#heim - maður gert hlut
Explore tagged Tumblr posts
Photo
eldfjöll ... 2 Upplýsingar merki á hvítum bakgrunni
#blár#stúdíó skot#Ekkert fólk#menntun#úti#eðli#íþrótt#grænn litur#einn hlutur#umhverfi#skera út#hvítur bakgrunnur#Cloud - himinn#Kortið#pláss#kúla#heim - maður gert hlut
0 notes
Text
Egils Saga (chapters 61 to 70)
61. kafli
Eiríkur konungur gekk til borða að vanda sínum, og var þá fjölmenni mikið með honum; og er Arinbjörn varð þess var, þá gekk hann með alla sveit sína alvopnaða í konungsgarð, þá er konungur sat yfir borðum. Arinbjörn krafði sér inngöngu í höllina; honum var það og heimilt gert. Ganga þeir Egill inn með helming sveitarinnar; annar helmingur stóð úti fyrir dyrum.
Arinbjörn kvaddi konung, en konungur fagnaði honum vel; Arinbjörn mælti: "Nú er hér kominn Egill; hefir hann ekki leitað til brotthlaups í nótt. Nú viljum vér vita, herra, hver hans hluti skal verða; vænti eg góðs af yður; hefi eg það gert, sem vert var, að eg hefi engan hlut til þess sparað að gera og mæla svo, að yðvar vegur væri þá meiri en áður. Hefi eg og látið allar mínar eigur og frændur og vini, er eg átti í Noregi, og fylgt yður, en allir lendir menn yðrir skildust við yður, og er það maklegt, því að þú hefir marga hluti til mín stórvel gert."
Þá mælti Gunnhildur: "Hættu, Arinbjörn, og tala ekki svo langt um þetta; margt hefir þú vel gert við Eirík konung, og hefir hann það fullu launað; er þér miklu meiri vandi á við Eirík konung en Egil; er þér þess ekki biðjanda, að Egill fari refsingalaust héðan af fundi Eiríks konungs, slíkt sem hann hefir til saka gert."
Þá segir Arinbjörn: "Ef þú, konungur, og þið Gunnhildur hafið það einráðið, að Egill skal hér enga sætt fá, þá er það drengskapur að gefa honum frest og fararleyfi um viku sakar, að hann forði sér; þó hefir hann að sjálfvilja sínum farið hingað á fund yðvarn og væntir sér af því friðar; fara þá enn skipti yður sem verða má þaðan frá."
Gunnhildur mælti: "Sjá kann eg á þessu, Arinbjörn, að þú ert hollari Agli en Eiríki konungi; ef Egill skal ríða héðan viku í brott í friði, þá mun hann kominn til Aðalsteins konungs á þessi stundu. En Eiríkur konungur þarf nú ekki að dyljast í því, að honum verða nú allir konungar ofureflismenn, en fyrir skömmu mundi það þykja ekki líklegt, að Eiríkur konungur myndi eigi hafa til þess vilja og aðferð að hefna harma sinna á hverjum manni slíkum, sem Egill er."
Arinbjörn segir: "Engi maður mun Eirík kalla að meira mann, þó að hann drepi einn bóndason útlendan, þann er gengið hefir á vald hans. En ef hann vill miklast af þessu, þá skal eg það veita honum, að þessi tíðindi skulu heldur þykja frásagnarverð, því að við Egill munum nú veitast að, svo að jafnsnemma skal okkur mæta báðum. Muntu, konungur, þá dýrt kaupa líf Egils, um það er vér erum allir að velli lagðir, eg og sveitungar mínir; myndi mig annars vara af yður, en þú myndir mig vilja leggja heldur að jörðu en láta mig þiggja líf eins manns, er eg bið."
Þá segir konungur: "Allmikið kapp leggur þú á þetta, Arinbjörn, að veita Agli lið; trauður mun eg til vera að gera þér skaða, ef því er að skipta, ef þú vilt heldur leggja fram líf þitt en hann sé drepinn; en ærnar eru sakar til við Egil, hvað sem eg læt gera við hann."
Og er konungur hafði þetta mælt, þá gekk Egill fyrir hann og hóf upp kvæðið og kvað hátt og fékk þegar hljóð:
Vestr fórk of ver,en ek Viðris bermunstrandar mar,svá-s mitt of far;drók eik á flotvið ísa brot,hlóðk mærðar hlutmíns knarrar skut.
Buðumk hilmir löð,þar ák hróðrar kvöð,berk Óðins mjöðá Engla bjöð;lofat vísa vann,víst mærik þann;hljóðs biðjum hann,því at hróðr of fann.
Hygg, vísi, atvel sómir þat,hvé ek þylja fet,ef ek þögn of get;flestr maðr of frá,hvat fylkir vá,en Viðrir sá,hvar valr of lá.
Óx hjörva glömvið hlífar þröm,guðr óx of gram,gramr sótti fram;þar heyrðisk þá,þaut mækis á,malmhríðar spá;sú vas mest of lá.
Vasat villr staðarvefr darraðarof grams glaðargeirvangs raðar;þars í blóðienn brimlá-móðivöllr of þrumði,und véum glumði.
Hné folk á fitvið fleina hnit;orðstír of gatEiríkr at þat.
Fremr munk segja,ef firar þegja,frágum fleiratil frama þeira,óxu undirvið jöfurs fundi,brustu brandarvið bláar randar.
Hlam heinsöðulvið hjaldrröðul,beit bengrefill,þat vas blóðrefill;frák, at fellifyr fetilsvelliÓðins eikií éarnleiki.
Þar vas eggja atok odda gnat;orðstír of gatEiríkr at þat.
Rauð hilmir hjör,þar vas hrafna gjör,fleinn hitti fjör,flugu dreyrug spjör;ól flagðs gotafárbjóðr Skota,trað nipt Naranáttverð ara.
Flugu hjaldrs tranará hræs lanar,órut blóðs vanarbenmás granar,sleit und freki,en oddbrekignúði hrafniá höfuðstafni.
Kom gríðar læat Gjalpar skæ;bauð ulfum hræEiríkr of sæ.
Lætr snót sakasverð-Frey vaka,en skers Hakaskíðgarð braka;brustu broddar,en bitu oddar,báru hörvaraf bogum örvar.
Beit fleinn floginn,þá vas friðr loginn,vas almr dreginn,varð ulfr feginn;stósk folkhagivið fjörlagi,gall ýbogiat eggtogi.
Jöfurr sveigði ý,flugu unda bý;bauð ulfum hræEiríkr of sæ.
Enn munk viljafyr verum skiljaskapleik skata,skal mærð hvata;verpr ábröndum,en jöfurr löndumheldr hornklofi;hann's næstr lofi.
Brýtr bógvitabjóðr hrammþvita,muna hodd-dofahringbrjótr lofa;mjök's hánum fölhaukstrandar möl;glaðar flotna fjölvið Fróða mjöl.
Verpr broddfletiaf baugsetihjörleiks hvati,hann es baugskati;þróask hér sem hvar,hugat mælik þar,frétt's austr of mar,Eiríks of far.
Jöfurr hyggi at,hvé ek yrkja fat,gótt þykkjumk þat,es ek þögn of gat;hrærðak munniaf munar grunniÓðins ægiof jöru fægi.
Bark þengils lofá þagnar rof;kannk mála mjötof manna sjöt;ór hlátra hamhróðr bark fyr gram;svá fór þat fram,at flestr of nam.
62. kafli
Eiríkur konungur sat uppréttur, meðan Egill kvað kvæðið, og hvessti augun á hann; og er lokið var drápunni, þá mælti konungur:
"Besta er kvæðið fram flutt, en nú hefi eg hugsað, Arinbjörn, um mál vort Egils, hvar koma skal. Þú hefir flutt mál Egils með ákafa miklum, er þú býður að etja vandræðum við mig; nú skal það gera fyrir þínar sakar, sem þú hefir beðið, að Egill skal fara frá mínum fundi heill og ósakaður. En þú, Egill, hátta svo ferðum þínum, að síðan, er þú kemur frá mínum fundi af þessi stofu, þá kom þú aldregi í augsýn mér og sonum mínum og verð aldri fyrir mér né mínu liði. En eg gef þér nú höfuð þitt að sinni; fyrir þá sök, er þú gekkst á mitt vald, þá vil eg eigi gera níðingsverk á þér, en vita skaltu það til sanns, að þetta er engi sætt við mig né sonu mína og enga frændur vora, þá sem réttar vilja reka."
Þá kvað Egill:
Erumka leitt,þótt ljótr séi,hjalma klettaf hilmi þiggja;hvar's sás gataf göfuglyndumæðri gjöfallvalds syni.
Arinbjörn þakkaði konungi með fögrum orðum þá sæmd og vináttu, er konungur hefir veitt honum. Þá ganga þeir Arinbjörn og Egill heim í garð Arinbjarnar; síðan lét Arinbjörn búa reiðskjóta liði sínu. Reið hann brott með Agli og hundrað manna alvopnaðra með honum; Arinbjörn reið með lið það, til þess er þeir komu til Aðalsteins konungs, og fengu þar góðar viðtökur; bauð konungur Agli með sér að vera og spurði, hvernig farið hafði með þeim Eiríki konungi.
Þá kvað Egill:
Svartbrúnum lét sjónumsannsparr Hugins varra,hugr tjóðum mjök mága,mögnuðr Egil fagna;arfstóli knák Álaáttgöfguðum hattarfyr regnaðar regniráða nú sem áðan.
En að skilnaði þeirra Arinbjarnar og Egils, þá gaf Egill Arinbirni gullhringa þá tvo, er Aðalsteinn konungur gaf honum, og stóð mörk hvor, en Arinbjörn gaf Agli sverð það, er Dragvandill hét. Það hafði gefið Arinbirni Þórólfur Skalla-Grímsson, en áður hafði Skalla-Grímur þegið af Þórólfi, bróður sínum, en Þórólfi gaf sverðið Grímur loðinkinni, sonur Ketils hængs; það sverð hafði átt Ketill hængur og haft í hólmgöngum, og var það allra sverða bitrast. Skildust þeir með kærleik hinum mesta; fór Arinbjörn heim í Jórvík til Eiríks konungs; en förunautar Egils og skipverjar hans höfðu þar frið góðan og vörðu varningi sínum í trausti Arinbjarnar; en er á leið veturinn, fluttust þeir suður til Englands og fóru á fund Egils.
63. kafli
Eiríkur alspakur hét lendur maður í Noregi; hann átti Þóru, dóttur Þóris hersis, systur Arinbjarnar; hann átti eignir í Vík austur; hann var maður stórauðugur og hinn mesti virðingamaður, spakur að viti. Þorsteinn hét sonur þeirra; hann fæddist upp með Arinbirni og var þá vaxinn mjög og þó á ungum aldri; hann hafði farið vestur til Englands með Arinbirni.
En það sama haust sem Egill hafði komið til Englands, spurðust af Noregi þau tíðindi, að Eiríkur alspakur var andaður, en arf hans höfðu tekið ármenn konungs og kastað á konungs eign. Og er Arinbjörn og Þorsteinn spurðu þessi tíðindi, þá gerðu þeir það ráð, að Þorsteinn skyldi fara austur og vitja arfsins.
Og er vorið leið fram og menn bjuggu skip sín, þeir er fara ætluðu landa í millum, þá fór Þorsteinn suður til Lundúna og hitti þar Aðalstein konung; bar hann fram jartegnir og orðsending Arinbjarnar til konungs, og svo til Egils, að hann væri flutningsmaður við konung, að Aðalsteinn konungur gerði orðsending sína til Hákonar konungs, fóstra síns, að Þorsteinn næði arfi og eignum í Noregi. Aðalsteinn konungur var þess auðbeðinn, því að Arinbjörn var honum kunnugur að góðu.
Þá kom og Egill að máli við Aðalstein konung og sagði honum fyrirætlan sína: "Vil eg í sumar," segir hann, "fara austur til Noregs að vitja fjár þess, er Eiríkur konungur rændi mig og þeir Berg-Önundur; situr nú yfir því fé Atli hinn skammi, bróðir Berg-Önundar; veit eg, ef orðsendingar yðrar koma til, að eg mun ná lögum af því máli."
Konungur segir, að Egill skal ráða ferðum sínum - "en best þætti mér, að þú værir með mér og gerðist landvarnarmaður minn og réðir fyrir herliði mínu; mun eg fá þér veislur stórar."
Egill segir: "Þessi kostur þykir mér allfýsilegur að taka; vil eg því játa, en eigi níta; en þó verð eg fyrst að fara til Íslands og vitja konu minnar og fjár þess, er eg á þar.
Aðalsteinn konungur gaf Agli kaupskip gott og þar með farminn; var þar á til þunga hveiti og hunang og enn mikið fé annað í öðrum varningi. Og er Egill bjó skip sitt til hafs, þá réðst til farar með honum Þorsteinn Eiríksson, er fyrr var getið, er síðan var kallaður Þóruson, og er þeir voru búnir, þá sigldu þeir; skildust þeir Aðalsteinn konungur og Egill með hinni mestu vináttu.
Þeim Agli greiddist vel ferðin, komu að Noregi í Vík austur og héldu skipinu inn allt í Óslóarfjörð; þar átti Þorsteinn bú á land upp og svo inn allt á Raumaríki. Og er Þorsteinn kom þar til lands, þá veitti hann tilkall um föðurarf sinn við ármennina, er setst höfðu í bú hans; veittu Þorsteini margir lið að þessu. Voru þar stefnur til lagðar; átti Þorsteinn þar marga frændur göfga; lauk þar svo, er skotið var til konungs úrskurðar, en Þorsteinn tók við varðveislu fjár þess, er faðir hans hafði átt.
Egill fór til veturvistar með Þorsteini og þeir tólf saman; var þangað flutt heim til Þorsteins hveiti og hunang; var þar um veturinn gleði mikil, og bjó Þorsteinn rausnarsamlega, því að nóg voru föng til.
64. kafli
Hákon konungur Aðalsteinsfóstri réð þá fyrir Noregi, sem fyrr var sagt; konungur sat þann vetur norður í Þrándheimi.
En er á leið veturinn, byrjaði Þorsteinn ferð sína og Egill með honum; þeir höfðu nær þremur tigum manna; og er þeir voru búnir, fóru þeir fyrst til Upplanda, þaðan norður um Dofrafjall til Þrándheims og komu þar á fund Hákonar konungs. Báru þeir upp erindi sín við konung; sagði Þorsteinn skyn á máli sínu og kom fram vitnum með sér, að hann átti arf þann allan, er hann kallaði til. Konungur tók því máli vel, lét hann Þorstein ná eignum sínum, og þar með gerðist hann lendur maður konungs, svo sem faðir hans hafði verið.
Egill gekk á fund Hákonar konungs og bar fyrir hann sín erindi og þar með orðsending Aðalsteins konungs og jartegnir hans. Egill taldi til fjár þess, er átt hafði Björn höldur, landa og lausaaura; taldi hann sér helming fjár þess og Ásgerði, konu sinni, bauð þar fram vitni og eiða með máli sínu, sagði og, að hann hafði það allt fram borið fyrir Eiríki konungi, lét það fylgja, að hann hafði þá eigi náð lögum fyrir ríki Eiríks konungs, en eggjan Gunnhildar. Egill innti upp allan þann málavöxt, er fyrr hafði í gerst á Gulaþingi; beiddi hann þá konung unna sér laga á því máli.
Hákon konungur svarar: "Svo hefi eg spurt, að Eiríkur, bróðir minn, muni það kalla, og þau Gunnhildur bæði, að þú, Egill, munir hafa kastað steini um megn þér í yðrum skiptum; þætti mér þú vel mega yfir láta, Egill, að eg legði ekki til þessa máls, þó að við Eiríkur bærum eigi gæfu til samþykkis."
Egill mælti: "Ekki máttu, konungur, þegja yfir svo stórum málum, því að allir menn hér í landi, innlenskir og útlenskir, skulu hlýða yðru boði. eg hefi spurt, að þér setjið lög hér í landi og rétt hverjum manni; nú veit eg, að þér munuð mig láta þeim ná sem aðra menn; þykist eg hafa til þess burði og frændastyrk hér í landi að hafa við Atla hinn skamma. En um mál okkur Eiríks konungs er yður það að segja, að eg var á hans fund, og skildumst við svo, að hann bað mig í friði fara, hvert er eg vildi. Vil eg bjóða yður, herra, mína fylgd og þjónustu; veit eg, að vera munu hér með yður þeir menn, er ekki munu þykja víglegri á velli að sjá en eg er; er það mitt hugboð, að eigi líði langt, áður fundi ykkra Eiríks konungs muni saman bera, ef ykkur endist aldur til; þykir mér það undarlegt, ef eigi skal þar koma, að þér þyki Gunnhildur eiga sona uppreist marga."
