Reykjavegan er blogg sem lætur sig allt varða sem vel er vænt og grænt á íslandi. Helstu áherslur eru þó vegan vöru-og matarframboð, hollráð og uppskriftir. Bloggið hófst árið 2018 með aðaláherslu á uppskriftagerð og bjó þá á samfélagsmiðlum, en hefur fært sig um set eftir langan dvala og vill verða alvöru blogg! Reykjavegan má hinsvegar enn finna á samfélagsmiðlum: /FB: https://www.facebook.com/reykjavegan /IG: https://www.instagram.com/reykjavegan_ Veganistan á bakvið bloggið er Sunna Ben: www.instagram.com/sunnaben
Don't wanna be here? Send us removal request.
Text
Vegan & Skuggalega einfalt: Kanilsnúðar og Kardemommusnúðar
Vissir þú að klassísku frosnu kanilsnúðarnir frá Findus og kardemommubollurnar þeirra (sem ég heeeld að séu nýleg vara? Allavegana NAMMI!) eru vegan?!
Fullkomið til þess að eiga í frystinum til þess að geta gengið í augun á óvæntum gestum án fyrirhafnar eða bara til þess að gleðja sjálft sig og fjölskylduna, þetta hefur amk ekki klikkað enn á mínu heimili!
Kanilsnúðarnir fást í flestum búðum ef mér skjátlast ekki, kardemommubollurnar hef ég keypt í Melabúðinni, þar sem allt fæst!
0 notes
Text
Vegan & Skuggalega einfalt: Uppskrift!
Uppáhalds maturinn okkar skötuhjúa undanfarna mánuði hefur verið „kjötbollur“ og kartöflur með brúnni sósu síðan við komumst að því á ferðalagi með vinum í sumar að piparsósugrunnurinn frá Toro er vegan! GEIMTJEINGER!
Langar þig í ljúffengar kjötbollur en nennir ekki að skutlast í Ikea eftir þeim? Tékkaðu á þessu!
Það sem þú þarft:
- Góðar vegan kjötbollur: Við notum oftast Anamma bollurnar sem eru mjög góðar og mjög ódýrar, bið ekki um meir!
- Toro Peppersaus - fæst í sósu-og krydddeildum flestra verslana
- Sveppir og smjörklípa (má sleppa, en það er samt svo mikill missir... að mínu mati!)
Næs meðlæti: - Ofbakað rótargrænmeti: Við erum að vinna með blöndu af venjulegum kartöflum, sætum kartöflum og gulrótum. Þetta fer allt í ofnfast mót og yfir setjum við til dæmis Herbs de Province kryddblöndu, svoldið hvítlaukskrydd og Herbamare salt, eða bara hvað sem ykkur langar í þann daginn. Þetta fer svo inn í ofn í góðan tíma á ágætis hita þangað til allt er mjúkt, brúnað og lovlý. --> Ef þið viljið smá sætu í ofnbakaða grænmetið mæli ég með sykurlausa GOOD GOOD sýrópinu út á með olíunni, thank me later! - Sulta: Við notum alltaf GOOD GOOD, hindberjasultan er mjög næs með!
Aðferð:
- Best er að byrja á að koma rótargrænmetinu í ofninn ef þið viljið hafa það með, það þarf lengstan tíma!
- Steikja kjötbollur rólega upp úr smá olíu eða ofnbaka ef þið viljið það frekar, hvort tveggja sjúklegt.
- Skera sveppi niður í litla bita og steikja upp úr smjöri (naturli ofc) á botninum á potti þar til þeir brúnast og sveppailmurinn byrjar að dáleiða þig - þá má bæta innihaldi sósunnar ofan í. Upprunalega uppskriftin á pakkanum talar um mjólk, við notum ýmist soya eða haframjólk og þær virka báðar mjög vel.
- Restin er svo einföld að það er hálf erfitt að útskýra hana, en í stuttu máli viljum við brúnað og mjúkt rótargrænmeti, smá harða skel utan á kjötbollurnar og þykka og djúsí brúna sósu, slurp!
EXTRA LETI HAX: ef þið nennið alls ekki að föndra rótargrænmeti mæli ég með því að kasta bara forsoðnum kartöflum á pönnuna með bollunum þegar þær eru næstum alveg tilbúnar og leyfa að brúnast smá saman. Það dregur talsvert úr tímanum sem þetta tekur og er ennþá úgeðslega gott!
Verði ykkur að góðu!
- Sunna
0 notes
Text
Uppskrift: Einfalt og gott spagettí með tofu „hakki“ í tilefni af #Veganúar í Heilsuhúsinu
Innihald:
½ pakki Biona heilhveiti Spagettí
½-1 flaska Biona basil passata
1 krukka Biona tofu
Grænmeti að eigin vali, ef vill! -> Ég notaði frosið lífrænt spínat. (Nokkrar tillögur að grænmeti sem passar við: sveppir, spínat, brokkolí, gulrætur, baunir)
Krydd + hvítlaukur ef vill! -> Ég notaði himalaya salt, svartan pipar, ítalska kryddblöndu og hvítlaukskrydd
Næringarger til að toppa með (svoldið eins og parmesan!)
Smá góð ólífuolía (ef vill)
Aðferð:
Byrjaðu á að sjóða pasta í potti með heitu vatni og smá himalaya salti. Pastað tekur lengstan tíma svo það er gott að koma því í gang áður en nokkuð annað er gert.
Þá er að brjóta tofu kubb niður í “hakk” með gafli.
