Tumgik
riff2012 · 12 years
Text
DRAKÚLA 3D
Þessi nýjasta mynd hins þekkta leikstjóra Dario Argento byggir á skáldsögu Bram Stoker um Drakúla og fellur þar í flokk með ótal öðrum kvikmyndum sem  gerðar hafa verið eftir sömu bók. Það er greinilegt að Argento nýtir sér mörg minni sem sjást í þeim kvikmyndum og ber þar helst að nefna klæðnaðinn á Drakúla greifa sjálfum sem svipar að mörgu leyti til Nosferatu í samnefndri kvikmynd frá 1922.
Þannig er Argento greinilega mjög meðvitaður um drakúla- og hrollvekjuhefðina og staðsetur myndina vandlega innan hennar. Dæmi um þetta má sjá strax í byrjun myndarinnar í kynlífsatriði og vanir hrollvekjuáhorfendur vita þá samstundis að þeir aðilar sem sjást í kynlífsatriðinu eru þar með dauðadæmdir. Einnig má sjá það einkenni sem Argento er þekktur fyrir að nota kynlíf og líkama í myndum sínum og er hann ekki hræddur við að sýna brjóst og rassa. Í ákveðnum skotum skína stílbrigði leikstjórans einnig í gegn en það er samt eiginlega þannig að lélegur leikstjóri hafi verið að reyna að gera mynd í anda Argentos frekar en að raunveruleg Argento-mynd sé hér á ferðinni.
Drakúla 3D er nefnilega alveg rosalega slæm mynd. Því verður ekki neitað. Það mætti jafnvel segja að hún sé það slæm að hún fari í hring og verði snilld... á sinn hátt. Leikurinn í myndinni er rosalega ýktur og samtölin eru stirðbusaleg og kjánaleg. Ég gerði mér einhvern veginn ekki grein fyrir því þegar ég horfði á myndina hvort að um ákveðið stílbrigði væri að ræða eða hvort að myndin væri bara svona hjartanlega léleg. Það breytir því þó ekki að ég skemmti mér konunglega á myndinni og það var mikið hlegið í salnum. Ég veit hins vegar ekki hvort að ég ætti að mæla með henni og hugsa að ég myndi seint segja hörðustu Argento aðdáendum að leggja leið sína á hana, bara svona ef þeir vilja viðhalda virðingu sinni fyrir leikstjóranum. Hins vegar er hún mjög skemmtileg og sérstaklega skemmtilegt að skoða hana út frá hrollvekjuþemum og eflaust mjög gaman fyrir Drakúla-nörda að velta Drakúla 3D fyrir sér.
Ég hugsa að ég leggi leið mína á fyrirlestur Argentos í Hátíðarsal Háskóla Íslands á morgun og er mjög forvitin að vita hvað hann segir um þetta verk sitt.
Niðurstaða: Slæm mynd en góð skemmtun.
0 notes
riff2012 · 12 years
Text
Barnaníðingar, hórur og nördar
Sökum anna hef ég ekki komist á neina mynd núna um helgina og hér kemur því umfjöllun um þær fjórar myndir sem ég fór á á föstudaginn.
Fyrsta myndin var þýska heimildarmyndin Outing eftir Sebastian Meise og Thomas Reider. Myndin fjallar um afar viðkvæmt málefni og fylgir eftir fornleifafræðingnum Sven í fjögur ár. Sven talar opinskátt um barnagirnd, sem hann er haldinn og er bæði óþægilegt og áhugavert að heyra hann lýsa upplifunum sínum. Myndin byggist einna helst á viðtölum við Sven sjálfan en er brotin upp á skemmtilegan hátt inn á milli með myndskeiðum sem hann hefur tekið upp sjálfur sem sýnd eru undir upplestri á smásögum hans. Smásögurnar tengjast allar viðfangsefninu og lýsa á óþægilega „fallegan“ hátt hvernig hann heillast algjörlega og verður ástfanginn af barnungum drengjum. Outing  er vægast sagt óþægileg mynd og vekur upp ýmsar vangaveltur um barnagirnd. Það er áhugavert að sjá heimildarmynd frá sjónarhorni gerandans, en vert er að taka fram að Sven hefur sjálfur aldrei fylgt eftir hvötum sínum og gerir sér grein fyrir því að þær eru ósiðlegar og rangar. Birtingarmynd barnagirndar í myndinni er einna helst sem ólæknanlegs sjúkdóms en þeir sem eru haldnir þessum sjúkleika geta lítið annað gert en reynt að halda „einkennunum“ niðri.