Konungur segir: "Ekki muntu, Egill, gerast mér handgenginn; miklu hafið þér frændur meira skarð höggvið í ætt vora en þér muni duga að staðfestast hér í landi. Far þú til Íslands út og ver þar að föðurarfi þínum; mun þér þá verða ekki mein að oss frændum, en hér í landi er þess von um alla þína daga, að vorir frændur séu ríkastir. En fyrir sakir Aðalsteins konungs, fóstra míns, þá skaltu hafa hér frið í landi og ná lögum og landsrétti, því að eg veit, að Aðalsteinn konungur hefir mikla elsku á þér."
Egill þakkaði konungi orð sín og beiddist þess, að konungur skyldi fá honum sannar jartegnir sínar til Þórðar á Aurland eða annarra lendra manna í Sogni og á Hörðalandi. Konungur segir, að svo skyldi vera.
65. kafli
Þorsteinn og Egill bjuggu ferð sína, þegar þeir höfðu lokið erindum sínum; fara þeir þá aftur á leið; og er þeir koma suður um Dofrafjall, þá segir Egill, að hann vill fara ofan til Raumsdals og síðan suður sundaleið. "Vil eg," segir hann, "lúka erindum mínum í Sogni og á Hörðalandi, því að eg vil búa skip mitt í sumar til Íslands út."
Þorsteinn bað hann ráða ferð sinni; skiljast þeir Þorsteinn og Egill; fór Þorsteinn suður um Dali og alla leið, til þess er hann kom til búa sinna; bar hann þá fram jartegnir konungs og orðsending fyrir ármennina, að þeir skyldu láta fé það allt, er þeir hafa upp tekið og Þorsteinn kallaði til.
Egill fór leiðar sinnar og þeir tólf saman; komu þeir fram í Raumsdal, fengu sér þá flutningar; fóru síðan suður á Mæri. Er ekki sagt frá ferð þeirra, fyrr en þeir komu í ey þá, er Höð heitir, og fóru til gistingar á bæ þann, er heitir á Blindheimi; það var göfugur bær. Þar bjó lendur maður, er Friðgeir hét; hann var ungur að aldri, hafði nýtekið við föðurarfi sínum; móðir hans hét Gyða. Hún var systir Arinbjarnar hersis, skörungur mikill og göfug kona. Hún var að ráðum með syni sínum, Friðgeiri; höfðu þau þar rausnarbú mikið. Þar fengu þeir allgóðar viðtökur; sat Egill um kveldið hið næsta Friðgeiri og förunautar hans þar utar frá; var þar drykkja mikil og dýrleg veisla.
Gyða húsfreyja gekk um kveldið til tals við Egil; hún spurði að Arinbirni, bróður sínum, og enn að fleirum frændum sínum og vinum, þeim er til Englands höfðu farið með Arinbirni. Egill sagði henni það, sem hún spurði; hún spurði, hvað til tíðinda hefði gerst í ferðum Egils; hann segir henni af hið ljósasta. Þá kvað hann:
Urðumk leið en ljótalandbeiðaðar reiði;sígrat gaukr, ef glammagamm veit of sik þramma;þar nautk enn sem optararnstalls sjötulbjarnar;hnígrat allr, sás hollahjalpendr of för gjalpar.
Egill var allkátur um kveldið, en Friðgeir og heimamenn voru heldur hljóðir. Egill sá þar mey fagra og vel búna; honum var sagt, að hún var systir Friðgeirs; mærin var ókát og grét einart um kveldið; það þótti þeim undarlegt.
Þar voru þeir um kveldið. En um morguninn var veður hvasst og eigi sæfært; þar þurftu þeir far úr eyjunni. Þá gekk Friðgeir og bæði þau Gyða til fundar við Egil; buðu þau honum þar að sitja með förunauta sína, til þess er gott væri færiveður, og hafa þaðan fararbeina, þann sem þeir þyrftu. Egill þekktist það; sátu þeir þar veðurfastir þrjár nætur, og var þar hinn mesti mannfagnaður. Eftir það gerði veður lygnt; stóðu þeir Egill þá upp snemma um morguninn og bjuggust, gengu þá til matar, og var þeim gefið öl að drekka, og sátu þeir um hríð; síðan tóku þeir klæði sín. Egill stóð upp og þakkaði bónda og húsfreyju beina sinn, og gengu síðan út. Bóndi og móðir hans gengu á götu með þeim; þá gekk Gyða til máls við Friðgeir, son sinn, og talaði við hann lágt. Egill stóð meðan og beið þeirra.
Egill mælti við meyna: "Hvað grætur þú, mær? eg sé þig aldrei káta."
Hún mátti engu svara og grét að meir. Friðgeir svarar móður sinni hátt: "Ekki vil eg nú biðja þess; þeir eru nú búnir ferðar sinnar."
Þá gekk Gyða að Agli og mælti: "Eg mun segja þér, Egill, tíðindi þau, sem hér eru með oss. Maður heitir Ljótur hinn bleiki; hann er berserkur og hólmgöngumaður; hann er óþokkasæll. Hann kom hér og bað dóttur minnar, en vér svöruðum skjótt og synjuðum honum ráðsins; síðan skoraði hann til hólmgöngu á Friðgeir, son minn, og skal á morgun koma til hólmsins í ey þá, er Vörl heitir. Nú vildi, eg, Egill, að þú færir til hólmsins með Friðgeiri; myndi það sannast, ef Arinbjörn væri hér í landi, að vér myndum eigi þola ofríki slíkum manni sem Ljótur er."
"Skylt er það, húsfreyja, fyrir sakar Arinbjarnar, frænda þíns, að eg fari með syni þínum, ef honum þykir sér það nokkurt fullting."
"Þá gerir þú vel," segir Gyða, "skulum vér þá ganga inn í stofu og vera öll saman daglangt."
Ganga þeir Egill þá inn í stofu og drukku; sátu þeir þar um daginn, en um kveldið komu vinir Friðgeirs, þeir er til ferðar voru ráðnir með honum, og var fjölmennt um nóttina; var þar þá veisla mikil.
En eftir um daginn bjóst Friðgeir til ferðar og margt manna með honum; var þar Egill í för; þá var gott færiveður; fara þeir síðan og koma í eyna Vörl. Þar var fagur völlur skammt frá sjónum, er hólmstefnan skyldi vera; var þar markaður hólmstaður, lagðir steinar utan um.
Nú kom þar Ljótur með lið sitt; bjóst hann þá til hólmgöngu; hann hafði skjöld og sverð; Ljótur var allmikill maður og sterklegur. Og er hann gekk fram á völlinn að hólmstaðnum, þá kom á hann berserksgangur, tók hann þá að grenja illilega og beit í skjöld sinn. Friðgeir var maður ekki mikill, grannlegur og fríður sjónum og ekki sterkur; hafði hann og ekki staðið í bardögum. Og er Egill sá Ljót, þá kvað hann vísu:
Esa Friðgeiri færi,förum holms á vit, sörvar,skulum banna mjök mannimey, örlygi at heyjavið þanns bítr ok blótarbönd élhvötuð Göndlar,alfeigum skýtr ægiraugum, skjöld at baugi.
Ljótur sá, hvar Egill stóð, og heyrði orð hans og mælti:
"Gakk þú hingað, hinn mikli maður, á hólminn og berst við mig, ef þú ert allfús til, og reynum með okkur; er það miklu jafnlegra en eg berjist við Friðgeir, því að eg þykist eigi að meiri maður, þó að eg leggi hann að jörðu."
Þá kvað Egill:
Esat lítillar Ljóti,leik ek við hal bleikanvið bifteini, bænar,brynju, rétt at synja;búumk til vígs, en vægðarván lætka ek hánum,skapa verðum vit skaldiskæru, drengr, á Mæri.
Síðan bjóst Egill til hólmgöngu við Ljót. Egill hafði skjöld þann, sem hann var vanur að hafa, en hann var gyrður sverði því, er hann kallaði Naður, en hann hafði Dragvandil í hendi. Hann gekk inn yfir mark það, er hólmstefnan skyldi vera, en Ljótur var þá eigi búinn. Egill skók sverðið og kvað vísu:
Höggum hjaltvönd skyggðan,hæfum rönd með brandi,reynum randar mána,rjóðum sverð í blóði;stýfum Ljót af lífi.leikum sárt við bleikan,kyrrum kappa errinn,komi örn á hræ, jörnum.
Þá kom Ljótur fram á vígvöllinn, og síðan rennast þeir að, og heggur Egill til Ljóts, en Ljótur brá við skildinum, en Egill hjó hvert högg að öðru, svo að Ljótur fékk ekki höggvið í móti. Hann hopaði undan til höggrúmsins, en Egill fór jafnskjótt eftir og hjó sem ákafast; Ljótur fór út um marksteinana og víða um völlinn. Gekk svo hin fyrsta hríð. Þá beiddist Ljótur hvíldar; Egill lét það og vera; nema þeir þá stað og hvíla sig. Þá kvað Egill:
Fyrir þykki mér fúrafleins stökkvandi nökkvat,hræðisk hodda beiðirhapplauss, fara kappi;stendrat fast, sás frestarfleindöggvar stafr, höggum;vábeiða ferr víðanvöll fyr rotnum skalla.
Það voru hólmgöngulög í þann tíma, að sá, er skorar á mann annan til eins hvers hlutar, og fengi sá sigur, er á skoraði, þá skyldi sá hafa sigurmál það, er hann hafði til skorað, en ef hann fengi ósigur, þá skyldi hann leysa sig þvílíku fé, sem ákveðið væri; en ef hann félli á hólminum, þá hafði hann fyrirvegið allri sinni eigu, og skyldi sá taka arf hans, er hann felldi á hólmi. Það voru og lög, ef útlendur maður andaðist, sá er þar í landi átti engan erfingja, þá gekk sá arfur í konungsgarð.
Egill bað, að Ljótur skyldi búinn verða. "Vil eg, að vér reynum nú hólmgöngu þessa."
Síðan hljóp Egill að honum og hjó til hans; gekk hann þá svo nær honum, að hann hrökk fyrir, og bar þá skjöldinn af honum. Þá hjó Egill til Ljóts, og kom á fyrir ofan kné og tók af fótinn; féll Ljótur þá og var þegar örendur.
Þá gekk Egill þar til, er þeir Friðgeir voru; var þetta verk honum allvel þakkað. Þá kvað Egill:
Fell sás flest et illa,fót hjó skald af Ljóti,ulfgrennir hefr unnit,eir veittak Friðgeiri;séka lóns til launalogbrjótanda í móti,jafn vas mér í gný geiragamanleikr við hal bleikan.
Ljótur var lítt harmaður af flestum mönnum, því að hann hafði verið hinn mesti óeirumaður; hann var sænskur að ætt og átti enga frændur þar í landi; hann hafði komið þangað og aflað sér fjár á hólmgöngum. Hann hafði fellt marga góða bændur og skorað áður á þá til hólmgöngu og til jarða þeirra og óðala, var þá orðinn stórauðugur bæði að löndum og lausum aurum.
Egill fór heim með Friðgeiri af hólmstefnunni; dvaldist hann þar þá litla hríð, áður hann fór suður á Mæri. Skildust þeir Egill og Friðgeir með miklum kærleik; bauð Egill Friðgeiri um að heimta jarðir þær, er Ljótur hafði átt. Fór Egill sína leið, kom fram í Fjörðum; þaðan fór hann inn í Sogn á fund Þórðar á Aurlandi. Tók hann vel við honum; bar hann fram erindi sín og orðsendingar Hákonar konungs; tók Þórður vel ræðum Egils og hét honum liðveislu sinni um það mál; dvaldist Egill þar lengi um vorið með Þórði.
66. kafli
Egill gerði ferð sína suður á Hörðaland; hann hafði til þeirrar ferðar róðrarferju og þar á þrjá tigu manna. Þeir koma einn dag í Fenhring á Ask; gekk Egill þar til með tuttugu menn, en tíu gættu skips. Atli hinn skammi var þar fyrir með nokkura menn; Egill lét hann út kalla og segja, að Egill Skalla-Grímsson átti erindi við hann; Atli tók vopn sín og allir þeir menn, er þar voru vígir fyrir, og gengu út síðan.
Egill mælti: "Svo er mér sagt, Atli, að þú munir hafa að varðveita fé það, er eg á að réttu og Ásgerður, kona mín; muntu heyrt hafa þar fyrr um rætt, að eg kallaði mér arf Bjarnar hölds, er Berg-Önundur, bróðir þinn, hélt fyrir mér. Er eg nú kominn að vitja fjár þess, landa og lausaaura, og krefja þig, að þú látir laust og greiðir mér í hendur."
Atli segir: "Lengi höfum vér það heyrt, Egill, að þú sért ójafnaðarmaður, en nú mun eg að raun um koma, ef þú ætlar að kalla til þess fjár í hendur mér, er Eiríkur konungur dæmdi Önundi, bróður mínum; átti Eiríkur konungur þá að ráða boði og banni hér í landi. Hugði eg nú, Egill, að þú myndir fyrir því hér kominn að bjóða mér gjöld fyrir bræður mína, er þú tókst af lífi, og þú myndir bæta vilja rán það, er þú rændir hér á Aski; myndi eg þá veita svör þessu máli, ef þú flyttir þetta erindi fram, en hér kann eg engu svara."
"Það vil eg," segir Egill, "bjóða þér, sem eg bauð Önundi, að Gulaþingslög skipi um mál okkur; tel eg bræður þína hafa fallið ógilda á sjálfra sinna verkum, því að þeir höfðu áður rænt mig lögum og landsrétti og tekið fé mitt að herfangi. Hefi eg til þessa konungsleyfi að leita laga við þig um þetta mál; vil eg stefna þér til Gulaþings og hafa þar lagaúrskurð um þetta mál."
"Koma mun eg," segir Atli, "til Gulaþings, og megum við þar ræða um þessi mál."
Síðan fór Egill í brott með föruneyti sitt; fór hann þá norður í Sogn og inn á Aurland til Þórðar, mágs síns, og dvaldist þar til Guluþings.
Og er menn komu til þings, þá kom Egill þar; Atli hinn skammi var og þar kominn. Tóku þeir þá að tala sín mál og fluttu fram fyrir þeim mönnum, er um skyldu dæma; flutti Egill fram fjárheimtu, en Atli bauð lögvörn í mót, tylftareiða, að hann hefði ekki fé það að varðveita, er Egill ætti.
Og er Atli gekk að dómum með eiðalið sitt, þá gekk Egill mót honum og segir, að eigi vill hann eiða hans taka fyrir fé sitt; "vil eg bjóða þér önnur lög, þau, að við göngum á hólm hér á þinginu, og hafi sá fé þetta, er sigur fær."
Það voru og lög, er Egill mælti, og forn siðvenja, að hverjum manni var rétt að skora á annan til hólmgöngu, hvort er hann skyldi verja sakir fyrir sig eða sækja.
Atli sagði, að hann myndi eigi synja að ganga á hólm við Egil "því að þú mælir það, er eg ætti að mæla, því að ærinna harma á eg að hefna á þér; þú hefir að jörðu lagt bræður mína tvo, og er mér mikilla muna vant, að eg haldi réttu máli, ef eg skal heldur láta lausar eignir mínar aflaga fyrir þér en berjast við þig, er þú býður mér það."
Síðan taka þeir Atli og Egill höndum saman og festa það með sér, að þeir skulu á hólm ganga og sá, er sigur fær, skal eiga jarðir þær, er þeir deildu áður um.
Eftir það búast þeir til hólmgöngu; gekk Egill fram og hafði hjálm á höfði og skjöld fyrir sér og kesju í hendi, en sverðið Dragvandil festi hann við hægri hönd sér. Það var siður hólmgöngumanna að þurfa ekki að bregða sverði sínu á hólmi, láta heldur sverðið hendi fylgja, svo að þegar væri sverðið tiltækt, er hann vildi. Atli hafði hinn sama búnað sem Egill; hann var vanur hólmgöngum; hann var sterkur maður og hinn mesti fullhugi.