Því næst steikir þú tofu upp úr svolítið af olíu á miðlungs hita (ég miða við svona 6/10) þar til það byrjar að taka smá lit og þorna, þá er gott að bæta við grænmeti ef vill (ég notaði frosið grænmeti svo ég lækkaði hitann örlítið og lengdi steikingartímann á móti)
Þegar grænmeti og tofu er farið að mýkjast og blandast sællega saman er gott að bæta smá kryddi við (þetta skref er valkvætt, það er krydd í sósunni, en ég er svolítil more is more týpa þegar kemur að kryddun) - og svo bara halda áfram að krukka í pönnunni og leyfa brögðunum að blandast, lækka undir spagettíinu sem er líklega orðið næstum alveg tilbúið á þessum tímapunkti og leyfi því að malla rólega með á lágum hita svo það kólni ekki.
Þegar tofuið (og grænmetið) er orðið brúnað og fallegt er kominn tími á sósuna. Það fer algerlega eftir dögum hvort ég vil nóg af sósu yfir allt eða reyni að ná að halda pasta og sósu nokkuð aðskildu - í dag valdi ég að nota alla flöskuna. Þegar sósan er komin á er gott að leyfa blöndunni enn og aftur, að malla aðeins. Ég vil sjá svolítið af vökva að gufa upp og blönduna þykkjast.
Mér finnst næs að setja góða ólífuolíu út á pastað og hræra saman, en ég blanda vanalega ekki sósunni og pastanu saman, sósan með gotteríinu fer bara ofan á pastafjallið eins og ljúffeng tofu húfa og þá getur fólk stjórnað hlutföllunum sínum sjálft.
Þá er ekkert eftir nema að toppa með ljúffengu næringargeri, bera fram og njóta!
Þessi uppskrift er einföld, nokkuð fljótleg, bíður upp á það að nota bara „það sem er til í skápnum“ ef letin herjar á og inniheldur fullt af próteini og trefjum, og ekki skemmir bragðið fyrir!
Uppskriftin var unnin í samstarfi við Heilsu og Heilsuhúsið.
0 notes
Text
Dásamlegar vegan dekurolíur fyrir óléttar konur (eða bara öll sem langar að gefa sér smá dekur)
Ég vil byrja á að taka það fram að ég er ekki af þeirri skoðun að ég trúi því að hægt sé að koma í veg fyrir slitför. Á fyrstu meðgöngunni minni reyndi ég allt sem ég gat. Ég bar á mig sértilgerðar bumbuolíur kvölds og morgna og E-vítamín krem þess á milli og var svo miður mín þegar ég sá nokkuð snemma á meðgöngunni að ég var að fá slit. Undir lok meðgöngu var ég orðin vel skreytt slitum og skildi ekkert í því, þar til ég fór að lesa mér meira til um meðgöngu, fæðingu og kvenlíkamann yfir höfuð. Margt bendir til þess að líkurnar á því að fá slitför á meðgöngu sé ættgengt, í mínu tilfelli átti það við, auk þess sem ég er einfaldlega frekar lítil kona sem fær alltaf RISA stórar óléttubumbur, það er kannski engin furða að húðin mín finni ekki hjá sér mikinn aukinn teygjanleika á leifturhraða til þess að bregðast við þessum bumbum. Og í dag veit ég að það er bara allt í lagi, svona er lífið og núorðið finnast mér tígrisrendurnar á bumbunni bara svoldið töff ummerki um krefjandi ferðalög sem skila þvílíkum dásemdar ávöxtum.
EN það er annað sem ég trúi mjög innilega á og það er að fólk þurfi að gera eins vel við sig, eða óléttu maka sína, og hægt er á þessum krefjandi ferðalögum. Sjálfsdekur er að mínu mati dýrmætt og hollt öllum, en sérstaklega er það mikilvægt í kring um barnsburð, þá bæði á meðgöngunni og eftir fæðingu þegar líkaminn er þreyttur og hormónarnir í hæstu hæðum. Það er ótrúlegt hvað það að ákveða að gefa sér smá tíma í friði til þess að hlúa að líkamanum getur gert mikið fyrir andlega líðan, jú og vissulega líkamann í leiðinni. Þess vegna hef ég á báðum meðgöngum og þar í kring (eldri sonur minn er 3 ára, ég er núna gengin rúma 8 mánuði með yngri soninn) sett mér það markmið að gera eins vel við mig og ég mögulega get, afþví þessu langa ferli fylgja vissulega ýmis líkamleg óþægindi sem erfitt er að komast hjá og þá er gott að vega upp á móti með reglulegum huggulegheitum.
Frábær dæmi um dekur sem eiga vel við á/eftir meðgöngu eru til dæmis: fótabað, djúsí maskar, safarík serum, nærandi andlitskrem, ljúdar líkamsolíur, frábær fótakrem, kúl kroppakrem og allt sem lætur þér líða eins og þú sért að fá það dekur sem þú átt skilið, því öll eigum við það skilið! Athugaðu samt að á meðgöngunni skiptir jafnvel enn meira máli en vanalega að nota hreinar og góðar vörur, eða búa þær til sjálf úr hráefnum sem þú getur treyst. Svo er auðvitað ekki síður gott fyrir líkama og sál að komast í meðgöngujóga, flot, nudd eða hugleiðslu og borða góðan og nærandi mat (ef þú mögulega getur, það er ekkert sjálfsagt með ógleði og bakflæði og hvaðeina, látið mig þekkja það!) og muna að taka vítamín við hæfi, barnið tekur nefnilega af þínum skömmtum.
En tölum nú um heimadekrið!
Ég elska að búa til húðvörur heima og prufa mig áfram með allskonar ilmblöndur, ég grínast stundum um það að ég lifi lífinu óvenjulega mikið gegn um nefið afþví ég er svo næm og viðkvæm fyrir lyktum, en fátt gleður mig meira en að finna virkilega góða og náttúrulega ilmi. Að því sögðu á ��g líka í svolítið flóknu sambandi við ilmvötn og snyrtivörur þar sem ég er með ofnæmi fyrir örugglega 80+% af kemískum snyrtivörum og ilmvötnum, sem hefur verið hvetjandi í að kynnast náttúrulegum snyrtivörum og ilmum og læra að búa til vörur úr innihaldsefnum sem ég þekki.