Myndin bendir einnig á sláandi staðreyndir um hversu algeng þessi röskun er og Sven ræðir m.a. um spjallborð á internetinu þar sem hann ræðir girnd sína við aðra einstaklinga sem þjást af sömu röskun. Allt virðist þetta þó afar vafasamt fyrir þann sem á horfir.
Outing er áhugaverð mynd um áhugavert efni en stendur þó algjörlega og fellur með viðfangsefninu. Hún hefur fátt annað fram að færa en viðfangsefnið, en kannski er það alveg nóg ef að viðfangsefnið er nægilega áhugavert, sem það er í þessu tilfelli.
Næst lagði ég leið mína á aðra heimildarmynd, Meet the Fokkens. Myndin fjallar um tvíburasystur búsettar í Amsterdam. Þær eru báðar komnar vel á aldur og væri eflaust ekki margt um þær að segja ef þær hefðu ekki báðar verið vændiskonur meirihlutann af sinni ævi, og önnur þeirra er ennþá starfandi þegar myndin er gerð. Systurnar eru líflegir karakterar og það er gaman að fylgjast með þeim við sína daglegu iðju. Myndin er óskammfeilin og sýnir blygðunarlaust frá starfi systranna. Í myndinni sjáum við bæði slæmar hliðar vændis, og ekki svo slæmar hliðar vændis. Systurnar leiddust báðar út í vændið eftir að hafa verið neyddar til þess og halda því fram að ef þær hefðu fengið ráðið hefðu þær hagað lífi sínu á annan hátt. Samt sem áður er myndin ekki dæmigerð heimildarmynd um vændi, og einblínir ekki aðeins á slæmar afleiðingar þess heldur sýnir hún einnig tiltölulega eðlilegt líf kvennanna sem hafa báðar mikinn áhuga á myndlist og eru sjálfar færir málarar.
Það sem er einna skemmtilegast við myndina að mínu mati er hins vegar einstakt samband systranna sem eru afar nánar og samheldnar. Þær klæða sig gjarnan eins eða svipað og gera ávallt það besta úr aðstæðunum. Það má því segja að myndin fjalli einfaldlega um tvær gamlar konur sem gera ávallt það besta úr öllu.
Comic-Con Episode IV: A Fan‘s Hope er heimildarmynd eftir Morgan Spurlock (Super Size Me, Where in the World Is Osama Bin Laden?). Myndin er bráðskemmtileg og fylgir eftir nokkrum einstaklingum sem öll fara á Comic-Con með mismunandi markmið. Stíll Spurlocks er mjög þægilegur áhorfs og má sennilega rekja vinsældir hans til þess. Uppbygging heimildarmynda hans er mjög Hollywood-leg og tekst honum að skapa spennandi fléttu úr viðfangsefninu. Sýningin sem ég fór á var búningasýning og var mikil stemmning í salnum, það var hlegið, klappað og andvarpað með fólkinu sem myndin fjallaði um. Það má deila um hversu raunsannur stíll Spurlocks er, en hann er að minnsta kosti mjög skemmtilegur og Comic-Con er prýðis afþreying og algjört must-see fyrir nörda!
Niðurstaða:
Outing – Já, en ekkert vera að setja þetta í forgang nema þú hafir ROSALEGAN áhuga á barnaníðingum
Meet the Fokkens – Jájá
Comic – con – Já! Sérstaklega ef þú ert nörd!
Ég fór líka á Dracula 3D á föstudaginn en ég ætla bara að setja inn umfjöllun um hana í sér færslu.
0 notes
riff2012 · 12 years
Text
Tvær drottningar og daglegt líf
Í gær náði ég að fara á þrjár kvikmyndir á hátíðinni og voru þær allar sýndar í Bíó Paradís. Fyrst fór ég á myndina Queen of Versailles (Lauren Greenfield) sem er heimildarmynd um hina forríku Siegel fjölskyldu sem dreymir um að eiga hús sem jafnast á við Versali í Frakklandi. Þegar myndin hefst leikur allt í lyndi hjá fjölskyldunni sem samanstendur af hjónunum Jackie og David, börnum þeirra sjö og einni stjúpdóttur. Fjölskyldan er komin langt með að byggja sér draumaheimilið sem er innblásið af Versölum og er stærsta einbýlishús í Bandaríkjunum. En svo kemur hrunið. Í ljós kemur að ríkidæmi fjölskyldunnar er byggt á lánum og nú þurfa þau að breyta algjörlega um lífsstíl, sem reynist þeim erfitt.