Þar var leiddur fram graðungur mikill og gamall; var það kallað blótnaut; það skyldi sá höggva, er sigur hefði. Var það stundum eitt naut, stundum lét sitt hvor fram leiða, sá er á hólm gekk.
Og er þeir voru búnir til hólmgöngu, þá hlaupast þeir að og skutu fyrst spjótum, og festi hvortki spjótið í skildi, námu bæði í jörðu staðar. Síðan taka þeir báðir til sverða sinna, gengust þá að fast og hjuggust til; gekk Atli ekki á hæl; þeir hjuggu títt og hart, og ónýttust skjótt skildirnir. Og er skjöldur Atla var mjög ónýttur, þá kastaði hann honum, tók þá sverðið tveim höndum og hjó sem tíðast. Egill hjó til hans á öxlina, og beit ekki sverðið; hann hjó annað og hið þriðja; var honum þá hægt að leita höggstaðar á Atla, að hann hafði enga hlíf; Egill reiddi sverðið af öllu afli, en ekki beit, hvar sem hann hjó til.
Sér þá Egill, að eigi mun hlýða svo búið, því að skjöldur hans gerðist þá ónýtur. Þá lét Egill laust sverðið og skjöldinn og hljóp að Atla og greip hann höndum. Kenndi þá aflsmunar, og féll Atli á bak aftur, en Egill greyfðist að niður og beit í sundur í honum barkann; lét Atli þar líf sitt. Egill hljóp upp skjótt og þar til, er blótnautið stóð, greip annarri hendi í granarnar, en annarri í hornið og snaraði svo, að fætur vissu upp, en í sundur hálsbeinið; síðan gekk Egill þar til, er stóð föruneyti hans. Þá kvað Egill:
Beitat nú, sás brugðum,blár Dragvandill randir,af þvít eggjar deyfðiAtli framm enn skammi;neyttak afls við ýtiörmálgastan hjörva;jaxlbróður létk eyða,ek bar af sauði, nauðum.
Síðan eignaðist Egill jarðir þær allar, er hann hafði til deilt og hann kallaði, að Ásgerður, kona hans, hefði átt að taka eftir föður sinn. Ekki er getið, að þá yrði fleira til tíðinda á því þingi. Egill fór þá fyrst inn í Sogn og skipaði jarðir þær, er hann hafði þá fengið að eiginorði; dvaldist hann þar mjög lengi um vorið; síðan fór hann með föruneyti sitt austur í Vík; fór hann þá á fund Þorsteins og var þar um hríð.
67. kafli
Egill bjó skip sitt um sumarið og fór, þegar hann var búinn; hann hélt til Íslands; honum fórst vel; hélt hann til Borgarfjarðar og kom skipinu skammt frá bæ sínum; lét hann flytja heim varning sinn, en setti upp skipið. Var Egill vetur þann að búi sínu. Egill hafði nú út haft allmikið fé; var hann maður stórauðugur; hann hafði mikið bú og risulegt.
Ekki var Egill íhlutunarsamur um mál manna og ótilleitinn við flesta menn, þá er hann var hér á landi; gerðust menn og ekki til þess að sitja yfir hlut hans. Egill var þá að búi sínu, svo að það skipti vetrum eigi allfáum.
Egill og Ásgerður áttu börn, þau er nefnd eru, -- Böðvar hét sonur þeirra, annar Gunnar, Þorgerður dóttir og Bera; Þorsteinn var yngstur. Öll voru börn Egils mannvæn og vel viti borin. Þorgerður var elst barna Egils, Bera þar næst.
68. kafli
Egill spurði þau tíðindi austan um haf, að Eiríkur blóðöx hefði fallið í vesturvíking, en Gunnhildur og synir þeirra voru farin til Danmerkur suður, og brottu var af Englandi það lið allt, er þeim Eiríki hefði þangað fylgt. Arinbjörn var þá kominn til Noregs; hafði hann fengið veislur sínar og eignir þær, er hann hafði átt, og var kominn í kærleika mikla við konunga; þótti Agli þá enn fýsilegt gerast að fara til Noregs. Það fylgdi og tíðindasögu, að Aðalsteinn konungur var andaður; réð þá fyrir Englandi bróðir hans, Játmundur.
Egill bjó þá skip sitt og réð háseta til. Önundur sjóni réðst þar til, sonur Ána frá Ánabrekku; Önundur var mikill og þeirra manna sterkastur, er þá voru þar í sveit; eigi var um það einmælt, að hann væri eigi hamrammur. Önundur hafði oft verið í förum landa í milli; hann var nokkuru eldri en Egill; með þeim hafði lengi verið vingott.
Og er Egill var búinn, lét hann í haf, og greiddist þeirra ferð vel; komu að miðjum Noregi. Og er þeir sáu land, stefndu þeir inn í Fjörðu; og er þeir fengu tíðindi af landi, var þeim sagt, að Arinbjörn var heima að búum sínum; heldur Egill þangað skipi sínu í höfn sem næst bæ Arinbjarnar.
Síðan fór Egill að finna Arinbjörn, og varð þar fagnafundur mikill með þeim; bauð Arinbjörn Agli þangað til vistar og föruneyti hans, því er hann vildi, að þangað færi. Egill þekktist það og lét ráða skipi sínu til hlunns, en hásetar vistuðust; Egill fór til Arinbjarnar og þeir tólf saman. Egill hafði látið gera langskipssegl mjög vandað; segl það gaf hann Arinbirni og enn fleiri gjafar, þær er sendilegar voru. Var Egill þar um veturinn í góðu yfirlæti. Egill fór um veturinn suður í Sogn að landskyldum sínum, dvaldist þar mjög lengi; síðan fór hann norður í Fjörðu.
Arinbjörn hafði jólaboð mikið, bauð til sín vinum sínum og héraðsbóndum; var þar fjölmenni mikið og veisla góð; hann gaf Agli að jólagjöf slæður, gerðar af silki og gullsaumaðar mjög, settar fyrir allt gullknöppum í gegnum niður; Arinbjörn hafði látið gera klæði það við vöxt Egils. Arinbjörn gaf Agli alklæðnað, nýskorinn, að jólum; voru þar skorin í ensk klæði með mörgum litum. Arinbjörn gaf margs konar vingjafar um jólin þeim mönnum, er hann höfðu heimsótt, því að Arinbjörn var allra manna örvastur og mestur skörungur.
Þá orti Egill vísu:
Sjalfráði lét slæðursilki drengr of fengitgollknappaðar greppi,getk aldri vin betra;Arinbjörn hefr árnateirarlaust eða meira,síð man seggr of fæðaskslíkr, oddvita ríki.
69. kafli
Egill fékk ógleði mikla eftir jólin, svo að hann kvað eigi orð; og er Arinbjörn fann það, þá tók hann ræðu við Egil og spurði, hverju það gegndi, ógleði sú, er hann hafði; "vil eg," segir hann, "að þú látir mig vita, hvort þú ert sjúkur, eða ber annað til; megum vér þá bætur á vinna."
Egill segir: "Engar hefi eg kvellisóttir, en áhyggjur hefi eg miklar um það, hversu eg skal ná fé því, er eg vann til, þá er eg felldi Ljót hinn bleika norður á Mæri. Mér er sagt, að ármenn konungs hafi það fé allt upp tekið og kastað á konungs eigu. Nú vil eg þar til hafa þitt liðsinni um þessa fjárheimtu."
Arinbjörn segir: "Ekki ætla eg það fjarri lands lögum, að þú eignaðist fé það, en þó þykir mér nú féð fastlega komið; er konungsgarður rúmur inngangs, en þröngur brottfarar. Hafa oss orðið margar torsóttar fjárheimtur við ofureflismennina, og sátum vér þá í meira trausti við konung en nú er, því að vinátta okkur Hákonar konungs stendur grunnt, þó að eg verði svo að gera sem fornkveðið orð er, að þá verður eik að fága, er undir skal búa."
"Þar leikur þó minn hugur á," segir Egill, "ef vér höfum lög að mæla, að vér freistum; má svo vera, að konungur unni oss hér af rétts, því að mér er sagt, að konungur sé maður réttlátur og haldi vel lög þau, er hann setur hér í landi; telst mér það helst í hug, að eg muni fara á fund konungs og freista þessa mála við hann."
Arinbjörn segir, að hann var ekki fús þess; "þykir mér, sem því muni óhægt saman að koma, Egill, kappi þínu og dirfð, en skaplyndi konungs og ríki hans, því að eg hygg hann vera engan vin þinn, og þykja honum þó sakar til vera. Vil eg heldur, að við látum þetta mál niður falla og hefjum eigi upp; en ef þú vilt það, Egill, þá skal eg heldur fara á fund konungs með þessi málaleitan."
Egill segir, að hann kynni þess mikla þökk og aufúsu og hann vill þenna kost gjarna. Hákon var þá á Rogalandi, en stundum á Hörðalandi; varð ekki torsótt að sækja hans fund; var það og eigi miklu síðar en ræðan hafði verið.
Arinbjörn bjó ferð sína; var þá gert ljóst fyrir mönnum, að hann ætlaði til konungs fundar; skipaði hann húskörlum sínum tvítugsessu, er hann átti. Egill skyldi heima vera; vildi Arinbjörn eigi, að hann færi. Fór Arinbjörn, þá er hann var búinn, og fórst honum vel; fann hann Hákon konung og fékk þar góðar viðtökur.
Og er hann hafði litla hríð dvalist þar, bar hann upp erindi sín við konung og segir, að Egill Skalla-Grímsson er þar kominn til lands og hann þóttist eiga fé það allt, er átt hafði Ljótur hinn bleiki; "er oss svo sagt, konungur, að Egill muni lög mæla um þetta, en féð hafa tekið upp ármenn yðrir og kastað á yðvarri eigu; vil eg yður þess biðja, herra, að Egill nái þar af lögum."
Konungur svarar hans máli og tók seint til orða: "Eigi veit eg, hví þú gengur með slíku máli fyrir hönd Egils; kom hann eitt sinn á minn fund, og sagði eg honum, að eg ekki vildi hér í landi vistir hans af þeim sökum, sem yður er áður kunnugt. Nú þarf Egill ekki að hefja upp slíkt tilkall við mig sem við Eirík, bróður minn. En þér, Arinbjörn, er það að segja, að þú svo megir vera hér í landi, að þú metir eigi meira útlenda menn en mig eða mín orð, því að eg veit, að hugir þínir standa þar til, er Haraldur er Eiríksson, fósturson þinn, og er þér sá kostur bestur að fara til fundar við þá bræður og vera með þeim, því að mér er mikill grunur á, að mér muni slíkir menn illir tiltaks, ef það þarf að reyna um skipti vor sona Eiríks."
Og er konungur tók þessu máli svo þvert, þá sá Arinbjörn, að ekki myndi tjá að leita þeirra mála við hann; bjóst hann þá til heimferðar; konungur var heldur styggur og óblíður til Arinbjarnar, síðan hann vissi erindi hans. Arinbjörn hafði þá og ekki skaplyndi til að mjúklæta sig við konung um þetta mál; skildust þeir við svo búið.
Fór Arinbjörn heim og sagði Agli erindislok sín; "mun eg eigi slíkra mála oftar leita við konung."
Egill varð allófrýnn við þessa sögu, þóttist þar mikils fjár missa og eigi að réttu.
Fáum dögum síðar var það snemma einn morgun, þá er Arinbjörn var í herbergi sínu, -- var þar þá ekki margt manna, -- þá lét hann kalla þangað Egil, og er hann kom þar, þá lét Arinbjörn lúka upp kistu og reiddi þar úr fjóra tigu marka silfurs og mælti svo: "Þetta fé geld eg þér, Egill, fyrir jarðir þær, er Ljótur hinn bleiki hafði átt; þykir mér það sannlegt, að þú hafir þessi laun af okkur Friðgeiri frændum fyrir það, er þú leystir líf hans af Ljóti, en eg veit, að þú lést mín að njóta; er eg því skyldur að láta þig eigi lögræning af því máli."
Egill tók við fénu og þakkaði Arinbirni; gerðist Egill þá enn einteiti.
70. kafli
Arinbjörn var þenna vetur heima að búum sínum, en eftir um vorið lýsti hann yfir því, að hann ætlar að fara í víking. Arinbjörn hafði skipakost góðan; bjó hann um vorið þrjú langskip og öll stór; hann hafði þrjú hundruð manna; hafði hann húskarla á skipi sínu, og var það allvel skipað; hann hafði og marga bóndasonu með sér. Egill réðst til farar með honum; stýrði hann skipi, og fór með honum margt af föruneyti því, er hann hafði haft með sér af Íslandi. En kaupskip það, er Egill hafði haft af Íslandi, lét hann flytja austur í Vík; fékk hann þar manna til að fara með varnað sinn. En þeir Arinbjörn og Egill héldu langskipunum suður með landi; síðan stefndu þeir liðinu suður til Saxlands og herjuðu þar um sumarið og fengu sér fé; en er hausta tók, héldu þeir norður aftur og lágu við Frísland.
Einhverja nótt, þá er veður var kyrrt, lögðu þeir upp í móðu eina, þar er illt var til hafna og útfiri mikil; þar voru á land upp sléttur miklar og skammt til skógar; þar voru vellir blautir, því að regn höfðu verið mikil.
Þar réðu þeir til uppgöngu og létu eftir þriðjung liðs að gæta skipa; þeir gengu upp með ánni, milli og skógarins; þá varð brátt fyrir þeim þorp eitt, og byggðu þar margir bændur; liðið rann úr þorpinu á landið, þar er mátti, þegar er vart varð við herinn, en víkingar sóttu eftir þeim. Var þá síðan annað þorp og hið þriðja. Liðið flýði allt það, er því kom við. Þar var jafnlendi og sléttur miklar; díki voru skorin víða um landið og stóð í vatn. Höfðu þeir lukt um akra sína og eng, en í sumum stöðum voru settir staurar stórir yfir díkin, þar er fara skyldi; voru brúar og lagðir yfir viðir. Landsfólkið flýði í mörkina.
En er víkingar voru komnir langt í byggðina, þá söfnuðust Frísir saman í skóginum, og er þeir höfðu aukin þrjú hundruð manna, þá stefna þeir í móti víkingum og ráða til orustu við þá. Varð þar harður bardagi, en svo lauk, að Frísir flýðu, en víkingar ráku flóttann; dreifðist bæjarliðið víðs vegar, það er undan fór; gerðu þeir og svo, er eftir fóru; kom þá svo, að fáir fóru hvorir saman.
Egill sótti þá hart eftir þeim og fáir menn með honum, en mjög margir fóru undan; komu Frísir þar að, er díki var fyrir þeim, og fóru þar yfir; síðan tóku þeir af bryggjuna. Þá koma þeir Egill að öðrum megin. Réð Egill þegar til og hljóp yfir díkið, en það var ekki annarra manna hlaup, enda réð og engi til. Og er Frísir sáu það, þá sækja þeir að honum, en hann varðist; þá sóttu að honum ellefu menn, en svo lauk þeirra viðskiptum, að hann felldi þá alla. Eftir það skaut Egill yfir brúnni og fór þá aftur yfir díkið; sá hann þá, að lið þeirra allt hafði snúið til skipanna; hann var þá staddur nær skóginum; síðan fór Egill fram með skóginum og svo til skipanna, að hann átti kost skógarins, ef hann þyrfti.
Víkingar höfðu haft mikið herfang ofan og strandhögg, og er þeir komu til skipanna, hjuggu sumir búféð, sumir fluttu út á skipin fén þeirra, sumir stóðu fyrir ofan í skjaldborg, því að Frísir voru ofan komnir og höfðu mikið lið og skutu á þá; höfðu Frísir þá aðra fylking. Og er Egill kom ofan og hann sá, hvað títt var, þá rann hann að sem snarast, þar sem múginn stóð; hafði hann kesjuna fyrir sér og tók hana tveimur höndum, en kastaði skildinum á bak sér. Hann lagði fram kesjunni, og stökk frá allt, það er fyrir stóð, og gafst honum svo rúm fram í gegnum fylkinguna; sótti hann svo ofan til manna sinna; þóttust þeir hafa hann úr helju heimtan.
Ganga þeir síðan á skip sín og héldu brott frá landi; sigldu þeir þá til Danmerkur; og er þeir koma til Limafjarðar og lágu að Hálsi, þá átti Arinbjörn húsþing við lið sitt og sagði mönnum fyrirætlan sína: "Nú mun eg," segir hann, "leita á fund Eiríkssona við lið það, er mér vill fylgja. eg hefi nú spurt, að þeir bræður eru hér í Danmörku og halda sveitir stórar og eru á sumrum í hernaði, en sitja á vetrum hér í Danmörk. Vil eg nú gefa leyfi öllum mönnum að fara til Noregs, þeim er það vilja heldur en fylgja mér; sýnist mér það ráð, Egill, að þú snúir aftur til Noregs og leitir enn sem bráðast til Íslands út, þegar við skiljumst."