Hér að neðan fylgja tvær uppskriftir af dekur-bumbuolíum sem ég vann í samvinnu við Heilsu úr Aqua Oleum vörum sem finna má í Heilsuhúsinu, til dæmis. Önnur olían hentar vel til að koma sér í gírinn á morgnanna og sú seinni hjálpar okkur að finna ró fyrir háttinn. Ég vil eins og áður kom fram, frekar líta á olíurnar sem dekurolíur heldur en vörn gegn slitförum, þó þær geti að sjálfsögðu verið það. Ágæti þeirra er þó algerlega óháð því hvort konur slitni eða ekki, þar sem það kann að vera óhjákvæmilegt hjá mörgum okkar. Þær eru búnar til úr ýmsu góðgæti sem getur hjálpað húðinni að takast á við álagið sem því fylgir að þurfa að teygjast mikið og hratt, svo eru þær nærandi og ilma dásamlega. Auk þess finnst mér verðugt markmið að reyna að taka frá stund daglega, til dæmis fyrir háttinn, til þess að dekra við bumbuna. Gefa duglega líkamanum þínum og litlu manneskjunni sem hann er að rækta óskipta athygli, þó ekki sé í nema nokkrar mínútur, til þess að tengja við líkamann þinn sem virðist breytast mínútna á milli á þessum tíma. Þetta hjálpaði mér mikið á fyrri meðgöngu þar sem ég fékk heiðarlega risastóra bumbu, en ég var algjört písl þegar ég varð ólétt. Mér fundust breytingarnar erfiðar (ekki síst athugasemdirnar sem stórri bumbu fylgdu) en það að vera í góðu sambandi við líkamann hjálpaði mikið að sporna gegn spéhræðslu og ótta við breytingarnar, jú og slitin sem komu snemma og eru mörg.
Hvaða grasagrams og náttúrulækningar varðar þá hef ég lengi verið áhugasöm um þau fræði, enda alin upp á heimili þar sem óhefðbundin hollusturáð, jurtatínsla og jurtafæði tíðkuðust frá því ég man eftir mér. Það hefur því alltaf verið mér eðlistætt að hugsa um heilsu á heildrænan máta og reyna að bregðast við hverskonar kvillum á sem náttúrulegasta máta. Hvað ilmkjarnaolíur varðar þá hef ég meðal annars setið námskeið í notkun þeirra í hreingerningar og snyrtivörugerð, lesið ýmiskonar bækur og spurt mér fróðari konur ráða (til dæmis Lindu í Heilsuhúsinu Lágmúla sem er þvílíkur viskubrunnur!) og er enn að sanka að mér þekkingu. Í stuttu máli þá er ég ekki sérmenntuð í faginu, en er stöðugt að safna þekkingu úr ýmsum áttum og hef þar að auki aflað mér nokkurrar reynslu á eigin (sjúklega viðkvæma skinni) til þess að byggja ráðleggingar á.
PS. Ef ykkur langar að fletta upp hvaða olíur eru taldar öruggar á meðgöngu og í kring um lítil börn mæli ég með bókinni „The Complete Book of Essential Oils for Mama and Baby: Safe and Natural Remedies for Pregnancy, Birth, and Children„ eftir Christina Anthis, hún er aðgengileg og fróðleg.
Olíurnar:
Það er til svo mikið af girnilegum grunnolíum, en það er mikilvægt að þynna ilmkjarnaolíur áður en þær eru bornar á húðina til þess að forðast ofnæmi. Margar hverjar eru þær mjög sterkar og geta orðið ertandi ef óvarlega er farið. Eins mæli ég með því að þvo hendur vel til eftir að hafa sett saman olíublöndur, til þess að forðast að fá óvart olíu í augu eða munn.
Nokkur dæmi um grunnolíur eru möndluolía, avókadóolía, hampolía, jojoba olía, castorolía, rósaberjaolía og gamla góða ólífuolían (það má oft redda sér með því sem er til heima).
Það getur verið gott að bæta E-olíu dropum út í húðolíur, þeir lenga líftíma olía og þykja góðir gegn örum og slitum, til dæmis. Eins getur oft verið sniðugt að blanda sama grunnolíum sem hafa ólíka eiginleika til þess að ná fram þinni drauma blöndu eða áferð.
Á meðan þið eruð að prufa ykkur áfram, og ef það sem þið eruð að búa til er drjúgt og endist lengi, þá mæli ég með því að byrja á að búa til minni skammta. Það er svo leiðinlegt að gera stóra skammta af einhverju sem þú endar svo á að fíla ekki og fer þá til spillis, ég tala af reynslunni! Það er mikið skemmtilegra að búa til fleiri minni skammta, því þetta er óttalega notalegt og nornalegt dundur.
Ílát fyrir heimagerðar olíur, sprey og krem fást í ýmsum umhverfisvænum verslunum svo sem Vistveru, Menu/Sambúðinni, í Jurtaapótekinu, og jafnvel í Søstrene Grene. En ég mæli líka með því að geyma umbúðir utan af serumum, fljótandi vítamínum (Floravital brúsarnir eru líka gordjus undir afleggjara!), stevíu-og vanilludropum, þær koma iðulega að góðu gagni og lokin af matreiðsluvörum passa oft á apótekaraflöskur ef þú átt ekki rétt lok.
Ég gerði uppskriftir að neðan í tveimur hlutföllum, 100ml og 50ml, en ef ykkur langar að prufa ykkur áfram varlega án þess að gera svo stóra skammta getið þið byrjað á að deila uppskriftunum niður á minni skammta eða gúglað töflur með fleiri hlutföllum.