Queen of Versailles fjallar um veruleikafirringu og gefur ágætis innsýn inn í það hvernig peningar geta svipt fólk allri skynsemi. Það sem mér fannst einna áhugaverðast í myndinni var það hversu jarðbundið og eðlilegt fólk Siegel fjölskyldan gat virst vera á köflum, en svo í næsta skoti sást óhófið og firringin sem fylgdi auðæfum þeirra. Þau atriði myndarinnar þar sem nokkurnveginn eðlilegt fjölskyldulíf birtist og þar sem við sjáum meðlimi fjölskyldunnar sýna auðmýkt gagnvart aðstæðum sínum valda því að áhorfandinn hefur samúð með örlögum þeirra, þrátt fyrir að þau séu langt frá fátæktarmörkum. Sú staðreynd að hvorki Jackie né David fæddust inn í ríkidæmið vekur einnig upp vangaveltur um það hvernig meðalmanneskjan myndi snúa sér í þeim aðstæðum sem þau eru í, þ.e. hvort að við myndum sjálf hegða okkur einhvern veginn öðruvísi?
Helsti galli myndarinnar er samt sem áður hversu langdregin hún er, þrátt fyrir að vera aðeins 100 mínútur. Myndinni er nokkurn veginn skipt niður í tvo hluta, fyrir og eftir hrunið og hefði sá fyrri líka mátt vera örlítið lengri á kostnað þess seinni.
Semsagt, alveg prýðisheimildarmynd sem fjallar um fjármálalega firringu og sýnir okkur að ríka fólkið er líka fólk, þó svo það sé kannski svolítið klikkað.
Næsta mynd sem ég fór á var sænska myndin Eat, Sleep, Die (Gabriela Pichler). Myndin er afar raunsönn frásögn um innflytjendur í Svíþjóð og ég verð eiginlega að segja að þetta er ein „raunverulegasta“ mynd sem ég hef séð. Myndin fjallar um unga stúlku sem vinnur í verksmiðju við það að pakka grænmeti og sér þannig fyrir sér og bakveikum föður sínum. Myndin ávarpar bæði málefni innflytjenda, fordóma en fjallar þó aðallega um daglegt og eðlilegt líf. Samband ungu stúlkunnar,  Rösu, við föður sinn er afar náið og einlægt og síðast en ekki síst afar eðlilegt. Leikarar myndarinnar eru framúrskarandi í hlutverkum sínum og mér fannst sérstaklega frískandi að fylgjast með aðalleikkonunni, Neminu Lukac í hluverki Rösu. Rasa er afar heillandi persóna með stóran persónuleika, skemmtilega skrýtin án þess þó að það gangi of langt og verður í staðinn afar raunverulegur og sterkur karakter.
Myndin fangar viðfangsefni á borð við einmanaleika, fjölskyldubönd og tilgang lífsins á afar skemmtilegan hátt án þess að verða niðurdrepandi. Það er ákveðin list að gera myndir sem fjalla um „ekkert“ og jafn hversdagslega hluti og Eat, sleep, die en Pichler tekst það upp á einstaklega skemmtilegan máta. Eftirlætissena mín í myndinni er sena þar sem Rasa fylgist með því þegar samstarfsfélögum hennar er sagt upp einum af öðrum og tekst Pichler að byggja upp ótrúlega spennu í þessu atriði aðeins með því að sýna kvíðann og skelfinguna sem heltekur Rösu þegar hún gerir sér grein fyrir því að örlög hennar eru þau sömu.
Ég mæli hiklaust með Eat, sleep, die, þá sérstaklega fyrir þá sem langar að sjá myndir um daglegt líf þar sem ekkert merkilegra er að gerast en í lífi okkar flestra.