Síðan skiptust menn á skipunum; réðust þeir til Egils, er aftur vildu fara til Noregs, en hitt var meiri hluti liðs miklu, er fylgdi Arinbirni. Skildust þeir Arinbjörn og Egill með blíðu og vináttu; fór Arinbjörn á fund Eiríkssona og í sveit með Haraldi gráfeld, fóstursyni sínum, og var síðan með honum, meðan þeir lifðu báðir.
Egill fór norður í Víkina og hélt inn í Óslóarfjörð; var þar fyrir kaupskip hans, það er hann hafði látið flytja suður um vorið; þar var og varnaður hans og sveitungar, þeir er með skipinu höfðu farið.
Þorsteinn Þóruson kom á fund Egils og bauð honum með sér að vera um veturinn og þeim mönnum, er hann vildi með sér hafa; Egill þekktist það, lét upp setja skip sín og færa varnað til staðar. En lið það, er honum fylgdi, vistaðist þar sumt, en sumir fóru norður í land, þar er þeir áttu heimili. Egill fer til Þorsteins, og voru þar saman tíu eða tólf; var Egill þar um veturinn í góðum fagnaði.
0 notes
Photo
Velkomið að öllum er sama kúla gegn sky at night
#Ekkert fólk#tækni#texti#Vestur handrit#samskipti#úti#eðli#himinn#nótt#vísindi#Alþjóðlegar samskipti#Cloud - himinn#pláss#pláneta Jörð#reikistjarna - rúm#stjarna - rúm#stjörnufræði#kúla#heim - maður gert hlut#gervihnetti#braut
0 notes
Text
Egils Saga (chapters 51 to 60)
51. kafli
Ólafur rauði hét konungur á Skotlandi; hann var skoskur að föðurkyni, en danskur að móðurkyni og kominn af ætt Ragnars loðbrókar; hann var ríkur maður. Skotland var kallað þriðjungur ríkis við England.
Norðimbraland er kallað fimmtungur Englands, og er það norðast, næst Skotlandi fyrir austan; það höfðu haft að fornu Danakonungar; Jórvík er þar höfuðstaður. Það ríki átti Aðalsteinn og hafði sett yfir jarla tvo, hét annar Álfgeir, en annar Goðrekur, þeir sátu þar til landvarnar, bæði fyrir ágangi Skota og Dana eða Norðmanna, er mjög herjuðu á landið og þóttust eiga tilkall mikið þar til lands, því að á Norðimbralandi voru þeir einir menn, ef nokkuð var til, að danska ætt áttu að faðerni eða móðerni, en margir hvorirtveggju.
Fyrir Bretlandi réðu bræður tveir, Hringur og Aðils, og voru skattgildir undir Aðalstein konung, og fylgdi það, þá er þeir voru í her með konungi, að þeir og þeirra lið skyldi vera í brjósti í fylking fyrir merkjum konungs; voru þeir bræður hinir mestu hermenn og eigi allungir menn.
Elfráður hinn ríki hafði tekið alla skattkonunga af nafni og veldi; hétu þeir þá jarlar, er áður voru konungar eða konungasynir; hélst það allt um hans ævi og Játvarðar, sonar hans, en Aðalsteinn kom ungur til ríkis, og þótti af honum minni ógn standa; gerðust þá margir ótryggir, þeir er áður voru þjónustufullir.
52. kafli
Ólafur Skotakonungur dró saman her mikinn og fór síðan suður á England, en er hann kom á Norðimbraland, fór hann allt herskildi; en er það spurðu jarlarnir, er þar réðu fyrir, stefna þeir saman liði og fara móti konungi. En er þeir finnast, varð þar orusta mikil, og lauk svo, að Ólafur konungur hafði sigur, en Goðrekur jarl féll, en Álfgeir flýði undan og mestur hluti liðs þess, er þeim hafði fylgt og brott komst úr bardaga. Fékk Álfgeir þá enga viðstöðu; lagði Ólafur konungur þá allt Norðimbraland undir sig. Álfgeir fór á fund Aðalsteins konungs og sagði honum ófarar sínar.
En þegar er Aðalsteinn konungur spurði, að her svo mikill var kominn í land hans, þá gerði hann þegar menn frá sér og stefndi að sér liði, gerði orð jörlum sínum og öðrum ríkismönnum; sneri konungur þegar á leið með það lið, er hann fékk, og fór í mót Skotum.
En er það spurðist, að Ólafur Skotakonungur hafði fengið sigur og hafði lagt undir sig mikinn hluta af Englandi, hafði hann þá her miklu meira en Aðalsteinn, en þá sótti til hans margt ríkismanna. En er þetta spyrja þeir Hringur og Aðils -- höfðu þeir saman dregið lið mikið -- þá snúast þeir í lið með Ólafi konungi, höfðu þeir þá ógrynni liðs.
En er Aðalsteinn spurði þetta allt, þá átti hann stefnu við höfðingja sína og ráðamenn, leitaði þá eftir, hvað tiltækilegast væri, sagði þá allri alþýðu greinilega það, er hann hafði frétt um athöfn Skotakonungs og fjölmenni hans. Allir mæltu þar eitt um, að Álfgeir jarl hafði hinn versta hlut af, og þótti það til liggja að taka af honum tignina; en sú ráðagerð staðfestist, að Aðalsteinn konungur skyldi fara aftur og fara á sunnanvert England og hafa þá fyrir sér liðsafnað norður eftir landi öllu, því að þeir sáu ellegar myndi seint safnast fjölmennið, svo mikið sem þyrfti, ef eigi drægi konungur sjálfur að liðið.
En sá her, er þá var þar saman kominn, þá setti konungur þar yfir höfðingja Þórólf og Egil; skyldu þeir ráða fyrir því liði, er víkingar höfðu þangað haft til konungs, en Álfgeir sjálfur hafði þá enn forráð síns liðs; þá fékk konungur enn sveitarhöfðingja þá, er honum sýndist. En er Egill kom heim af stefnunni til félaga sinna, þá spurðu þeir, hvað hann kynni að segja þeim tíðinda frá Skotakonungi. Hann kvað:
Áleifr of kom jöfri, ótt, víg, á bak flótta, þingharðan frák þengil þann, en felldi annan; glapstígu lét gnóga Goðrekr á mó troðna; jörð spenr Engla skerðir Alfgeirs und sik halfa.
Síðan gera þeir sendimann til Ólafs konungs og finna það til erinda, að Aðalsteinn konungur vill hasla honum völl og bjóða orustustað í Vínheiði við Vínuskóga, og hann vill, að þeir herji eigi á land hans, en sá þeirra ráði ríki á Englandi, er sigur fær í orustu, lagði til viku stef um fund þeirra, en sá bíður annars viku, er fyrr kemur. En það var þá siður, þegar konungi var völlur haslaður, að hann skyldi eigi herja að skammlausu, fyrr en orustu væri lokið; gerði Ólafur konungur svo, að hann stöðvaði her sinn og herjaði ekki og beið til stefnudags; þá flutti hann her sinn til Vínheiðar.
Borg ein stóð fyrir norðan heiðina; settist Ólafur konungur þar í borgina og hafði þar mestan hlut liðs síns, því að þar var út í frá héruð stór, og þótti honum þar betra til aðflutninga um föng þau, er herinn þurfti að hafa. En hann sendi menn sína upp á heiðina, þar sem orustustaðurinn var ákveðinn; skyldu þeir taka þar tjaldstaði og búast þar um, áður herinn kæmi. En er þeir menn komu í þann stað, er völlurinn var haslaður, þá voru þar settar upp heslistengur allt til ummerkja, þar er sá staður var, er orustan skyldi vera. Þurfti þann stað að vanda, að hann væri sléttur, er miklum her skyldi fylkja; var þar og svo, er orustustaðurinn skyldi vera, að þar var heiður slétt, en annan veg frá féll á ein, en á annan veg frá var skógur mikill.
En þar er skemmst var milli skógarins og árinnar, og var það mjög löng leið, þar höfðu tjaldað menn Aðalsteins konungs; stóðu tjöld þeirra allt milli skógarins og árinnar. Þeir höfðu svo tjaldað, að eigi voru menn í hinu þriðja hverju tjaldi og þó fáir í einu.
En er menn Ólafs konungs komu til þeirra, þá höfðu þeir fjölmennt fyrir framan tjöldin öll, og náðu þeir ekki inn að ganga. Sögðu menn Aðalsteins, að tjöld þeirra væru öll full af mönnum, svo að hvergi nær hefði þar rúm lið þeirra. En tjöldin stóðu svo hátt, að ekki mátti yfir upp sjá, hvort þau stóðu mörg eða fá á þykktina; þeir hugðu, að þar myndi vera her manns.
Ólafs konungs menn tjölduðu fyrir norðan höslurnar, og var þangað allt nokkuð afhallt. Aðalsteins menn sögðu og annan dag frá öðrum, að konungur þeirra myndi þá koma eða vera kominn í borg þá, er var sunnan undir heiðinni; lið dróst til þeirra bæði dag og nótt.
En er stefna sú var liðin, er ákveðið var, þá senda menn Aðalsteins erindreka á fund Ólafs konungs með þeim orðum, að Aðalsteinn konungur er búinn til orustu og hefir her allmikinn, en hann sendir Ólafi konungi þau orð, að hann vill eigi, að þeir geri svo mikið mannspell, sem þá horfðist til, bað hann heldur fara heim í Skotland, en Aðalsteinn vill fá honum að vingjöf skilling silfurs af plógi hverjum um allt ríki sitt og vill, að þeir leggi með sér vináttu.
En er sendimenn koma til Ólafs konungs, þá tók hann að búa her sinn og ætlaði að að ríða; en er sendimenn báru upp erindi, þá stöðvaði konungur ferð sína þann dag; sat þá í ráðagerð og höfðingjar hers með honum. Lögðu menn þar allmisjafnt til; sumir fýstu mjög, að þenna kost skyldi taka, sögðu, að það var þá orðin hin mesta fremdarferð, að þeir færu heim og hefðu tekið gjald svo mikið af Aðalsteini; sumir löttu og sögðu, að Aðalsteinn myndi bjóða miklu meira í annað sinn, ef þetta væri eigi tekið, og var sú ráðagerð staðfest.
Þá báðu sendimenn Ólaf konung að gefa sér tóm til, að þeir hittu enn Aðalstein konung og freistuðu, ef hann vildi enn meira gjald af hendi reiða, til þess að friður væri; þeir beiddu griða einn dag til heimreiðar, en annan til umráða, en hinn þriðja til afturferðar. Konungur játtaði þeim því. Fara sendimenn heim og koma aftur hinn þriðja dag, sem ákveðið var, segja Ólafi konungi, að Aðalsteinn vill gefa allt slíkt, sem hann bauð fyrr, og þar um fram til hlutskiptis liði Ólafs konungs skilling manni hverjum frjálsbornum, en mörk sveitarhöfðingja hverjum þeim, er réði tólf mönnum eða fleirum, en mörk gulls hirðstjóra hverjum, en fimm merkur gulls jarli hverjum.
Síðan lét konungur þetta upp bera fyrir lið sitt. Var enn sem fyrr, að sumir löttu, en sumir fýstu, en að lyktum veitti konungur úrskurð, segir, að þenna kost vill hann taka, ef það fylgir, að Aðalsteinn konungur lætur hann hafa Norðimbraland allt með þeim sköttum og skyldum, er þar liggja.
Sendimenn biðja enn fresta um þrjá daga og þess með, að Ólafur konungur sendi þá menn sína að heyra orð Aðalsteins konungs, hvort hann vill eða eigi þenna kost, segja, að þeir hyggja, að Aðalsteinn konungur myndi láta fátt við nema, að sættin tækist. Ólafur konungur játtir því og sendir menn sína til Aðalsteins konungs; ríða þá sendimenn allir saman og hitta Aðalstein konung í borg þeirri, er var næst heiðinni fyrir sunnan.
Sendimenn Ólafs konungs bera upp erindi sín fyrir Aðalstein konung og sættaboð. Aðalsteins konungs menn s��gðu og, með hverjum boðum þeir höfðu farið til Ólafs konungs, og það með, að það var ráðagerð vitra manna að dvelja svo orustu, meðan konungur kæmi eigi.
En Aðalsteinn konungur veitti skjótan úrskurð um þetta mál og sagði sendimönnum svo: "Berið þau orð mín Ólafi konungi, að eg vil gefa honum orlof til þess að fara heim til Skotlands með lið sitt, og gjaldi hann aftur fé það allt, er hann tók upp að röngu hér á landi; setjum hér síðan frið í millum landa vorra og herji hvorugir á aðra; það skal og fylgja, að Ólafur konungur skal gerast minn maður og halda Skotland af mér og vera undirkonungur minn. Farið nú," segir hann, "aftur og segið honum svo búið."
Sendimenn sneru aftur leið sína þegar um kveldið og komu til Ólafs konungs nær miðri nótt; vöktu þá upp konung og sögðu honum þegar orð Aðalsteins konungs; konungur lét þegar kalla til sín jarlana og aðra höfðingja, lét þá sendimenn koma til og segja upp erindislok sín og orð Aðalsteins konungs. En er þetta var kunnugt gert fyrir liðsmönnum, þá var eitt orðtak allra, að það myndi fyrir liggja að búast til orustu, sendimenn sögðu og það með, að Aðalsteinn hafði fjölda liðs, og hann hafði þann dag komið til borgarinnar, sem sendimenn komu.
Þá mælti Aðils jarl: "Nú mun það fram komið, konungur, sem eg sagði, að yður myndu þeir reynast brögðóttir, hinir ensku; höfum vér hér setið langa stund og beðið þess, er þeir hafa dregið að sér allt lið sitt, en konungur þeirra mun verið hafa hvergi nær, þá er vér komum hér; munu þeir nú hafa safnað liði miklu, síðan vér settumst. Nú er það ráð mitt, konungur, að við bræður ríðum þegar í nótt fyrir með okkru liði; má það vera, að þeir óttist nú ekki að sér, er þeir hafa spurt, að konungur þeirra er nær með her mikinn; skulum við þá veita þeim áhlaup, en er þeir verða forflótta, þá munu þeir láta lið sitt, en ódjarfari síðan í atgöngu að móti oss."
Konungi þótti þetta ráð vel fundið. "Munum vér búa her vorn, þegar er lýsir, og fara til móts við yður."
Staðfestu þeir þetta ráð og luku svo stefnunni.
53. kafli
Hringur jarl og Aðils, bróðir hans, bjuggu her sinn og fóru þegar um nóttina suður á heiðina. En er ljóst var, þá sáu varðmenn þeirra Þórólfs, hvar herinn fór; var þá blásinn herblástur, og herklæddust menn, tóku síðan að fylkja liðinu og höfðu tvær fylkingar. Réð Álfgeir jarl fyrir annarri fylking, og var merki borið fyrir honum; var í þeirri fylking lið það, er honum hafði fylgt, og svo það lið, er þar hafði til safnast úr héruðum; var það miklu fleira lið en það, er þeim Þórólfi fylgdi.
Þórólfur var svo búinn, að hann hafði skjöld víðan og þykkvan,hjálm á höfði allsterkan, gyrður sverði því, er hann kallaði Lang, mikið vopn og gott; kesju hafði hann í hendi; fjöðrin var tveggja álna löng og sleginn fram broddur ferstrendur, en upp var fjöðrin breið, falurinn bæði langur og digur, skaftið var eigi hærra en taka mátti hendi til fals og furðulega digurt; járnteinn var í falnum og skaftið allt járnvafið; þau spjót voru kölluð brynþvarar.
Egill hafði hinn sama búnað sem Þórólfur, hann var gyrður sverði því, er hann kallaði Naður; það sverð hafði hann fengið á Kúrlandi; var það hið besta vopn; hvorgi þeirra hafði brynju.
Þeir settu merki upp, og bar það Þorfinnur strangi; allt lið þeirra hafði norræna skjöldu og allan norrænan herbúnað; í þeirri fylking voru allir norrænir menn, þeir er þar voru; fylktu þeir Þórólfur nær skóginum, en Álfgeirs fylking fór með ánni.