Innihaldsefnin:
Grunnolíur:
Möndluolía: Ég nota möndluolíu sem aðal grunn. Hún smýgur mjúklega inn í húðina, nærir vel án þess að vera of þykk og ber ekki með sér sterka lykt. Rósaberjaolía: Í olíum eins og þeim sem ég er að gera er oft notuð E-olía sem er yndisleg, en ég fann ekki vegan E-olíu sem hentaði þegar ég var að undirbúa uppskriftina svo ég valdi rósaberjaolíu í staðinn, hún ekki alls ósvipuð. Nokkrir eiginleikar sem taldir eru tilheyra rósaberjaolíu eru til dæmis að draga úr örum og hrukkum og styrkja húðina, en mér finnst líka bara alltaf einhver lúxus fílingur yfir henni. Ég nota hana stundum eina og sér sem serum og finnst sérstaklega gott að setja hana á augabrúnir eftir litun og plokkun.
Ilmkjarnaolíur:
Lavender: Líklega heimsins vinsælasta olía, en listinnn af mögulegum frábærum áhrifum hennar er á lengd við meðal símaskrá. Hún er mikið notuð til að létta lund, til að hjálpa fólki að finna ró og sofna. Ekki skemmir fyrir að hún hefur sýkladrepandi eiginleika og virðist vera lykt sem leggst ágætlega í mikið af fólki.
Frankincense: Talin hjálpleg við öndunarfæravandamálum, auk þess sem hún er róandi og ilmar mjög vel ein og sér. Oft notuð við hugleiðslu.
Greip olía: Meðal annars talin létta lund, draga úr streitu og hafa góð áhrif á húðheilsu.
Cedarwood olía: Vellyktandi og vinsæl í ilmvötn. Talin róandi og geta hjálpað fólki með svefnvanda, auk þess sem hún er talin geta gagnast í baráttunni við acne, ör og langvarandi húðvandamál á borð við exem.
Mandarínu olía: sérlega sæt og kætandi sítrusolía. Talin hafa róandi áhrif og getað unnið gegn örum og jafnvel slitum, auk fjölmargra annarra góðra áhrifa.
Uppskriftirnar
Morgunolía – 100ml
Þessi olía er örvandi og frískandi og á því betur við á morgnanna. Það er svo gott að taka svona fallega lykt með sér inn í daginn.
Hlutföll: 100ml af burðarolíu á móti 30-40 dropum af ilmkjarnaolíum
Ef þið eruð óvön því að nota ilmkjarnaolíur mæli ég með því að byrja á 30 dropum og bæta frekar við ef þið viljið sterkari ilm eða finna betur fyrir olíunum.
- Möndluolía: 80% af burðarolíunni (ca. 80ml
- Rósaberjaolía: 20% af burðarolíu (ca. 20ml)
- Lavender ilmkjarnaolía: 15 dropar
- Greip ilmkjarnaolía: 8 dropar
- Cedarwood ilmkjarnaolía: 7 dropar
Kvöldolía – 50ml
Þessi olía er róandi og nærandi og ilmirnir hjálpa okkur að slaka á og draga djúpt andann:
Hlutföll: 50ml af burðarolíu á móti 20 dropum af ilmkjarnaolíum
- Möndluolía: 80% af burðarolíu (ca. 40ml)
- Rósaberjaolía: 20% af burðarolíu (ca. 10ml)
- Lavender ilmkjarnaolía: 10 dropar
- Frankincense: 5 dropar
- Mandarínuolía: 5 dropar
Ég er mjög ánægð með þessar olíur, þær eru nærandi en ekki lengi að smjúga inn í húðina og veita raka í lengri tíma, passið samt að fara ekki í þröng-eða spariföt rétt eftir að þið hafið borið á ykkur olíu, það geta komið blettir.
Annars vona ég bara að þið hafið haft gaman og vonandi gagn af þessum lestri og uppskriftum. Gangi ykkur sem allra best að prufa ykkur áfram í heimagerðum dekurvörum og að tileinka ykkur sem mestan dekurtíma!
0 notes
Text
VEGAN & ÓLÉTT: ANNAR HLUTI
Hér kemur annar hluti af vegan meðmælum fyrir ólétt fólk, ef þið misstuð af fyrri hlutanum þá má finna hann í fljótu bragði hér.
Nú eru aðeins þrjár vikur í að lillinn minn sleppi úr bumbunni og mér var mikið mál að koma sem flestum meðmælunum frá mér áður en nýburakaótík og brjóstaþoka taka við! Sjálfsdekur hefur nefnilega verið eitt það allra besta sem ég hef getað gripið til á þessari sérkennilegu meðgöngu á tímum heimsfaraldar, þar sem ég hef ekki getað gripið til margra af bjargráðunum sem ég treysti á á fyrri meðgöngu eins og að fara á kaffihús og í ræktina og svona. En dekur getur, að mínu mati, gert kraftaverk!
Koma þá meðmælin!
1. Magnesíum húðvörurnar frá Better You
Á þessari meðgöngu lét ég mér ekki nægja að taka bara inn magnesíum heldur bar ég það líka á kálfana, sem eru mitt mesta hættusvæði þegar viðkemur sinadrætti, á mjóbak þar sem ég finn oft fyrir mikilli þreytu eftir þungann af bumbunni og á herðarnar þegar ég er með vöðvabólgu. Ég var rétt nýbyrjuð að nota vörunnar þegar ég ákvað að ég skyldi aldrei vera án þeirra á náttborðinu og það hef ég staðið fastlega við! Fyrst keypti ég kremið sem er yndislegt en skipti yfir í spreyið þegar það varð erfiðara að beygja mig til að nudda kálfana.
Þessi vara fæst víða, til dæmis í öllum helstu apótekum, Heilsuhúsinu og í verslunum sem selja óléttuvörur oþh.
