þetta gæti lagst illa í magan á sumum, ég hef ekki upplifað það sjálf en ef einhver lendir í því mæli ég með því að prufa að taka vítamínin frekar fyrir háttinn heldur en á morgnanna, það gerir oft gæfu muninn. Terranova línan fæst til dæmis í Heilsuhúsinu og Lyfju.
- Magnesíum
Ég er af þeim heilsunördaskóla sem trúir því að magnesíum sé svarið, nær algerlega óháð því hver spurningin er, en magnesíum er aldrei mikilvægara heldur en á meðgöngunni þar sem það hjálpar meðal annars meltingunni (aka vinnur gegn harðlífi) og dregur úr hættu á sinadráttum (einum allra illkvittnislegasta fylgifiski þessa ferlis!). Hvað magnesíum varðar þá er ég alltaf svolítil "more is more" týpa, en ég er reyndar með mjög lata meltingu og má örugglega meira við því að dæla í mig magnesíumi heldur en mörg, hlustið á líkamana ykkar. Ég er heilt yfir ekki hrifin af því að taka inn kal+mag blöndur og tek þetta oftast í sitthvoru lagi. Á meðgöngunni sérstaklega, þegar mér finnst mikilvægt að fá nóg magnesíum. Þá vel ég annaðhvort vatnsuppleysanlegt magnesíum sem má drekka (hér er dæmi um vegan þannig vöru frá KAL sem ég var að rekast á en ætla að prufa!) eða Magnesium Medica sem fæst í apótekum án lyfseðils (varan er ekki merkt vegan frekar en lyf svona almennt, en ég fæ ekki betur séð en að hún sé það).
- Kalk
Kalk er alls ekki síður mikilvægt, í ljósi þess að barnið herjar á kalkbirgðir móður meðan það er í maganum og sækir það í tennur og bein ef það fæst ekki annarsstaðar (1. Oj! /2. Verði þér að góðu, ungviði!/ 3. Það er ekki óæskilegt að eiga tannlæknistíma frátekinn eftir að barnið fæðist). Úrvalið af kalki svona heilt yfir er ágætt, en megnið af kalki er ekki vegan. Ég hef verið að taka Super Calcium* frá Higher Nature undanfarið, það er mjög vandað og fæst til dæmis í Heilsuhúsinu. - Omega 3
Omega 3 er ómissandi fitusýra og ein af þeim efnum sem erfitt er að fá nóg af á vegan fæði. Það er meira að segja ekki sjálfgefið að finna vegan Omega 3 bætiefni, en það eru þó loksins komnir nokkrir kostir til þess að velja á milli.
Together Omega 3 blandan er sérstaklega vönduð. Hún fæst til dæmis í Vegan búðinni.
Terranova Omega 3-6-7-9 olían
Fyrir þau sem eru ófeimin við að taka inn olíur (mér finnst það persónulega smá stemning, minnir mig á að fá lýsi hjá afa í gamladaga #sorrynotsorry) og þessi olíublanda er bragðbetri en aðrar Omega blöndur sem ég hef smakkað. Olían inniheldur, eins og nafnið gefur til kynna, Omega 3, 6, 7 og 9 og hefur fjöldan allan af góðum áhrifum, umfram það að hjálpa okkur að nálgast Omega 3.
Omega olían frá Terranova fæst til dæmis í Heilsuhúsinu.
2. Húð og dekur Ef það er einhverntíman við hæfi að taka frá smá auka tíma til þess að dúlla við sig, þá er það á meðgöngunni!
Ég er almennt talskona hreinna og náttúrulegra snyrtivara, en það er aldrei mikilvægara heldur en einmitt á meðgöngunni þegar óæskileg efni sem við komumst í snertingu við hafa einnig áhrif á krílin okkar.
Hér eru nokkrar frábærar náttúrulegar dekurvörur:
- (Bumbu)olíur
Morgunfrúar nuddolía frá Funky Soap* Uppáhalds olían mín á þessari meðgöngu hefur verið ljúfa Morgunfrúar nuddolían sem fæst í Vistveru. Olían er ekki sérstaklega hugsuð sem bumbuolía en hún smýgur hratt inn í húðina, nærir dásamlega, ilmar þeim mun betur og er svo fallega full af blómum, mér líður alltaf eins og algerri galdrakonu þegar ég ber hana á bumbuna, mér finnst hún engu síðri bumbuolía en hver önnur, þvert á móti raunar! Ekki skemmir fyrir að hún er á fínu verði. Athugið að þetta er venjuleg nuddolía sem lofar engu um að bjarga okkur frá slitum (ég trúi persónulega ekki heldur að það sé hægt) en ég nota stundum E-vítamín olíu (keypti þessa pínulitlu frá Jäson á Heimkaupum og hún ætlar að endast endalaust) samhliða henni til þess að reyna að gefa húðinni smá auka næringarboost og teygjanleika. E-vítamín olía er líka bara frábær út af fyrir sig!