Aðils jarl og þeir bræður sáu það, að þeir myndu ekki koma þeim Þórólfi á óvart; þá tóku þeir að fylkja sínu liði; gerðu þeir og tvær fylkingar og höfðu tvö merki; fylkti Aðils móti Álfgeiri jarli, en Hringur móti víkingum. Síðan tókst þar orusta; gengu hvorirtveggju vel fram.
Aðils jarl sótti hart fram, þar til er Álfgeir lét undan sígast; en Aðils menn sóttu þá hálfu djarflegar; var þá og eigi lengi, áður en Álfgeir flýði, og er það frá honum að segja, að hann reið undan suður á heiðina og sveit manna með honum; reið hann, þar til er hann kom nær borg þeirri, er konungur sat.
Þá mælti jarlinn: "Ekki ætla eg oss fara til borgarinnar; vér fengum mikið orðaskak, næst er vér komum til konungs, þá er vér höfðum farið ósigur fyrir Ólafi konungi, og ekki mun honum þykja batnað hafa vor kostur í þessi ferð; mun nú ekki þurfa að ætla til sæmda, þar sem hann er."
Síðan reið hann suður á landið, og er frá hans ferð það að segja, að hann reið dag og nótt, þar til er þeir komu vestur á Jarlsnes; fékk jarl sér þar far suður um sæ og kom fram á Vallandi; þar átti hann kyn hálft; kom hann aldregi síðan til Englands.
Aðils rak fyrst flóttann og eigi langt, áður hann snýr aftur og þar til, er orustan var, og veitti þá atgöngu.
En er Þórólfur sá það, sneri hann í mót jarli og bað þangað bera merkið, bað menn sína fylgjast vel og standa þykkt -- "þokum að skóginum," sagði hann, "og látum hann hlífa á bak oss, svo að þeir megi eigi öllum megin að oss ganga."
Þeir gerðu svo, fylgdu fram skóginum; varð þá hörð orusta; sótti Egill móti Aðísli og áttust þeir við hörð skipti; liðsmunur var allmikill, og þó féll meir lið þeirra Aðils.
Þórólfur gerðist þá svo óður, að hann kastaði skildinum á bak sér, en tók spjótið tveim höndum; hljóp hann þá fram og hjó eða lagði til beggja handa; stukku menn þá frá tveggja vegna, en hann drap marga. Ruddi hann svo stíginn fram að merki jarlsins Hrings, og hélst þá ekki við honum; hann drap þann mann, er bar merki Hrings jarls, og hjó niður merkistöngina. Síðan lagði hann spjótinu fyrir brjóst jarlinum, í gegnum brynjuna og búkinn, svo að út gekk um herðarnar, og hóf hann upp á kesjunni yfir höfuð sér og skaut niður spjótshalanum í jörðina, en jarlinn sæfðist á spjótinu, og sáu það allir, bæði hans menn og svo hans óvinir. Síðan brá Þórólfur sverðinu, og hjó hann þá til beggja handa; sóttu þá og að hans menn. Féllu þá mjög Bretar og Skotar, en sumir snerust á flótta.
En er Aðils jarl sá fall bróður síns og mannfall mikið af liði hans, en sumir flýðu, en hann þóttist hart niður koma, þá sneri hann á flótta og rann til skógarins; hann flýði í skóginn og hans sveit; tók þá að flýja allt lið það, er þeim hafði fylgt. Gerðist þá mannfall mikið af flóttamönnum, og dreifðist þá flóttinn víða um heiðina. Aðils jarl hafði niður drepið merki sínu, og vissi þá engi, hvort hann fór eða aðrir menn. Tók þá brátt að myrkva af nótt, en þeir Þórólfur og Egill sneru aftur til herbúða sinna, og þá jafnskjótt kom þar Aðalsteinn konungur með allan her sinn og slógu þá landtjöldum sínum og bjuggust um.
Litlu síðar kom Ólafur konungur með sinn her; tjölduðu þeir og bjuggust um, þar sem þeirra menn höf��u tjaldað; var Ólafi konungi þá sagt, að fallnir voru þeir báðir jarlar hans, Hringur og Aðils, og mikill fjöldi annarra manna hans.
54. kafli
Aðalsteinn konungur hafði verið áður hina næstu nótt í borg þeirri, er fyrr var frá sagt, og þar spurði hann, að bardagi hafði verið á heiðinni, bjóst þá þegar og allur herinn og sótti norður á heiðina; spurði þá öll tíðindi glögglega, hvernig orusta sú hafði farið. Komu þá til fundar við konung þeir bræður, Þórólfur og Egill; þakkaði hann þeim vel framgöngu sína og sigur þann, er þeir höfðu unnið, hét þeim vináttu sinni fullkominni; dvöldust þeir þar allir samt um nóttina.
Aðalsteinn konungur vakti upp her sinn þegar um morguninn árdegis; hann átti tal við höfðingja sína og sagði, hver skipun vera skyldi fyrir liði hans; skipaði hann fylking sína fyrst, og þá setti hann í brjósti þeirrar fylkingar sveitir þær, er snarpastar voru. Þá mælti hann, að fyrir því liði skyldi vera Egill, -- "en Þórólfur," sagði hann, "skal vera með liði sínu og öðru því liði, er eg set þar; skal sú vera önnur fylking í liði voru, er hann skal vera höfðingi fyrir, því að Skotar eru jafnan lausir í fylkingu, hlaupa þeir til og frá og koma í ýmsum stöðum fram; verða þeir oft skeinusamir, ef menn varast eigi, en eru lausir á velli, ef við þeim er horft."
Egill svaraði konungi: "Ekki vil eg, að við Þórólfur skiljumst í orustu, en vel þykir mér, að okkur sé þar skipað, er mest þykir þurfa og harðast er fyrir."
Þórólfur mælti: "Látum við konung ráða, hvar hann vill okkur skipa; veitum honum svo, að honum líki; mun eg vera heldur, ef þú vilt, þar er þér er skipað."
Egill segir: "Þér munuð nú ráða, en þessa skiptis mun eg oft iðrast."
Gengu menn þá í fylkingar, svo sem konungur hafði skipað, og voru sett upp merki; stóð konungs fylking á víðlendið til árinnar, en Þórólfs fylking fór hið efra með skóginum.
Ólafur konungur tók þá að fylkja liði sínu, þá er hann sá, að Aðalsteinn hafði fylkt; hann gerði og tvær fylkingar, og lét hann fara sitt merki og þá fylking, er hann réð sjálfur fyrir, móti Aðalsteini konungi og hans fylking. Höfðu þá hvorirtveggju her svo mikinn, að engi var munur, hvorir fjölmennri voru, en önnur fylking Ólafs konungs fór nær skóginum móti liði því, er Þórólfur réð fyrir; voru þar höfðingjar jarlar skoskir; voru það Skotar flest, og var það fjölmenni mikið.
Síðan gangast á fylkingar, og varð þar brátt orusta mikil; Þórólfur sótti fram hart og lét bera merki sitt fram með skóginum og ætlaði þar svo fram að ganga, að hann kæmi í opna skjöldu konungsfylkingunni; höfðu þeir skjölduna fyrir sér, en skógurinn var til hægra vegs; létu þeir hann þar hlífa. Þórólfur gekk svo fram, að fáir voru menn hans fyrir honum, en þá er hann varði minnst, þá hlaupa þar úr skóginum Aðils jarl og sveit sú, er honum fylgdi; brugðu þegar mörgum kesjum senn á Þórólfi, og féll hann þar við skóginn, en Þorfinnur, er merkið bar, hopaði aftur, þar er liðið stóð þykkra, en Aðils sótti þá að þeim, og var þar þá orusta mikil. Æptu Skotar þá siguróp, er þeir höfðu fellt höfðingjann.
En er Egill heyrði óp það og sá, að merki Þórólfs fór á hæl, þá þóttist hann vita, að Þórólfur myndi eigi sjálfur fylgja. Síðan hleypur hann til þangað fram í milli fylkinganna; hann varð skjótt var þeirra tíðinda, er þar voru orðin, þegar hann fann sína menn; hann eggjar þá liðið mjög til framgöngu; var hann fremstur í brjóstinu; hann hafði sverðið Naður í hendi. Hann sótti þá fram og hjó til beggja handa og felldi marga menn; Þorfinnur bar merkið þegar eftir honum, en annað lið fylgdi merkinu; var þar hin snarpasta orusta. Egill gekk fram, til þess er hann mætti Aðilsi jarli; áttust þeir fá högg við, áður Aðils jarl féll og margt manna um hann, en eftir fall hans, þá flýði lið það, er honum hafði fylgt, en Egill og hans lið fylgdu þeim og drápu allt það, er þeir náðu, því að ekki þurfti þá griða að biðja. En jarlar þeir hinir skosku stóðu þá ekki lengi, þegar er þeir sáu, að aðrir flýðu þeirra félagar; tóku þegar á rás undan.
En þeir Egill stefndu þá þar til, er var konungs fylkingin, og komu þá í opna skjöldu og gerðu þar brátt mikið mannfall. Riðlaðist þá fylkingin og losnaði öll; flýðu þá margir af Ólafs mönnum, en víkingar æptu þá siguróp. En er Aðalsteinn konungur þóttist finna, að rofna tók fylking Ólafs konungs, þá eggjaði hann lið sitt og lét fram bera merki; gerði þá atgöngu harða, svo að hrökk fyrir lið Ólafs og gerðist allmikið mannfall. Féll þar Ólafur konungur og mestur hluti liðs þess, er Ólafur hafði haft, því að þeir, er á flótta snerust, voru allir drepnir, er náð varð; fékk Aðalsteinn konungur þar allmikinn sigur.
55. kafli
Aðalsteinn konungur sneri í brott frá orustunni, en menn hans ráku flóttann; hann reið aftur til borgarinnar og tók eigi fyrr náttstað en í borginni, en Egill rak flóttann og fylgdi þeim lengi og drap hvern mann, er hann náði. Síðan sneri hann aftur með sveitunga sína og fór þar til, er orustan hafði verið, og hitti þar Þórólf, bróður sinn, látinn; hann tók upp lík hans og þó, bjó um síðan, sem siðvenja var til. Grófu þeir þar gröf og settu Þórólf þar í með vopnum sínum öllum og klæðum; síðan spennti Egill gullhring á hvora hönd honum, áður hann skildist við, hlóðu síðan að grjóti og jósu að moldu. Þá kvað Egill vísu:
Gekk, sás óðisk ekki,jarlmanns bani snarla,þreklundaðr fell, Þundar,Þórólfr í gný stórum;jörð grær, en vér verðum,Vínu nær of mínum,helnauð es þat, hyljaharm, ágætum barma.
Og enn kvað hann:
Valköstum hlóðk vestanvang fyr merkistangir,ótt vas él þats sóttakAðgils bláum Naðri;háði ungr við EnglaÁleifr þrimu stála;helt, né hrafnar sultu,Hringr á vápna þingi.
Síðan fór Egill með sveit sína á fund Aðalsteins konungs og gekk þegar fyrir konung, er hann sat við drykkju; þar var glaumur mikill; og er konungur sá, að Egill var inn kominn, þá mælti hann, að rýma skyldi pallinn þann hinn óæðra fyrir þeim, og mælti, að Egill skyldi sitja þar í öndvegi gegnt konungi.
Egill settist þar niður og skaut skildinum fyrir fætur sér; hann hafði hjálm á höfði og lagði sverðið um kné sér og dró annað skeið til hálfs, en þá skellti hann aftur í slíðrin; hann sat uppréttur og var gneyptur mjög. Egill var mikilleitur, ennibreiður, brúnamikill, nefið ekki langt, en ákaflega digurt, granstæðið vítt og langt, hakan breið furðulega og svo allt um kjálkana, hálsdigur og herðimikill, svo að það bar frá því, sem aðrir menn voru, harðleitur og grimmlegur, þá er hann var reiður; hann var vel í vexti og hverjum manni hærri, úlfgrátt hárið og þykkt og varð snemma sköllóttur; en er hann sat, sem fyrr var ritað, þá hleypti hann annarri brúninni ofan á kinnina, en annarri upp í hárrætur; Egill var svarteygur og skolbrúnn. Ekki vildi hann drekka, þó að honum væri borið, en ýmsum hleypti hann brúnunum ofan eða upp.
Aðalsteinn konungur sat í hásæti; hann lagði og sverð um kné sér, og er þeir sátu svo um hríð, þá dró konungur sverðið úr slíðrum og tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan, og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu og gekk á gólfið; hann stakk sverðinu í bug hringinum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns; konungur settist í hásæti. En er Egill settist niður, dró hann hringinn á hönd sér, og þá fóru brýn hans í lag; lagði hann þá niður sverðið og hjálminn og tók við dýrshorni, er honum var borið, og drakk af. Þá kvað hann:
Hrammtangar lætr hangahrynvirgil mér brynjuHöðr á hauki troðnumheiðis vingameiði;rítmæðis knák reiða,ræðr gunnvala bræðir,gelgju seil á galgageirveðrs, lofi at meira.
Þaðan af drakk Egill að sínum hlut og mælti við aðra menn.
Eftir það lét konungur bera inn kistur tvær; báru tveir menn hvora; voru báðar fullar af silfri.
Konungur mælti: "Kistur þessar, Egill, skaltu hafa, og ef þú kemur til Íslands, skaltu færa þetta fé föður þínum; í sonargjöld sendi eg honum; en sumu fé skaltu skipta með frændum ykkrum Þórólfs, þeim er þér þykja ágætastir. En þú skalt taka hér bróðurgjöld hjá mér, lönd eða lausa aura, hvort er þú vilt heldur, og ef þú vilt með mér dveljast lengdar, þá skal eg hér fá þér sæmd og virðing, þá er þú kannt mér sjálfur til segja."
Egill tók við fénu og þakkaði konungi gjafir og vinmæli; tók Egill þaðan af að gleðjast, og þá kvað hann:
Knáttu hvarms af harmihnúpgnípur mér drúpa,nú fann ek þanns ennisósléttur þær rétti;gramr hefr gerðihömrumgrundar upp of hrundit,sá's til ýgr, af augum,armsíma, mér grímu.
Síðan voru græddir þeir menn, er sárir voru og lífs auðið.
Egill dvaldist með Aðalsteini konungi hinn næsta vetur eftir fall Þórólfs, og hafði hann allmiklar virðingar af konungi; var þá með honum lið það allt, er áður hafði fylgt þeim báðum bræðrum og úr orustu höfðu komist. Þá orti Egill drápu um Aðalstein konung, og er í því kvæði þetta:
Nú hefr foldgnárr fellda,fellr jörð und nið Ellu,hjaldrsnerrandi, harrahöfuðbaðmr, þría jöfra;Aðalsteinn of vann annat,allt's lægra kynfrægjum,hér sverjum þess, hyrjarhrannbrjótr, konungmanni.
En þetta er stefið í drápunni:
Nú liggr hæst und hraustumhreinbraut Aðalsteini.
Aðalsteinn gaf þá enn Agli að bragarlaunum gullhringa tvo, og stóð hvor mörk, og þar fylgdi skikkja dýr, er konungur sjálfur hafði áður borið.
En er voraði, lýsti Egill yfir því fyrir konungi, að hann ætlaði í brott um sumarið og til Noregs og vita, hvað títt er um hag Ásgerðar -- "konu þeirrar, er átt hefir Þórólfur, bróðir minn; þar standa saman fé mikil, en eg veit eigi, hvort börn þeirra lifa nokkur; á eg þar fyrir að sjá, ef þau lifa, en eg á arf allan, ef Þórólfur hefir barnlaus andast."
Konungur sagði: "Það mun vera, Egill, á þínu forráði að fara héðan á brott, ef þú þykist eiga skyldarerindi, en hinn veg þykir mér best, að þú takir hér staðfestu með mér og slíka kosti, sem þú vilt beiðast."
Egill þakkaði konungi orð sín; "eg mun nú fara fyrst, svo sem mér ber skylda til, en það er líkara, að eg vitji hingað þessa heita, þá er eg kemst við."
Konungur bað hann svo gera. Síðan bjóst Egill brott með liði sínu, en margt dvaldist eftir með konungi; Egill hafði eitt langskip mikið og þar á hundrað manna eða vel svo. Og er hann var búinn ferðar sinnar og byr gaf, þá hélt hann til hafs; skildust þeir Aðalsteinn konungur með mikilli vináttu; bað hann Egil koma aftur sem skjótast; Egill kvað svo vera skyldu.