2. Fischer andlits serum
Það er svosem ekkert leyndarmál að ég elska allt sem kemur úr litla svarta galdrahúsinu við Fishersund, enda allt þaðan náttúrulegt, handgert, fullt af fallegum náttúrulega góðum ilmum, kærleika og jú, göldrum! Ég fékk andlitsserumið, sem ég hef að vísu átt áður og alltaf elskað, í barnaveislugjöf á dögunum og húðin á mér elskar það jafn mikið og nefið á mér. Þegar ég er í sérstöku stuði lauma ég nokkrum dropum á bumbuna fyrir algjört sparidekur.
Þið getið fundið töfraheim Fischer hér.
3. Calendula líkamskrem frá Dr Organic
Stundum er einfalt einfaldlega best. Nýja Calendula línan frá Dr Organic höfðar til mín sem a) áhugamanneskju um lyktarlausar grunnvörur og b) mikla áhugakonu um morgunfrú.
Þetta krem er ódýrt, fæst víða og hentar vel á alla fjölskylduna. Það er nær lyktarlaust, en ég (með mitt blóðhunda nef ath.) finn mildan morgunfrúarkeim og elska það!
Ég keypti mína túpu sem er að klárast hratt á Heimkaupum, en vörurnar frá Dr Organic fást í mörgum apótekum og matvöruverslunum.
4. Vörur til að gera róandi herbergis-og koddasprey
Það er vægast sagt algengt að verða viðkvæmari fyrir ilmum á meðgöngunni og þá er gott að leita að einföldum ilmum sem hafa róandi og endurnærandi áhrif. Eins getur verið ertandi að brenna mikið af kertum eða reykelsum, svo heimalöguð herbergissprey eru algjör snilld!
Einföld blanda sem virðist henta mörgum, er það sem ég kalla alltaf „Auðar blöndu“ - eða blandan sem hin óviðjafnanlega Auður Bjarnadóttir notar í Meðgöngujóganu í Jógasetrinu. Hún kennir líka blöndun spreysins reglulega og mælir með að taka það með í fæðingu, það gerðum við síðast og ég ætla svo sannarlega að passa að gera það aftur í þetta sinn!
Spreyið samanstendur einfaldlega af vatni í spreybrúsa (ég elska glerbrúsana úr Vistveru - þeir eru eins og þessi á myndinni og á góðu verði) með lavender olíu og örfáum dropum af sítrónuolíu. Hér fara hlutföll vissulega eftir magni af vökva, en gott að byrja á færri dropum og bæta í heldur en að enda með allt of sterka blöndu sem getur orðið ertandi. Ágætt að miða við að hafa lavender í 2x hlutfalli við sítrónudropa.
Ég er búin að nota herbergis-og koddasprey svo lengi að ég get ekki sofnað án þeirra svo ég spreya þessu alltaf yfir rúmið fyrir háttinn og nýt þess að sofna í vellyktandi rúmi.
Ég nota Aqua Oleum olíur úr Heilsuhúsinu oftast, mér finnast þær mjög góðar og verðin skemma ekki fyrir! Margar af helstu olíunum eru líka fáanlegar lífrænar þar sem er ekki sjálfgefið.
5. Hindberjalaufs te
Hindberjalaufste er talið hafa ýmis góð áhrif, en það er ekki mælt með því fyrr en �� síðustu vikum meðgöngu fyrir barnshafandi konur til þess að örva legið ekki um of of snemma. Það er talið styrkja legið fyrir fæðingu og jafnvel geta stytt fæðingartímann, svo er það kalkríkt og hollt. En það sem mér finnst mest heillandi við teið er að það er talið hjálpa leginu að dragast aftur saman eftir barnsburð og ég er spennt fyrir því að prufa að nýta það á þann máta, ég hafði ekki heyrt af þessu á fyrri meðgöngu og hlakka til að prufa!
Hindberjalaufs te fæst til dæmis í Jurtaapótekinu og Heilsuhúsinu, oftast í formi laufa. Það er ekkert sérstaklega spennandi á bragðið svo það getur verið gott að blanda því við önnur te eða jafnvel brugga te, leyfa því að kólna og blanda svo saman við bragðgóða safa.
0 notes
Text
Basic Vegan Skipti: Mj*lkurvörur, fyrsti hluti
"I'm lactose intolerant. I have no tolerance for lactose and I won't stand for it!" -Jerry Seinfeld
Þegar kemur að mjólkinni viðurkenni ég að ég er ekki alveg hlutlaus, ég er langtíma hater. Ég er sumsé með mjólkuróþol svo mér hafa löngum fundist mjólkurvörur óþolandi, sér í lagi þar sem þær leynast svo víða þar sem þeirra er alls ekki óskað. En ég er líka búin að stúdera plöntumjólkurvörur í heillangan tíma, eða síðan ég var sett á acne lyfjakúr fyrir 22 árum þar sem lyfin máttu ekki blandast mjólkurvörum þurfti ég að taka út mjólkurvörur stóran hluta dagsins, fyrir og eftir lyf, sem olli því að við fjölskyldan fórum að skoða mjólkurlausa kosti. Þið getið rétt svo ímyndað ykkur hversu mikið úrvalið af plöntumjólkurvörum hefur skánað síðan þá! En ef satt skal segja var ég helsátt með eina mjólkurlausa „jógúrt" kostinn sem var í boði í búðum þá, dísætann vanillu soya búðing, þvílíkur morgunverður! Súrmjólkin átti ekki séns eftir það! Vegan osturinn sem var í boði á þessum tíma var hinsvegar eins og vonbrigði vafin inn í eymd og viðbjóð, sem er kaldhæðnislegt því hver og ein einasta ostsneið var einmitt vafin inn í veglegt og vægast sagt óþarft, plastumslag. Jökk og bjakk!