Smá innskot: svo það komi fram áður en ég mæli með sérhæfðri bumbuolíu sem gerir út á að draga úr slitförum, þá trúi ég því ekki að það sé hægt að sporna verulega við slitum. Sjálf reyndi ég það eftir bestu getu á fyrstu meðgöngu. Bar á mig slitolíu og e-vítamínkrem 2 á dag og gerði allt „rétt“ - en svo vill bara til að margar konur í minni fjölskyldu fá hlutfallslega rosalega stórar kúlur og eru sennilega ekki með brjálæðislega teygjanlega húð, og við fáum bara slit hingað og þangað og það er ekkert við því að gera. En sem betur fer venjast slit. Í dag þykir mér vænt um þau og þótti gaman að fylgjast með þeim lýsast og breytast áður en ég varð aftur ólétt, þó svo ég viðurkenni að ég hafi alls ekki tekið þau í sátt um leið og þau birtust.
Þessi klassíska, Meðgöngu-og slitolían frá Weleda
Á fyrstu meðgöngunni minni óð ég í gegn um að minnsta kosti þrjár svona flöskur og var hársbreidd frá því að baða mig í þessu stöffi... og fékk nett ógeð á henni eftir meðgönguna sem ég komst ekki yfir áður en ég varð aftur ólétt. En þetta er dásamleg olía sem mýkir og smýgjur mjúklega inn í húðina, það er voðalega notalegt að bera hana á sig, til dæmis fyrir háttinn og ég geymi hana alltaf á náttborðinu. Til þess að breyta aðeins um lykt skellti ég nokkrum dropum af lavender og sítrónu ilmkjarnaolíum ofan í og það er allt annað líf, ég er aftur mjög hrifin af henni!
Ef þú ert eins og ég, skeptísk á að það sé hægt að fyrirbyggja slit, en vilt samt bara hafa það notalegt á kvöldin og jafnvel sofna aðeins hraðar, þá gætirðu líka prufað lavender nuddolíuna frá Welda, hún er dásamlegur streitubani. Eða notað báðar! Ég mæli með lavender olíunni á háls og herðar fyrir háttinn. Weleda vörurnar (og ilmkjarnaolíur ef ykkur langar til þess að djúsa þær aðeins upp) fást í öllum betri búðum og apótekum.
- Almennt dekur
Verandi sturtusápan*
Eini ókosturinn við þessa sápu er hversu fljót við fjölskyldan erum að klára dúnkana afþví við elskum hana svo mikið. Fyrir þau sem ekki þekkja til Verandi þá eru vörurnar unnar úr endurnýttum hráefnum, ótrúlega vandaðar, mildar og frískandi. Ég er ekki vöknuð á morgnanna fyrr en ég er búin að finna þessa uppáhalds lykt mína.
Vörurnar frá Verandi fást til dæmis í vefversluninni þeirra.
Mádara collagen serum + andlitskrem*
Ég er Mádara kona í húð og hár og prufa lang flest sem frá þeim kemur, enda allt frábærar náttúrulegar og ofnæmisvænar vörur. Þar sem collagen vörur eru oftast til ekki vegan þá hafði ég ekki mikla reynslu af collagen húðvörum (hef prufað mig áfram með fjöldan allan af vondum vegan collagen bætiefnum hinsvegar, jakk!) áður en ég keypti þessar í vetur og það kom mér skemmtilega á óvart hvað ég finn mikinn mun á húðinni á mér þegar ég nota þær. Húðin verður slétt og sælleg og líður vel (ég er með mjög dramatíska húð sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er, svo þessi meðmæli eru hreint ekki sjálfsögð). Mádara fæst til dæmis í Heilsuhúsinu og Lyfju.
__________________________________________________________
Er þetta allt og sumt? Nei! ALLS EKKI! Ég hef frá svo mörgu að segja! En nú er ég komin upp í myndakvótann sem Tumblr leyfir per færslu svo ég vænti þess að ég verði bara að gera hluta 2 ef ég ætla að koma öllu fyrir sem mig langar að segja frá!
Varðandi stjörnumerktar vörur: *Ég er/hef verið í samstarfi við söluðaðila vöru og/eða hef fengið vöruna að gjöf.
Framhald bráðlega!
1 note
·
View note