Síðan hélt Egill til Noregs, og er hann kom við land, fór hann sem skyndilegast inn í Fjörðu; hann spurði þau tíðindi, að andaður var Þórir hersir, en Arinbjörn hafði tekið við arfi og gerst lendur maður. Egill fór á fund Arinbjarnar og fékk þar góðar viðtökur; bauð Arinbjörn honum þar að vera. Egill þekktist það; lét hann setja upp skipið og vista lið; en Arinbjörn tók við Agli við tólfta mann og var með honum um veturinn.
56. kafli
Berg-Önundur sonur Þorgeirs þyrnifótar, hafði þá fengið Gunnhildar, dóttur Bjarnar hölds; var hún komin til bús með honum á Aski; en Ásgerður, er átt hafði Þórólfur Skalla-Grímsson, var þá með Arinbirni frænda sínum; þau Þórólfur áttu dóttur eina unga, er Þórdís hét, og var mærin þar með móður sinni. Egill sagði Ásgerði lát Þórólfs og bauð henni sína umsjá; Ásgerður varð mjög ókát við þá sögu, en svaraði vel ræðum Egils og tók lítið af öllu.
Og er á leið haustið, tók Egill ógleði mikla, sat oft og drap höfðinu niður í feld sinn.
Eitt hvert sinn gekk Arinbjörn til hans og spurði, hvað ógleði hans ylli -- "nú þó að þú hafir fengið skaða mikinn um bróður þinn, þá er það karlmannlegt að bera það vel; skal maður eftir mann lifa, eða hvað kveður þú nú? Láttu mig nú heyra."
Egill sagði, að hann hefði þetta fyrir skemmstu kveðið:
Ókynni vensk, ennisungr þorðak vel forðum,haukaklifs, at hefja,Hlín, þvergnípur mínar;verðk í feld, þás foldarfaldr kömr í hug skaldiberg-Óneris, brúnabrátt miðstalli hváta.
Arinbjörn spurði, hver kona sú væri, er hann orti mansöng um, -- "hefir þú fólgið nafn hennar í vísu þessi."
Þá kvað Egill:
Sef-Skuldar felk sjaldan,sorg Hlés vita borgar,í niðjerfi Narfanafn aurmýils, drafnar,þvít geir-Rótu götvagnýþings bragar fingrumrógs at ræsis veigumreifendr sumir þreifa.
"Hér mun vera," segir Egill, "sem oft er mælt, að segjanda er allt sínum vin; eg mun segja þér það, er þú spyrð, um hverja konu eg yrki; þar er Ásgerður, frændkona þín, og þar til vildi eg hafa fullting þitt, að eg næði því ráði."
Arinbjörn segir, að honum þyki það vel fundið -- "skal eg víst leggja þar orð til, að þau ráð takist."
Síðan bar Egill það mál fyrir Ásgerði, en hún skaut til ráða föður síns og Arinbjarnar, frænda síns; síðan ræðir Arinbjörn við Ásgerði, og hafði hún hin sömu svör fyrir sér; Arinbjörn fýsti þessa ráðs. Síðan fara þeir Arinbjörn og Egill á fund Bjarnar; og hefur Egill þá bónorð og bað Ásgerðar, dóttur Bjarnar; Björn tók því máli vel og sagði, að Arinbjörn myndi því mjög ráða; Arinbjörn fýsti mjög, og lauk því máli svo, að Egill festi Ásgerði, og skyldi brullaup vera að Arinbjarnar. En er að þeirri stefnu kemur, þá var þar veisla allvegleg, er Egill kvongaðist. Var hann þá allkátur, það er eftir var vetrarins.
Egill bjó um vorið kaupskip til Íslandsferðar; réð Arinbjörn honum það að staðfestast ekki í Noregi, meðan ríki Gunnhildar væri svo mikið -- "því að hún er allþung til þín," segir Arinbjörn, "og hefir þetta mikið um spillt, er þér Eyvindur fundust við Jótland."
Og er Egill var búinn og byr gaf, þá siglir hann í haf, og greiddist hans ferð vel; kemur hann um haustið til Íslands og hélt til Borgarfjarðar; hann hafði þá verið utan tólf vetur. Gerðist þá Skalla-Grímur maður gamall; varð hann þá feginn, er Egill kom heim; fór Egill til Borgar að vistum og með honum Þorfinnur strangi og þeir mjög margir saman; voru þeir með Skalla-Grími um veturinn. Egill hafði þar ógrynni fjár, en ekki er þess getið, að Egill skipti silfri því, er Aðalsteinn konungur hafði fengið honum í hendur, hvorki við Skalla-Grím né aðra menn.
Þann vetur fékk Þorfinnur Sæunnar, dóttur Skalla-Gríms, og eftir um vorið fékk Skalla-Grímur þeim bústað að Langárfossi og land inn frá Leirulæk milli Langár og Álftár allt til fjalls. Dóttir Þorfinns og Sæunnar var Þórdís, er átti Arngeir í Hólmi, sonur Bersa goðlauss; þeirra sonur var Björn Hítdælakappi.
Egill dvaldist þá með Skalla-Grími nokkura vetur; tók hann til fjárforráða og búsumsýslu engu miður Skalla-Grími. Egill gerðist enn snoðinn.
Þá tók héraðið að byggjast víða; Hrómundur, bróðir Gríms hins háleyska, byggði þá í Þverárhlíð og skipverjar hans; Hrómundur var faðir Gunnlaugs, föður Þuríðar dyllu, móður Illuga svarta.
57. kafli
Egill hafði þá verið, svo að vetrum skipti mjög mörgum, að Borg; þá var það á einu sumri, er skip komu af Noregi til Íslands, að þau tíðindi spurðust austan, að Björn höldur var andaður. Það fylgdi þeirri sögn, að fé það allt, er Björn hafði átt, hafði upp tekið Berg-Önundur, mágur hans; hann hafði flutt heim til sín alla lausa aura, en jarðir hafði hann byggt og skilið sér allar landskyldir; hann hafði og sinni eigu kastað á jarðir þær allar, er Björn hafði átt.
Og er Egill heyrði þetta, þá spurði hann vandlega, hvort Berg-Önundur myndi sínum ráðum fram hafa farið um þetta eða hefði hann traust til haft sér meiri manna; honum var sagt, að Önundur var kominn í vináttu mikla við Eirík konung og við Gunnhildi þó miklu kærra.
Egill lét það kyrrt vera á því hausti, en er veturinn leið af og vora tók, þá lét Egill setja fram skip, það er hann átti, er staðið hafði í hrófi við Langárfoss; hann bjó skip það til hafs og fékk menn til. Ásgerður, kona hans, var ráðin til farar, en Þórdís, dóttir Þórólfs, var eftir. Egill sigldi í haf, er hann var búinn; er frá hans ferð ekki að segja, fyrr en hann kemur til Noregs; hélt hann þegar til fundar við Arinbjörn, sem fyrst mátti hann. Arinbjörn tók vel við honum og bauð Agli með sér að vera, og það þekktist hann; fóru þau Ásgerður bæði þangað og nokkurir menn með þeim.
Egill kom brátt á ræður við Arinbjörn um fjárheimtur þær, er Egill þóttist eiga þar í landi.
Arinbjörn segir: "Það mál þykir mér óvænlegt; Berg-Önundur er harður og ódæll, ranglátur og fégjarn, en hann hefir nú hald mikið af konungi og drottningu; er Gunnhildur hinn mesti óvinur þinn, sem þú veist áður, og mun hún ekki fýsa Önund, að hann geri greiða á málinu."
Egill segir: "Konungur mun oss láta ná lögum og réttindum á máli þessu, en með liðveislu þinni þá vex mér ekki í augu að leita laga við Berg-Önund."
Ráða þeir það af, að Egill skipar skútu; fóru þeir þar á nær tuttugu; þeir fóru suður á Hörðaland og koma fram á Aski; ganga þeir þar til húss og hitta Önund.
Ber þá Egill upp mál sín og krefur Önund skiptis um arf Bjarnar og segir, að dætur Bjarnar væru jafnkomnar til arfs eftir hann að lögum -- "þó að mér þyki," kvað Egill, "sem Ásgerður muni þykja ættborin miklu betur en Gunnhildur, kona þín."
Önundur segir þá snellt mjög: "Þú ert furðulega djarfur maður, Egill, útlagi Eiríks konungs, er þú ferð hingað í land hans og ætlar hér til ágangs við menn hans. Máttu svo ætla, Egill, að eg hefi velta látið slíka sem þú ert og af minnum sökum en mér þykja þessar, er þú telur til arfs fyrir hönd konu þinnar, því að það er kunnugt alþýðu, að hún er þýborin að móðerni." Önundur var málóði um hríð.
Og er Egill sá, að Önundur vildi engan hlut greiða um þetta mál, þá stefnir Egill honum þing og skýtur málinu til Gulaþingslaga.
Önundur segir: "Koma mun eg til Gulaþings, og myndi eg vilja, að þú kæmir þaðan eigi heill í brott."
Egill segir, að hann mun til þess hætta að koma þó til þings allt að einu -- "verður þá sem má, hversu málum vorum lýkur."
Fara þeir Egill síðan í brott, og er hann kom heim, segir hann Arinbirni frá ferð sinni og frá svörum Önundar; Arinbjörn varð reiður mjög, er Þóra, föðursystir hans, var kölluð ambátt.
Arinbjörn fór á fund Eiríks konungs, bar upp fyrir hann þetta mál.
Konungur tók heldur þungt hans máli og segir, að Arinbjörn hefði lengi fylgt mjög málum Egils -- "hefir hann notið þín að því, er eg hefi látið hann vera hér í landi, en nú mun mér örðugt þykja, ef þú heldur hann til þess, að hann gangi á vini mína."
Arinbjörn segir: "Þú munt láta oss ná lögum af þessu máli."
Konungur var heldur styggur í þessu máli; Arinbjörn fann, að drottning myndi þó miklu verr viljuð; fer Arinbjörn aftur og sagði, að heldur horfir óvænt.
Líður af veturinn og kemur þar, er menn fara til Gulaþings; Arinbjörn fjölmennti mjög til þings; var Egill í för með honum. Eiríkur konungur var þar og hafði fjölmenni mikið; Berg-Önundur var í sveit konungs og þeir bræður, og höfðu þeir sveit mikla. En er þinga skyldi um mál manna, þá gengu hvorirtveggju þar til, er dómurinn var settur, að flytja fram sannindi sín; var Önundur þá allstórorður.
En þar er dómurinn var settur, var völlur sléttur og settar niður heslistengur í völlinn í hring, en lögð um utan snæri umhverfis; voru það kölluð vébönd. En fyrir innan í hringinum sátu dómendur, tólf úr Firðafylki og tólf úr Sygnafylki, tólf úr Hörðafylki; þær þrennar tylftir manna skyldu þar dæma um mál manna. Arinbjörn réð því, hverjir dómendur voru úr Firðafylki, en Þórður af Aurlandi, hverjir úr Sogni voru; voru þeir allir eins liðs.
Arinbjörn hafði haft fjölmenni mikið til þingsins; hann hafði snekkju alskipaða, en hafði margt smáskipa, skútur og róðrarferjur, er búendur stýrðu. Eiríkur konungur hafði þar mikið lið, langskip sex eða sjö; þar var og fjölmenni mikið af búöndum.
Egill hóf þar mál sitt, að hann krafði dómendur að dæma sér lög af máli þeirra Önundar. Innti hann þá upp, hver sannindi hann hafði í tilkalli fjár þess, er átt hafði Björn Brynjólfsson. Sagði hann, að Ásgerður, dóttir Bjarnar, en eiginkona Egils, var til komin arfsins, og hún væri óðalborin og lendborin í allar kynkvíslir, en tiginborin fram í ættir, krafði hann þess dómendur að dæma Ásgerði til handa hálfan arf Bjarnar, lönd og lausa aura.
En er hann hætti ræðu sinni, þá tók Berg-Önundur til máls: "Gunnhildur, kona mín," sagði hann, "er dóttir Bjarnar og Ólafar, þeirrar konu, er Björn hafði lögfengið; er Gunnhildur réttur erfingi Bjarnar. Tók eg fyrir þá sök upp fé það allt, er Björn hafði átt, að eg vissi, að sú ein var dóttir Bjarnar önnur, er ekki átti arf að taka; var móðir hennar hernumin, en síðan tekin frillutaki og ekki að frændaráði og flutt land af landi. En þú, Egill, ætlar að fara hér sem hvarvetna annars staðar, þess er þú hefir komið, með ofkapp þitt og ójafnað; nú mun þér það hér ekki týja, því að Eiríkur konungur og Gunnhildur drottning hafa mér því heitið, að eg skal rétt hafa af hverju máli, þar er þeirra ríki stendur yfir. eg mun færa fram sönn vitni fyrir konungi og dómöndum, að Þóra hlaðhönd, móðir Ásgerðar, var hertekin heiman frá Þóris, bróður síns, og annað sinni af Aurlandi frá Brynjólfs. Fór hún þá af landi á braut með víkingum og útlögum konungs, og í þeirri útlegð gátu þau Björn dóttur þessa, Ásgerði. Nú er furða að um Egil, er hann ætlar að gera ómæt öll orð Eiríks konungs, það fyrst, er þú, Egill, hefir verið hér í landi, síðan er Eiríkur konungur gerði þig útlægan, og það, þótt þú hafir fengið ambáttar, að kalla hana arfgenga. Vil eg þess krefja dómendur, að þeir dæmi mér allan arf Bjarnar, en dæmi Ásgerði ambátt konungs, því að hún var svo getin, að þá var faðir hennar og móðir í útlegð konungs."
Þá tók Arinbjörn til máls: "Vitni munum vér fram bera, Eiríkur konungur, til þess og láta eiða fylgja, að það var skilið í sætt þeirra Þóris, föður míns, og Bjarnar hölds, að Ásgerður, dóttir þeirra Bjarnar og Þóru, var til arfs leidd eftir Björn, föður sinn, og svo það, sem yður er sjálfum kunnugt, konungur, að þú gerðir Björn ílendan, og öllu því máli var þá lukt, er áður hafði milli staðið sættar manna."
Konungur svarar ekki skjótt máli hans.
Þá kvað Egill:
Þýborna kveðr þornaþorn reið áar horna,sýslir hann of sínasíngirnð Önundr, mína;naddhristir, ák nestanorn til arfs of borna;þigg, Auða konr, eiða,eiðsært es þat, greiða.
Arinbjörn lét þá fram bera vitnisburðinn tólf menn, og allir vel til valdir, og höfðu allir þeir heyrt á sætt þeirra Þóris og Bjarnar og buðu þá konungi og dómöndum að sverja þar eftir. Dómendur vildu taka eiða þeirra, ef konungur bannaði eigi; konungur sagði, að hann myndi þar hvorki að vinna að leggja á það lof eða bann.
Þá tók til máls Gunnhildur drottning, sagði svo: "Þetta er undarlegt, konungur, hvernig þú lætur Egil þenna hinn mikla vefja mál öll fyrir þér; eða hvort myndir þú eigi móti honum mæla, þótt hann kallaði til konungdómsins í hendur þér? En þótt þú viljir enga úrskurði veita, þá er Önundi sé lið að, þá skal eg það eigi þola, að Egill troði svo undir fótum vini mína, að hann taki með rangindi sín fé þetta af Önundi; en hvar ertu, Askmaður? Far þú til með sveit þína, þar sem dómendurnir eru, og lát eigi dæma rangindi þessi."
Síðan hljóp Askmaður og þeir sveitungar til dómsins, skáru í sundur véböndin og brutu niður stengurnar, en hleyptu á braut dómöndunum; þá gerðist þys mikill á þinginu, en menn voru þar allir vopnlausir.
Þá mælti Egill: "Hvort mun Berg-Önundur heyra orð mín?"
"Heyri eg," sagði hann.
"Þá vil eg bjóða þér hólmgöngu og það, að við berjumst hér á þinginu; hafi sá fé þetta, lönd og lausa aura, er sigur fær, en þú ver hvers manns níðingur, ef þú þorir eigi."
Þá svarar Eiríkur konungur: "Ef þú, Egill, ert allfús til að berjast, þá skulum vér það nú veita þér."
Egill svarar: "Ekki vil eg berjast við þig eða við ofurefli liðs, en fyrir jafnmiklum mönnum, þá mun eg eigi flýja, ef mér skal þess unna; mun eg og að því gera engan mannamun."