Þar sem það er komið svo óhemju gott úrval af allskonar vegan „mjólkurvörum“ þá var aftur ekki alveg geranlegt að reyna að troða öllu í eina færslu, svo hér kemur fyrsti hluti. Mörg lang-vegan þekkja vafalaust meirihlutann af þessum vörum, en vonandi nær færslan til forvitinna-framtíðar-vegana sem vatnar smá innblástur og vita ekki hvar á að byrja!
Skál í svellkalda soyamjólk!
1. Smjör
RIP herta sólblómafita, HALLÓ LJÚFFENGA OG MJÚKA NATURLI SMJÖR! Smjörið sem öll fíla, óháð grænkera status, allavegana samkvæmt mínum mjög svo óformlegu rannsóknum og brönstilraunum.
Naturli smjörið fæst í flestum matvöruverslunum, sem betur fer!
2. Brauðostur
Þetta er hitamál, ég veit. Það ríkir ekki almennt samþykki um það hvort Violife sé geggjaður ostur eða ekki, hann legst til að mynda illa í mörg sem ekki eru vegan, en við sem erum vön því að borða vegan ost erum upp til hópa ánægð skilst mér. Ég hef ekki enn fundið vegan brauðost sem mér finst betri en Cheddar Violife, mér finnst hann þrusugóður og nær ómissandi á ristað brauð - en ég viðurkenni að sum af flippaðari brögðunum þeirra (brauðostur með „pizza“ eða „sveppa“bragði) eru fimm+ númerum of flippuð fyrir mig persónulega. Violife ostarnir fást í flestum matvöruverslunum.
3. Parmesan
Follow Your Heart parmesaninn kemur í tveimur útgáfum og þær eru báðar sjúklegar. Ef þið eruð ekki alveg viss með vegan parmesan þá mæli ég með að prufa að nota bara næringarger, jafnvel bragðbætt næringarger, í staðinn, það er hollt og sjúklega gott!
Follow Your Heart fæst í Vegan búðinni, þar fást líka ýmsar tegundir af ljúffengu næringargeri.
4. Fínn ostur, fyrir gesti og svoleiðis... Eða bara þig!
Ég vil ekki vera dramatísk EN Miyoko's ostarnir voru sendir hingað til jarðar úr öðrum, ljúffengari, heimi! Garlic Herb finnst mér fremstur í flokki og meira að segja mamma mín, sem finnst eiginlega allur vegan ostur ógeð, er sammála! Ekki skemmir fyrir að Miyoko sjálf er eitursvalur aktívisti og ógeðslega kúl business kona. Það vantar ekki rökstuðninginn fyrir því að kaupa svona lostæti, svo bara trítjóself!
Miyoko's fæst í Vegan búðinni.
5. Vegan jógúrt
Ég myndi segja að einn stærsti misskilningur innkaupastjóra í íslenskum verslunum sé að stútfylla allar hillur af dísætum vegan desertum og kalla það jógúrt (og hér talar kona sem borðaði búðing í morgunmat í marga mánuði!). Þegar ég kaupi jógúrt (eftir að ég varð fullorðin allavegana) þá langar mig nær undantekningarlaust í eitthvað sem ég get bragðbætt sjálf með granóla, morgunkorni eða ávöxtum, án þess að úr verði bragðarefur í morgunmat.
Ósættaða Alpro jógúrtið (sem kemur heppilega í pappafernum ekki plastdollum hingað til landsins) er allra best í sínum flokki að mínu mati. Það er eiginlega bara alveg eins og gamla bóða Ab mjólkin. Tyrkneska jógúrtið frá Oatly svipar svo gífurlega til skyrs, fyrir þau sem fíla þá áferð betur.
Alpro jógúrtin fást í Krónunni.
Tyrknesku Oatly hef ég oftast rekist á í Vegan búðinni.
6. „Feta“ ostur
Osturinn sem áður kallaði sig Vegan Feta frá Violife heitir núna Greek White Block af lagalegum ástæðum, en hafið engar áhyggjur, bragðið er hið sama! Mér finnst þessi ostur persónulega ekki góður kaldur en um leið og hann fær að hitna, til dæmis í pastaréttum eða á pizzu þá gerist eitthvað gordjus! Ég er alltaf á leiðinni að skera hann niður í bita og setja í kryddlög, mig grunar að það auki notagildi hans þeim mun meira á mínu heimili og ég finn á mér að ég eigi eftir að elska það!
7. „Geitaostur“
Ég sakna osts úr mjólk bókstaflega aldrei (það eru að vísu einhver 13 ár eða svo síðan ég smakkaði hann síðast, svo ég man varla hvernig hann smakkaðist) en geitaost borðaði ég lengur og af mikið meiri natun. Það var því ekki pent, fagnaðarópið sem ég gaf frá mér í kælinum í Vegan búðinni þegar ég rakst á vegan „geitaost“ frá I AM NUT OK, sem er sjúklegt vegan ostamerki sem þar má finna!
Ef þú ert með geitaostsfráhvörf og langar að gera þér glaðan dag þá mæli ég með því að skoppa í Vegan búðina og tékka á honum þessum, þú munt ekki sjá eftir því!
8. Sprauturjómi
BLESS SOYATOO HELVÍTI - HALLÓ RJÓMI! (Þau sem skilja, skilja) Ég veit ekki með ykkur, en ég var búin að sannfæra sjálfa mig um að Soyatoo rjóminn, sem lengi vel var eini vegan rjóminn á Íslandi, væri góður, þar til úrvalið jókst og ég fékk loks að smakka alvöru vegan rjóma. Hólímólí! Þvílík lífsgæðaaukning! Það eru þrjár geitur þegar kemur að vegan rjóma, að mínu mati: - Aito, sem er í fernu og óþeyttur - Schlagfix, sprauturjómi, delish og í fagurbleikum umbúðum - Food Heaven, Heavenly Whipped, rjóminn, sem er uppáhaldið mitt þessa dagana Allir þessir rjómar fást í Vegan búðinni, Aito og Schlagfix sennilega á fleiri stöðum líka.