Síðasta myndin sem ég fór á í kvöld var myndin Drottningin af Montreuil eftir Sólveigu Anspach og er hún jafnframt opnunarmynd hátíðarinnar. Myndin fjallar um hina frönsku Agathe sem er nýbúin að missa eiginmann sinn í mótorhjólaslysi þegar hún hittir íslensk mæðgin á flugvelli. Mæðginin eru strandaglópar í París og verða mikilvægur félagsskapur fyrir Agathe á meðan hún fæst við sorg sína.
Þessi mynd Sólveigar Anspach byggist nánast einvörðungu á litríkri persónusköpun og eru það persónurnar sem hrinda atburðarrásinni áfram. Það er einnig afar áhugavert að skoða birtingarmyndir Íslands og íslendinga í myndinni, en mæðginin sem við fylgjumst með eru afar framandi og „bóhem“ og það er áhugavert að sjá íslenska kvikmynd þar sem Ísland og íslendingar eru ekki portrerað sem hið sjálfsagða norm. Þverþjóðleiki myndarinnar, sem er íslensk- frönsk, gefur henni sérstöðu á meðal íslenskra kvikmynda gefur henni ákveðið forskot á meðal þeirra (það er líka mjög hressandi að sjá íslenska kvikmynd sem er hvorki með Ingvar E. eða Hilmi Snæ í aðalhlutverki).
Það voru samt sem áður ákveðin atriði í myndinni sem mér fannst mjög truflandi og ber þar helst að nefna teiknimyndaatriði sem áttu að veita einhvers konar innsýn í sálarástand aðalpersónunnar. Mér fannst þau þjóna afar litlum tilgangi og gera lítið annað en að trufla flæðið í myndinni. Svo fannst mér þau líka bara ljót. Annað sem mér fannst mjög truflandi voru Skype-samtöl sem aðalpersónurnar áttu við vini og vandamenn á Íslandi, en þá var íslenski fáninn alltaf í bakgrunni hjá þeim sem talað var við á Íslandi. Mér fannst það mjög ljótt, algjör óþarfi og minnti mig eiginlega bara á ódýra lausn í lélegri menntaskólaleiksýningu.
Í heildina fannst mér Drottningin af Montreuil mjög skemmtileg, lífleg og hressandi. Nýjar birtingarmyndir íslendinga og grasreykinga í íslenskum bíómyndum fannst mér frískandi og selurinn var ógeðslega sætur. Ég hló upphátt ein í bíó, sem gerist ekki oft.
Niðurstaða fyrsta dags á RIFF er semsagt:
Queen of Versailles – Jájá
Eat, Sleep, Die - JÁ
Drottningin af Montreuil - Já
2 notes · View notes
riff2012 · 12 years
Text
Þetta er alveg að fara að byrja!!!
Þá er komið að því, kvikmyndahátíðin Reykjavík International Film Festival hefur göngu sína í níunda sinn og ég er vægast sagt spennt. Ég er búin að fara niður í Eymundsson, Austurstræti og láta plasta passann minn og nældi mér í miða á myndina Borða sofa deyja  eftir Gabrielu Pichler kl.8 í kvöld í leiðinni. Þetta er ein af þeim myndum sem er með það grípandi titil að mann langar til að sjá hana um leið og maður flettir í gegnum bæklinginn (í fyrra var það myndin We need to talk about Kevin, sem olli vægast sagt ekki vonbrigðum).
Mig langar að byrja hátíðina núna klukkan 4 í dag þegar fyrstu sýningar hefjast en er eins og svo oft áður illa hrjáð af valkvíða um hvað skuli sjá. Ég geri ráð fyrir því að ég muni láta það ráðast þegar í bíóið er komið, enda eru allar kvikmyndasýningarnar kl 4 í dag í Bíó Paradís. 
Stefnan mín í ár er að reyna að komast á sem flestar Q&A sýningar og svo auðvitað að reyna að sjá sem flestar myndir. Ég geri því ráð fyrir að segja skilið við vini og vandamenn og setja skólann á ís þangað til 8. október næstkomandi þar sem ég ætla bara að vera í bíó.
Hér á þessu bloggi stefni ég á að fjalla um þær myndir sem ég sé á hátíðinni, segja hvað mér finnst skemmtilegt og hvað leiðinlegt. 
JÆJA! Þá er bara að pússa gleraugun og njóta sólarljóssins áður en maður lætur sig hverfa inn í myrkvaðan bíósalinn!
0 notes