Þá mælti Arinbjörn: "Förum vér á brott, ekki munum vér hér iðna að sinni, það að okkur vinni." Síðan sneri hann á braut og allt lið hans með honum.
Þá sneri Egill aftur og sagði: "Því skírskota eg undir þig, Arinbjörn, og þig, Þórður, og alla þá menn, er nú mega orð mín heyra, lenda menn og lögmenn og alla alþýðu, að eg banna jarðir þær allar, er Björn hefir átt, að byggja og að vinna. Banna eg þér, Berg-Önundur, og öðrum mönnum öllum, innlenskum og útlenskum, tignum og ótignum, en hverjum manni, er það gerir, legg eg við lögbrot landsréttar og griðarof og goðagremi."
Þá gekk Egill á brott með Arinbirni; fóru þeir nú til skipa sinna yfir leiti nokkuð, er eigi sá skipin af þinginu.
En er Arinbjörn kom til skips síns, mælti hann: "Það er öllum mönnum kunnugt, hver hér hafa orðið þinglok, að vér höfum eigi náð lögum, en konungur er reiður svo mjög, að mér er von, að vorir menn sæti afarkostum af honum, ef hann má; vil eg nú, að hver maður fari til skipa sinna og fari heim."
Þá mælti hann við Egil: "Gakk þú nú á skip þitt og þitt föruneyti og verðið í brottu og verjið yður, fyrir því að konungur mun eftir leita, að fund yðvarn beri saman; leitið þá á fund vorn, hvað sem í kann að gerast með yður konungi."
Egill gerði sem hann mælti; gengu þeir á skútu þrír tigir manna og fóru sem ákafast. Skipið var einkar skjótt. Þá reru fjöldi annarra skipa úr höfninni, er Arinbjörn átti, skútur og róðrarferjur, en langskip, er Arinbjörn átti, fór síðast, því að það var þyngst undir árum; en skúta Egils gekk skjótt hjá fram. Þá kvað Egill vísu:
Erfingi réð arfiarfljúgr fyr mér svarfa,mætik hans ok heitumhótun, Þyrnifótar,nærgis simla sorgarslík rán ek get hánum,vér deildum fjöl foldarfoldværingja, goldin.
Eiríkur konungur heyrði ályktarorð Egils, þau er hann mælti síðast á þinginu, og varð hann reiður mjög; en allir menn höfðu vopnlausir gengið á þinginu, veitti konungur því eigi atgöngu. Hann bað menn sína alla ganga til skipa, og þeir gerðu sem hann mælti.
Þá skaut konungur á húsþingi og sagði þá fyrirætlan sína: "Vér skulum nú láta fara tjöld af skipum vorum; vil eg nú fara á fund Arinbjarnar og Egils; vil eg og því lýsa fyrir yður, að eg vil Egil af lífi taka, ef vér komumst í færi, en hlífa engum þeim, er í móti vill standa."
Eftir það gengu þeir út á skip og bjuggust sem skjótast og lögðu út skipunum og reru þangað, sem skip Arinbjarnar höfðu verið; þá lét konungur róa eftir norður í sundin. En er þeir komu í Sognsæ, sáu þeir lið Arinbjarnar; sneru þá langskipin inn til Sauðungssunds, og sneri þá konungur þangað. Hann hitti þar skip Arinbjarnar, og lagði konungur þegar að, og köstuðust orðum á; spyr konungur, hvort Egill væri þar á skipinu.
Arinbjörn svaraði: "Eigi er hann á mínu skipi; munuð þér og, konungur, brátt mega það sjá; eru þeir einir hér innan borðs, er þér munuð kenna, en Egill mun ekki felast undir þiljum niðri, þótt fund yðvarn beri saman."
Konungur spyr, hvað Arinbjörn vissi síðast til hans, en hann sagði, að Egill var við þrítugunda mann á skútu, -- "og fóru þeir leið sína út til Steinssunds."
Þeir konungur höfðu séð, að mörg skip höfðu róið til Steinssunds. Mælti konungur, að þeir skyldu róa í hin innri sundin og stefna svo móti þeim Agli.
Maður er nefndur Ketill; hann var hirðmaður Eiríks konungs; hann sagði leið fyrir konungs skipinu, en hann stýrði sjálfur; Ketill var mikill maður vexti og fríður sýnum og náfrændi konungs, og var það mál manna, að þeir konungur væru líkir yfirlits.
Egill hafði flota látið skipi sínu og fluttan til farminn, áður hann fór til þingsins, en nú fer Egill þar til, er kaupskip var, og gengu þeir á skipið upp, en skútan flaut við stýristengur milli lands og skipsins, og lágu þar árar í hömlu.
En um morguninn, er ljóst var orðið varla, verða þeir varir við, er vörð héldu, að skip stór reru að þeim; en er Egill vissi það, þá stóð hann upp þegar; sá hann brátt, að ��friður var að kominn; voru þar sex langskip og stefndu að þeim. Þá mælti Egill, að þeir skyldu hlaupa allir í skútuna. Egill tók upp kistur tvær, er Aðalsteinn konungur gaf honum; hann hafði þær jafnan með sér; þeir hljópu í skútuna. Hann vopnaðist skjótt og allir þeir, og reru fram í milli landsins og snekkju þeirrar, er næst fór landinu, en það var skip Eiríks konungs.
En því að bráðum bar að, að lítt var lýst, þá renndust skipin hjá, og er lyftingar bar saman, þá skaut Egill spjóti, og kom á þann mann miðjan, er við stýrið sat, en þar var Ketill höður. Þá kallar Eiríkur konungur og bað menn róa eftir þeim Agli; en er skipin renndu hjá kaupskipinu, þá hljópu menn konungs upp á skipið, en þeir menn, er eftir höfðu orðið af Egils mönnum og eigi hljópu í skútuna, þá voru allir drepnir, þeir er náð varð, en sumir hljópu á land; þar létust tíu menn af sveitungum Egils. Sum skipin reru eftir þeim Agli, en sum rændu kaupskipið; var þar tekið fé það allt, er innan borðs var, en þeir brenndu skipið.
En þeir, er eftir þeim Agli reru, sóttu ákaft, tóku tveir eina ár; skortir þar eigi lið innan borðs, en þeir Egill höfðu þunnskipað; voru þeir þá átján á skútunni. Þá dró saman með þeim; en fyrir innan eyna var vaðilsund nokkuð grunnt milli og annarrar eyjar; útfall var sjávarins; þeir Egill hleyptu skútunni í það hið grunna sundið, en snekkjurnar flutu þar eigi, og skildi þar með þeim; sneri þá konungur suður aftur, en Egill fór norður á fund Arinbjarnar. Þá kvað Egill vísu:
Nú hefr þrym-Rögnir þegnaþróttharðr, en mik varðakvíti, várrar sveitarvígelds tíu fellda,þvít sárlagar Sýrar,sendr ór minni hendi,digr fló beint meðal bjúgrabifþorn Ketils rifja.
Egill kom á fund Arinbjarnar og segir honum þessi tíðindi.
Arinbjörn segir, að honum var ekki vildara af von um skipti þeirra Eiríks konungs -- "en ekki mun þig fé skorta, Egill; eg skal bæta þér skipið og fá þér annað, það er þú megir vel fara á til Íslands."
Ásgerður, kona Egils, hafði verið með Arinbirni, síðan þeir fóru til þings.
Arinbjörn fékk Agli skip það, er vel var haffæranda, og lét ferma af viði; býr Egill skip það til hafs og hafði þá enn nær þremur tigum manna; skiljast þeir Arinbjörn þá með vináttu. Þá kvað Egill:
Svá skyldi goð gjalda,gram reki bönd af löndum,reið sé rögn ok Óðinn,rán míns féar hánum;folkmýgi lát flýja,Freyr ok Njörðr, af jörðum,leiðisk lofða stríðilandáss, þanns vé grandar.
58. kafli
Haraldur hinn hárfagri setti sonu sína til ríkis í Noregi, þá er hann tók að eldast, gerði Eirík konung yfirkonung sona sinna allra, og er Haraldur hafði verið sjö tigu vetra konungur, þá seldi hann í hendur Eiríki, syni sínum, ríki. Í þann tíma ól Gunnhildur son, og jós Haraldur konungur vatni og gaf nafn sitt og lét það fylgja, að hann skyldi konungur vera eftir föður sinn, ef honum entist aldur til. Haraldur konungur settist þá í kyrrsetu og sat oftast á Rogalandi eða Hörðalandi; en þremur vetrum síðar andaðist Haraldur konungur á Rogalandi, og var ger haugur eftir hann við Haugasund.
En eftir andlát hans var deila mikil milli sona hans, því að Víkverjar tóku sér til konungs Ólaf, en Þrændir Sigurð; en Eiríkur felldi þá báða bræður sína í Túnsbergi einum vetri eftir andlát Haralds konungs. Var það allt á einu sumri, er Eiríkur konungur fór af Hörðalandi með her sinn austur í Vík til bardaga við bræður sína og áður höfðu þeir deilt á Gulaþingi Egill og Berg-Önundur og þessi tíðindi, er nú var sagt.
Berg-Önundur var heima að búi sínu, þá er konungur fór í leiðangur, því að honum þótti óvarlegt að fara frá búi sínu, meðan Egill var eigi úr landi farinn; þar var bróðir hans, Haddur, þá með honum.
Fróði hét maður, frændi Eiríks konungs og fóstursonur hans; hann var hinn fríðasti maður, ungur að aldri og þó vaxinn maður; Eiríkur konungur setti hann eftir til trausts Berg-Önundi; sat Fróði á Álreksstöðum að búi konungs og hafði þar sveit manna.
Rögnvaldur er nefndur sonur Eiríks konungs og Gunnhildar; hann var þá vetra tíu eða ellefu og var hið fríðasta mannsefni; hann var þá með Fróða, er þetta var tíðinda.
En áður Eiríkur konungur reri þenna leiðangur, þá gerði hann Egil útlaga fyrir endilangan Noreg og dræpan hverjum manni. Arinbjörn var með konungi í leiðangri, en áður hann fór heiman, þá lagði Egill skipi sínu til hafs og hélt í útver það, er Vitar heita, út frá Alda; það er komið af þjóðleið; þar voru fiskimenn, og var þar gott að spyrja tíðindi; þá spurði hann, að konungur hafði gert hann útlaga. Þá kvað Egill vísu:
Lögbrigðir hefr lagða,landalfr, fyr mér sjölfum,blekkir bræðra sökkvabrúðfang, vega langa;Gunnhildi ák gjalda,greypt's hennar skap, þenna,ungr gatk ok læ launat,landrekstr, bili grandat.
Veður voru vindlítil, fjallvindur um nætur, en hafgola um daga. Eitt kveld sigldu þeir Egill út á haf, en fiskimenn reru þá inn til lands, þeir er til njósnar höfðu settir verið um farar þeirra Egils. Kunnu þeir það að segja, að Egill hafði út látið og á haf siglt og hann var á brottu; létu þessa njósn koma til Berg-Önundar.
Og er hann vissi þessi tíðindi, hann sendi þá frá sér menn þá er hann hafði áður haft þar til varúðar. Reri hann þá inn til Álreksstaða og bauð Fróða til sín, því að Berg-Önundur átti öl mikið heima að sín; Fróði fór með honum og hafði með sér nokkura menn; tóku þeir þar veislu góða og höfðu gleði mikla; var þar þá allt óttalaust.
Rögnvaldur konungsson átti karfa einn, reru sex menn á borð; hann var steindur allur fyrir ofan sjó; hann hafði með sér menn tíu eða tólf, þá er honum fylgdu einart. Og er Fróði var heiman farinn, þá tók Rögnvaldur karfann, og reru þeir út til Herðlu tólf saman; þar var konungsbú mikið, og réð sá maður fyrir, er hét Skegg-Þórir; þar hafði Rögnvaldur verið á fóstri í barnæsku. Tók Þórir feginsamlega við konungssyni; skorti þar og eigi drykk mikinn.
Egill sigldi út á haf um nóttina, sem fyrr var ritað, og er morgnaði, féll veðrið og gerði logn; lögðu þeir þá í rétt og létu reiða fyrir nokkurar nætur; en er hafgola kom á, sagði Egill skipurum sínum:
"Nú munum vér sigla að landi, því að ógerla veit, ef hafviðri kemur á hvasst, hvar vér náum þá landi, en heldur ófriðvænt fyrir í flestum stöðum."
Hásetar báðu Egil fyrir ráða þeirra ferð; síðan tóku þeir til seglin og sigldu inn til Herðluvers; fengu þeir þar góða höfn og tjölduðu yfir skipi sínu og lágu þá um nóttina. Þeir höfðu á skipinu lítinn bát, og gekk Egill þar á við þriðja mann; reri hann þá inn um nóttina til Herðlu, sendi þar mann í eyna upp að spyrja tíðinda; og er sá kom ofan til skips, sagði hann, að þar á bænum var Rögnvaldur konungsson og hans menn - "sátu þeir þá við drykkju; hitti eg einn af húskörlum, en var sá ölóður og sagði, að hér skyldi eigi minna drekka en að Berg-Önundar, þótt Fróði væri þar á veislu og þeir fimm saman."
Ekki kvað hann þar fleira manna en heimamenn nema Fróða og hans menn.
Síðan reri Egill aftur til skips og bað menn upp standa og taka vopn sín; þeir gerðu svo; þeir lögðu út skipið um akkeri. Egill lét gæta tólf menn skips, en hann fór á eftirbátinn og þeir átján saman, reru síðan inn eftir sundum; þeir stilltu svo til, að þeir komu um kveldið inn í Fenhring og lögðu þar til leynivogs eins.
Þá mælti Egill: "Nú vil eg ganga einn upp í eyna og njósna, hvers eg verði vís, en þér skuluð bíða mín hér."
Egill hafði vopn sín, þau er hann var vanur að hafa, hjálm og skjöld, gyrður sverði, höggspjót í hendi; síðan gekk hann upp í eyna og fram með skógi nokkurum; hann hafði dregið hött síðan yfir hjálm. Hann kom þar að, er sveinar nokkurir voru og hjá þeim hjarðtíkur stórar, og er þeir tókust að orðum, spurði hann, hvaðan þeir væru, eða fyrir hví þeir væru þar og hefðu hunda svo stóra.
Þeir mæltu: "Þú munt vera allheimskur maður; hefir þú eigi heyrt, að hér gengur björn um eyna, hinn mesti spellvirki, drepur hér bæði menn og fénað, og er lagt fé til höfuðs honum; vökum við hér hverja nótt á Aski yfir fé voru, er byrgt er í grindum - eða hví ferðu með vopnum um nætur?"
Hann segir: "Hræðist eg björninn, og fáir þykir mér sem nú fari vopnlausir; hefir björninn lengi elt mig í nótt, eða sjáið hann nú, þar er hann nú í skógarnefinu. Hvort eru allir menn í svefni á bænum?"
Sveinninn sagði, að þeir Berg-Önundur og Fróði myndu enn drekka; "þeir sitja nætur allar."
"Segið þeim þá," segir hann Egill, "hvar björninn er, en eg verð að skynda heim."
Hann gekk þá brott, en sveinninn hljóp heim til bæjarins og til stofunnar, er þeir drukku í; var þá svo komið, að allir menn voru sofa farnir nema þeir þrír, Önundur og Fróði og Haddur. Sveinninn segir, hvar björninn var; þeir tóku vopn sín, er þar héngu hjá þeim, og hljópu þegar út og upp til skógar; þar gengu fram skógarnef af mörkinni og runnar í sumum stöðum. Sveinninn segir þeim, hvar björninn hafði verið í runninum. Þá sáu þeir, að limarnar hrærðust, þóttust þá skilja, að björninn myndi þar vera. Þá mælti Berg-Önundur, að þeir Haddur og Fróði skyldu fram renna milli og meginmerkurinnar og gæta, að björninn næði eigi skóginum.