Hver þarf dýramjólk þegar það er til svo mikið af ljúffengum vegan kostum að kona getur vart valið á milli þeirra til að skrifa fyrsta hluta, væntanlega af mörgum, um málið? Ég bara spyr!
0 notes
Text
VEGAN & ÓLÉTT: FYRSTI HLUTI
Þessa dagana er ég ófrísk í annað sinn sem hefur verið, tjah, bara rosalega allskonar, eins og gengur og gerist. Það virðist hinsvegar vera eðli mitt �� þessum fasa að verða algjört óléttunörd. Ég les allar bækurnar, prufa allar snyrtivörurnar og sökkvi mér í öll helstu tips og tricks til þess að gera þessa líkamlega krefjandi tíma aðeins huggulegri. Þar sem þessi þekking gæti hugsanlega gagnast öðrum vegan bumbulínum og vegna þess að það er alls ekkert allt sem er markaðssett fyrir óléttar konur vegan, langaði mig að taka saman smá lista af frábærum vegan vörum sem ég hef kynnst undanfarna mánuði og hvar þær er að finna. Spoiler alert: Þegar mér líður ekki nægilega vel í líkamanum, eins og til dæmis núna á 8 mánuðinum, þá er ég rosalega fljót að vinda mér út í hverskonar sjálfsdekur, eða jafnvel að úthýsa dekrinu og fara í nudd (ef það verður bráðum keyptur nýr pottur í spaið á Hilton hótelið í Lágmúla þá verður hann í mínu boði, meðgöngunuddið þar er FRÁBÆRT og ég forgangsraða því mjög ofarlega í mánaðarlegum heimilisútgjöldum). En ég trúi fastlega á það sem Cassandra Bankson (sjúklega hress vegan og CF húðvörubloggari, mæli með!) segir alltaf "Skincare is self-care", smá dekur er dásamlegt og oft hreinlega ómissandi.
Hefjast þá meðmæli!
1. Vítamín & Bætiefni
Prental Multivitamin Complex - Terranova*
Ég hef notað þessa vöru á báðum meðgöngum og er alltaf jafn hrifin. Terranova línan er öll vegan og unnin úr fyrsta flokks hráefnum og þessi tiltekna blanda inniheldur allt það helsta sem ófrískar konur þurfa á að halda (td. fólinsýru, Omega 3, D3, járn) auk ýmissa frábærra jurta og er laust við óæskileg vítamín á meðgöngu (A-vítamín). Einhversstaðar hef ég séð talað um að þetta gæti lagst illa í magan á sumum, ég hef ekki upplifað það sjálf en ef einhver lendir í því mæli ég með því að prufa að taka vítamínin frekar fyrir háttinn heldur en á morgnanna, það gerir oft gæfu muninn. Terranova línan fæst til dæmis í Heilsuhúsinu og Lyfju.
- Magnesíum
Ég er af þeim heilsunördaskóla sem trúir því að magnesíum sé svarið, nær algerlega óháð því hver spurningin er, en magnesíum er aldrei mikilvægara heldur en á meðgöngunni þar sem það hjálpar meðal annars meltingunni (aka vinnur gegn harðlífi) og dregur úr hættu á sinadráttum (einum allra illkvittnislegasta fylgifiski þessa ferlis!). Hvað magnesíum varðar þá er ég alltaf svolítil "more is more" týpa, en ég er reyndar með mjög lata meltingu og má örugglega meira við því að dæla í mig magnesíumi heldur en mörg, hlustið á líkamana ykkar. Ég er heilt yfir ekki hrifin af því að taka inn kal+mag blöndur og tek þetta oftast í sitthvoru lagi. Á meðgöngunni sérstaklega, þegar mér finnst mikilvægt að fá nóg magnesíum. Þá vel ég annaðhvort vatnsuppleysanlegt magnesíum sem má drekka (hér er dæmi um vegan þannig vöru frá KAL sem ég var að rekast á en ætla að prufa!) eða Magnesium Medica sem fæst í apótekum án lyfseðils (varan er ekki merkt vegan frekar en lyf svona almennt, en ég fæ ekki betur séð en að hún sé það).
- Kalk
Kalk er alls ekki síður mikilvægt, í ljósi þess að barnið herjar á kalkbirgðir móður meðan það er í maganum og sækir það í tennur og bein ef það fæst ekki annarsstaðar (1. Oj! /2. Verði þér að góðu, ungviði!/ 3. Það er ekki óæskilegt að eiga tannlæknistíma frátekinn eftir að barnið fæðist). Úrvalið af kalki svona heilt yfir er ágætt, en megnið af kalki er ekki vegan. Ég hef verið að taka Super Calcium* frá Higher Nature undanfarið, það er mjög vandað og fæst til dæmis í Heilsuhúsinu. - Omega 3
Omega 3 er ómissandi fitusýra og ein af þeim efnum sem erfitt er að fá nóg af á vegan fæði. Það er meira að segja ekki sjálfgefið að finna vegan Omega 3 bætiefni, en það eru þó loksins komnir nokkrir kostir til þess að velja á milli.
Together Omega 3 blandan er sérstaklega vönduð. Hún fæst til dæmis í Vegan búðinni.
Terranova Omega 3-6-7-9 olían
Fyrir þau sem eru ófeimin við að taka inn olíur (mér finnst það persónulega smá stemning, minnir mig á að fá lýsi hjá afa í gamladaga #sorrynotsorry) og þessi olíublanda er bragðbetri en aðrar Omega blöndur sem ég hef smakkað. Olían inniheldur, eins og nafnið gefur til kynna, Omega 3, 6, 7 og 9 og hefur fjöldan allan af góðum áhrifum, umfram það að hjálpa okkur að nálgast Omega 3.
Omega olían frá Terranova fæst til dæmis í Heilsuhúsinu.
2. Húð og dekur Ef það er einhverntíman við hæfi að taka frá smá auka tíma til þess að dúlla við sig, þá er það á meðgöngunni!
Ég er almennt talskona hreinna og náttúrulegra snyrtivara, en það er aldrei mikilvægara heldur en einmitt á meðgöngunni þegar óæskileg efni sem við komumst í snertingu við hafa einnig áhrif á krílin okkar.
Hér eru nokkrar frábærar náttúrulegar dekurvörur:
- (Bumbu)olíur
Morgunfrúar nuddolía frá Funky Soap* Uppáhalds olían mín á þessari meðgöngu hefur verið ljúfa Morgunfrúar nuddolían sem fæst í Vistveru. Olían er ekki sérstaklega hugsuð sem bumbuolía en hún smýgur hratt inn í húðina, nærir dásamlega, ilmar þeim mun betur og er svo fallega full af blómum, mér líður alltaf eins og algerri galdrakonu þegar ég ber hana á bumbuna, mér finnst hún engu síðri bumbuolía en hver önnur, þvert á móti raunar! Ekki skemmir fyrir að hún er á fínu verði. Athugið að þetta er venjuleg nuddolía sem lofar engu um að bjarga okkur frá slitum (ég trúi persónulega ekki heldur að það sé hægt) en ég nota stundum E-vítamín olíu (keypti þessa pínulitlu frá Jäson á Heimkaupum og hún ætlar að endast endalaust) samhliða henni til þess að reyna að gefa húðinni smá auka næringarboost og teygjanleika. E-vítamín olía er líka bara frábær út af fyrir sig!
Smá innskot: svo það komi fram áður en ég mæli með sérhæfðri bumbuolíu sem gerir út á að draga úr slitförum, þá trúi ég því ekki að það sé hægt að sporna verulega við slitum. Sjálf reyndi ég það eftir bestu getu á fyrstu meðgöngu. Bar á mig slitolíu og e-vítamínkrem 2 á dag og gerði allt „rétt“ - en svo vill bara til að margar konur í minni fjölskyldu fá hlutfallslega rosalega stórar kúlur og eru sennilega ekki með brjálæðislega teygjanlega húð, og við fáum bara slit hingað og þangað og það er ekkert við því að gera. En sem betur fer venjast slit. Í dag þykir mér vænt um þau og þótti gaman að fylgjast með þeim lýsast og breytast áður en ég varð aftur ólétt, þó svo ég viðurkenni að ég hafi alls ekki tekið þau í sátt um leið og þau birtust.
Þessi klassíska, Meðgöngu-og slitolían frá Weleda
Á fyrstu meðgöngunni minni óð ég í gegn um að minnsta kosti þrjár svona flöskur og var hársbreidd frá því að baða mig í þessu stöffi... og fékk nett ógeð á henni eftir meðgönguna sem ég komst ekki yfir áður en ég varð aftur ólétt. En þetta er dásamleg olía sem mýkir og smýgjur mjúklega inn í húðina, það er voðalega notalegt að bera hana á sig, til dæmis fyrir háttinn og ég geymi hana alltaf á náttborðinu. Til þess að breyta aðeins um lykt skellti ég nokkrum dropum af lavender og sítrónu ilmkjarnaolíum ofan í og það er allt annað líf, ég er aftur mjög hrifin af henni!
Ef þú ert eins og ég, skeptísk á að það sé hægt að fyrirbyggja slit, en vilt samt bara hafa það notalegt á kvöldin og jafnvel sofna aðeins hraðar, þá gætirðu líka prufað lavender nuddolíuna frá Welda, hún er dásamlegur streitubani. Eða notað báðar! Ég mæli með lavender olíunni á háls og herðar fyrir háttinn. Weleda vörurnar (og ilmkjarnaolíur ef ykkur langar til þess að djúsa þær aðeins upp) fást í öllum betri búðum og apótekum.
- Almennt dekur
Verandi sturtusápan*
Eini ókosturinn við þessa sápu er hversu fljót við fjölskyldan erum að klára dúnkana afþví við elskum hana svo mikið. Fyrir þau sem ekki þekkja til Verandi þá eru vörurnar unnar úr endurnýttum hráefnum, ótrúlega vandaðar, mildar og frískandi. Ég er ekki vöknuð á morgnanna fyrr en ég er búin að finna þessa uppáhalds lykt mína.
Vörurnar frá Verandi fást til dæmis í vefversluninni þeirra.
Mádara collagen serum + andlitskrem*
Ég er Mádara kona í húð og hár og prufa lang flest sem frá þeim kemur, enda allt frábærar náttúrulegar og ofnæmisvænar vörur. Þar sem collagen vörur eru oftast til ekki vegan þá hafði ég ekki mikla reynslu af collagen húðvörum (hef prufað mig áfram með fjöldan allan af vondum vegan collagen bætiefnum hinsvegar, jakk!) áður en ég keypti þessar í vetur og það kom mér skemmtilega á óvart hvað ég finn mikinn mun á húðinni á mér þegar ég nota þær. Húðin verður slétt og sælleg og líður vel (ég er með mjög dramatíska húð sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er, svo þessi meðmæli eru hreint ekki sjálfsögð). Mádara fæst til dæmis í Heilsuhúsinu og Lyfju.
__________________________________________________________
Er þetta allt og sumt? Nei! ALLS EKKI! Ég hef frá svo mörgu að segja! En nú er ég komin upp í myndakvótann sem Tumblr leyfir per færslu svo ég vænti þess að ég verði bara að gera hluta 2 ef ég ætla að koma öllu fyrir sem mig langar að segja frá!
Varðandi stjörnumerktar vörur: *Ég er/hef verið í samstarfi við söluðaðila vöru og/eða hef fengið vöruna að gjöf.
Framhald bráðlega!
1 note
·
View note