Berg-Önundur rann fram af runninum; hann hafði hjálm og skjöld, gyrður sverði, en kesju í hendi. Egill var þar fyrir í runninum, en engi björn, og er hann sá, hvar Berg-Önundur var, þá brá hann sverðinu, en þar var hönk á meðalkaflanum, og dró hann hana á hönd sér og lét þar hanga. Hann tók í hönd sér kesjuna og rann þá fram í mót Berg-Önundi, og er Berg-Önundur sá það, þá gæddi hann rásina og skaut skildinum fyrir sig, og áður þeir mættust, þá skaut hvor kesju að öðrum. Egill laust skildinum við kesjunni og bar hallan, svo að reist úr skildinum og flaug í völlinn, en Egils spjót kom á miðjan skjöldinn og gekk í gegnum langt upp á fjöðrina, og varð fast spjótið í skildinum; varð Önundi þungbær skjöldurinn. Egill greip þá skjótt meðalkafla sverðsins; Önundur tók þá og að bregða sínu sverði, og er eigi var brugðið til hálfs, þá lagði Egill í gegnum hann með sínu sverði. Önundur rataði við lagið, e n Egill kippti að sér sverðinu hart og hjó til Önundar og af nær höfuðið; síðan tók Egill kesjuna úr skildinum.
Þeir Haddur og Fróði sáu fall Berg-Önundar og runnu þangað til; Egill snerist í móti þeim; hann skaut kesjunni að Fróða og í gegnum skjöld hans og í brjóstið, svo að yddi um bakið; féll hann þegar á bak aftur dauður; Egill tók þá sverðið og snerist í mót Haddi, og skiptust þeir fáum höggum við, áður Haddur féll.
Þá komu sveinarnir að, og mælti Egill við þá: "Gætið hér til Önundar, húsbónda yðvars, og þeirra félaga, að eigi slíti dýr eða fuglar hræ þeirra."
Egill gekk þá leið sína og eigi langt, áður félagar hans komu í mót honum ellefu, en sex gættu skips; þeir spurðu, hvað hann hefði sýslað. Hann kvað þá:
Sátum lyngs til lengiljósheims börvi þeima,meir varðak fé forðum,fjarðölna hlut skarðan,áðr Berg-Önund benjumbensæfðan létk venjask,Bors niðjar feltk beðjublóði, Hadd ok Fróða.
Þá mælti Egill: "Vér skulum nú snúa aftur til bæjarins og fara hermannlega, drepa menn þá alla, er vér náum, en taka fé allt, það er vér megum með komast."
Þeir fara til bæjarins og hlaupa þar inn í hús og drepa þar menn fimmtán eða sextán; sumir komust undan af hlaupi; þeir rændu þar öllu fé, en spilltu því, er þeir máttu eigi með fara. Þeir ráku búfé til strandar og hjuggu, báru á bátinn sem hann tók við; fóru síðan leið sína og reru út um eyjasund.
Egill var nú allreiður, svo að það mátti ekki við hann mæla; sat hann við stýri á bátinum.
Og er þeir sóttu út á fjörðinn til Herðlu, þá reru utan í móti þeim Rögnvaldur konungsson og þeir þrettán saman á karfanum þeim hinum steinda. Þeir höfðu þá spurt, að skip Egils lá í Herðluveri; ætluðu þeir að gera Önundi njósn um ferðir Egils; og er Egill sá skipið, þá kenndi hann þegar. Hann stýrði sem beinst á þá, og er skipin renndust að, þá kom barð skútunnar á kinnung karfans; hallaði honum svo, að sjór féll inn á annað borð og fyllti skipið. Egill hljóp þá upp á og greip kesjuna, hét á menn sína, að þeir skyldu engan láta með lífi á brott komast, þann er á karfanum var. Það var þá hægt, því að þar var þá engi vörn; voru allir þeir á kafi drepnir, en engi komst undan. Létust þeir þar þrettán, Rögnvaldur og förunautar hans; þeir Egill reru þá inn til eyjarinnar Herðlu. Þá kvað Egill vísu:
Börðumk vér, né virðak,vígleiptr sonar, heiptir,Blóðöxar rauðk blóði,böðmildr ok Gunnhildar;þar féllu nú þollarþrettán lagar mána,stendr af styrjar skyndistarf, á einum karfa.
Og er þeir Egill komu til Herðlu, þá runnu þeir þegar upp til bæjar með alvæpni; en er það sá Þórir og hans heimamenn, þá runnu þeir þegar af bænum og forðuðu sér allir, þeir er ganga máttu, karlar og konur. Þeir Egill rændu þar öllu fé, því er þeir máttu höndum á koma; fóru síðan út til skips; var þá og eigi langt að bíða, að byr rann á af landi; búast þeir til að sigla, og er þeir voru seglbúnir, gekk Egill upp í eyna.
Hann tók í hönd sér heslistöng og gekk á bergsnös nokkura, þá er vissi til lands inn; þá tók hann hrosshöfuð og setti upp á stöngina. Síðan veitti hann formála og mælti svo: "Hér set eg upp níðstöng, og sný eg þessu níði á hönd Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu" - hann sneri hrosshöfðinu inn á land - "sný eg þessu níði á landvættir þær, er land þetta byggja, svo að allar fari þær villar vega, engi hendi né hitti sitt inni, fyrr en þær reka Eirík konung og Gunnhildi úr landi."
Síðan skýtur hann stönginni niður í bjargrifu og lét þar standa; hann sneri og höfðinu inn á land, en hann reist rúnar á stönginni, og segja þær formála þenna allan.
Eftir það gekk Egill á skip; tóku þeir til segls og sigldu á haf út; tók þá byrinn að vaxa, og gerði veður hvasst og hagstætt; gekk þá skipið mikið. Þá kvað Egill:
Þél höggr stórt fyr stálistafnkvígs á veg jafnanút með éla meitliandærr jötunn vandar,en svalbúinn seljusverfr eirar vanr þeiriGestils ölpt með gustumgandr of stál fyr brandi.
Síðan sigldu þeir í haf, og greiddist vel ferð þeirra og komu af hafi í Borgarfjörð; hélt hann skipi sínu þar til hafnar og báru föt sín á land. Fór þá Egill heim til Borgar, en skiparar hans vistuðust. Skalla-Grímur gerðist þá gamall og hrumur af elli; tók Egill þá til fjárforráða og bús varðveislu.
59. kafli
Þorgeir hét maður; hann átti Þórdísi Yngvarsdóttur, systur Beru, móður Egils; Þorgeir bjó inn frá Álftanesi, á Lambastöðum; hann hafði komið út með Yngvari; hann var auðugur og virtur vel af mönnum. Sonur þeirra Þorgeirs var Þórður, er bjó á Lambastöðum eftir föður sinn í þenna tíma, er Egill kom til Íslands.
Það var þá um haustið nokkuru fyrir vetur, að Þórður reið inn til Borgar að hitta Egil, frænda sinn, og bauð honum heim til veislu; hafði hann látið heita mungát út þar. Egill hét ferðinni, og var kveðið á vikustef nokkuð; og er svo var liðið, bjóst Egill til ferðar og með honum Ásgerður, kona hans; voru þau saman tíu eða tólf; og er Egill var búinn, þá gekk Skalla-Grímur út með honum og hvarf til hans, áður Egill steig á bak, og mælti; "Seint þykir mér þú, Egill, hafa greitt fé það, er Aðalsteinn konungur sendi mér, eða hvernig ætlar þú, að fara skyli fé það?"
Egill segir: "Er þér nú féfátt mjög, faðir? eg vissi það eigi. Þegar skal eg láta þig hafa silfur, er eg veit, er þú þarft, en eg veit, að þú munt enn hafa að varðveita eina kistu eða tvær, fullar af silfri."
"Svo þykir mér," segir Skalla-Grímur, "sem þú munir þykjast skipt hafa lausafé með okkur; muntu láta þér vel hugna, að eg geri slíkt, er mér líkar, af því, er eg varðveiti."
Egill segir: "Þú munt engis lofs þykjast þurfa að biðja mig um þetta, því að þú munt ráða vilja, hvað sem eg mæli."
Síðan reið Egill í brott, þar til er hann kom á Lambastaði; var þar tekið honum vel og feginsamlega; skyldi hann þar sitja þrjár nætur.
Það sama kveld, er Egill hafði heiman farið, lét Skalla-Grímur söðla sér hest; reið hann þá heiman, er aðrir menn fóru að sofa; hann reiddi í knjám sér kistu vel mikla, en hann hafði í handarkrika sér eirketil, er hann fór í brott. Hafa menn það síðan fyrir satt, að hann hafi látið fara annað hvort eða bæði í Krumskeldu og látið þar fara á ofan hellustein mikinn.
Skalla-Grímur kom heim um miðnættisskeið og gekk þá til rúms síns og lagðist niður í klæðum sínum; en um morguninn, er lýsti og menn klæddust, þá sat Skalla-Grímur fram á stokk og var þá andaður og svo stirður, að menn fengu hvergi rétt hann né hafið, og var alls við leitað.
Þá var hesti skotið undir einn mann; hleypti sá sem ákaflegast, til þess er hann kom á Lambastaði; gekk hann þegar á fund Egils og segir honum þessi tíðindi. Þá tók Egill vopn sín og klæði og reið heim til Borgar um kveldið, og þegar hann hafði af baki stigið, gekk hann inn og í skot, er var um eldahúsið, en dyr voru fram úr skotinu að setum innanverðum. Gekk Egill fram í setið og tók í herðar Skalla-Grími og kneikti hann aftur á bak, lagði hann niður í setið og veitti honum þá nábjargir; þá bað Egill taka graftól og brjóta vegginn fyrir sunnan. Og er það var gert, þá tók Egill undir höfðahlut Skalla-Grími, en aðrir tóku fótahlutinn; báru þeir hann um þvert húsið og svo út í gegnum vegginn, þar er áður var brotinn. Báru þeir hann þá í hríðinni ofan í Naustanes; var þar tjaldað yfir um nóttina; en um morguninn að flóði var lagður Skalla-Grímur í skip og róið með hann út til Digraness. Lét Egill þ ar gera haug á framanverðu nesinu; var þar í lagður Skalla-Grímur og hestur hans og vopn hans og smíðartól; ekki er þess getið, að lausafé væri lagt í haug hjá honum.
Egill tók þar við arfi, löndum og lausum aurum; réð hann þá fyrir búi; þar var með Agli Þórdís, dóttir Þórólfs og Ásgerðar.
60. kafli
Eiríkur konungur réð einn vetur fyrir Noregi eftir andlát föður síns, Haralds konungs, áður Hákon Aðalsteinsfóstri, annar sonur Haralds konungs, kom til Noregs vestan af Englandi, og það sama sumar fór Egill Skalla-Grímsson til Íslands. Hákon fór norður til Þrándheims; var hann þar til konungs tekinn; voru þeir Eiríkur um veturinn báðir konungar í Noregi. En eftir um vorið dró hvortveggi her saman; varð Hákon miklu fjölmennri; sá Eiríkur þá engan sinn kost annan en flýja land; fór hann þá á brott með Gunnhildi, konu sína, og börn þeirra.
Arinbjörn hersir var fóstbróðir Eiríks konungs og barnfóstri hans; hann var kærstur konungi af öllum lendum mönnum; hafði konungur sett hann höfðingja yfir allt Firðafylki. Arinbjörn fór úr landi með konungi; fóru fyrst vestur um haf til Orkneyja; þá gifti hann Ragnhildi, dóttur sína, Arnfinni jarli; síðan fór hann með liði sínu suður fyrir Skotland og herjaði þar; þaðan fór hann suður til Englands og herjaði þar.
Og er Aðalsteinn konungur spurði það, safnaði hann liði og fór í mót Eiríki; og er þeir hittust, voru borin sáttmál milli þeirra, og var það að sættum, að Aðalsteinn konungur fékk Eiríki til forráða Norðimbraland, en hann skyldi vera landvarnarmaður Aðalsteins konungs fyrir Skotum og Írum. Aðalsteinn konungur hafði skattgilt undir sig Skotland eftir fall Ólafs konungs, en þó var það fólk jafnan ótrútt honum. Eiríkur konungur hafði jafnan atsetu í Jórvík.
Svo er sagt, að Gunnhildur lét seið efla og lét það seiða, að Egill Skalla-Grímsson skyldi aldrei ró bíða á Íslandi, fyrr en hún sæi hann. En það sumar, er þeir Hákon og Eiríkur höfðu hitst og deilt um Noreg, þá var farbann til allra landa úr Noregi, og komu það sumar engi skip til Íslands og engi tíðindi úr Noregi.
Egill Skalla-Grímsson sat að búi sínu; en þann vetur annan, er hann bjó að Borg eftir andlát Skalla-Gríms, þá gerðist Egill ókátur, og var því meiri ógleði hans, er meir leið á veturinn. Og er sumar kom, þá lýsti Egill yfir því, að hann ætlar að búa skip sitt til brottfarar um sumarið; tók hann þá háseta; hann ætlar þá að sigla til Englands; þeir voru á skipi þrír tigir manna. Ásgerður var þá eftir og gætti bús þeirra, en Egill ætlaði þá að fara á fund Aðalsteins konungs og vitja heita þeirra, er hann hafði heitið Agli að skilnaði þeirra.
Egill varð ekki snemmbúinn, og er hann lét í haf, þá byrjaði heldur seint, tók að hausta og stærði veðrin; sigldu þeir fyrir norðan Orkneyjar; vildi Egill ekki þar við koma; því að hann hugði, að ríki Eiríks konungs myndi allt yfir standa í eyjunum. Sigldu þeir þá suður fyrir Skotland og höfðu storm mikinn og veður þvert; fengu þeir beitt fyrir Skotland og svo norðan fyrir England. En aftan dags, er myrkva tók, var veður hvasst; finna þeir eigi fyrr en grunnföll voru á útborða og svo fram fyrir. Var þá engi annar til en stefna á land upp, og svo gerðu þeir, sigldu þá til brots og komu að landi við Humru mynni; þar héldust menn allir og mestur hluti fjár, annað en skip; það brotnaði í spón.
Og er þeir hittu menn að máli, spurðu þeir þau tíðindi, er Agli þótti háskasamleg, að Eiríkur konungur blóðöx var þar fyrir og Gunnhildur og þau höfðu þar ríki til forráða og hann var skammt þaðan uppi í borginni Jórvík. Það spurði hann og, að Arinbjörn hersir var þar með konungi og í miklum kærleik við konunginn.
Og er Egill var vís orðinn þessa tíðinda, þá gerði hann ráð sitt; þótti honum sér óvænt til undankomu, þótt hann freistaði þess að leynast og fara huldu höfði leið svo langa, sem vera myndi, áður hann kæmi úr ríki Eiríks konungs; var hann þá auðkenndur þeim, er hann sæju. Þótti honum það lítilmannlegt að vera tekinn í flótta þeim; herti hann þá huginn og réð það af, að þegar um nóttina, er þeir höfðu þar komið, þá fær hann sér hest og ríður þegar til borgarinnar. Kom hann þar að kveldi dags, og reið hann þegar í borgina; hann hafði síðan hatt yfir hjálmi, og alvæpni hafði hann.
Egill spurði, hvar garður sá væri í borginni, er Arinbjörn átti; honum var það sagt; hann reið þangað í garðinn; en er hann kom að stofunni, steig hann af hesti sínum og hitti mann að máli; var honum þá sagt, að Arinbjörn sat yfir matborði.
Egill mælti: "Eg vildi, góður drengur, að þú gengir inn í stofuna, og spyr Arinbjörn, hvort hann vill heldur úti eða inni tala við Egil Skalla-Grímsson."
Sá maður segir: "Það er mér lítið starf að reka þetta erindi."
Hann gekk inn í stofuna og mælti stundar hátt: "Maður er hér kominn úti fyrir dyrum," segir hann, "mikill sem tröll; en sá bað mig ganga inn og spyrja, hvort þú vildir úti eða inni tala við Egil Skalla-Grímsson."
Arinbjörn segir: "Gakk og bið hann bíða úti, og mun hann eigi lengi þurfa."
Hann gerði sem Arinbjörn mælti, gekk út og sagði sem mælt var við hann.
Arinbjörn bað taka upp borðin. Síðan gekk hann út og allir húskarlar hans með honum; og er Arinbjörn hitti Egil, heilsaði hann honum og spurði, hví hann var þar kominn.
Egill segir í fám orðum hið ljósasta af um ferð sína; "en nú skaltu fyrir sjá, hvert ráð eg skal taka, ef þú vilt nokkurt lið veita mér."
"Hefir þú nokkura menn hitt í borginni," segir Arinbjörn, "þá er þig muni kennt hafa, áður þú komst hér í garðinn?"
"Engi," segir Egill.
"Taki menn þá vopn sín," segir Arinbjörn.
Þeir gerðu svo, og er þeir voru vopnaðir og allir húskarlar Arinbjarnar, þá gekk hann í konungsgarð; en er þeir komu til hallar, þá klappaði Arinbjörn á dyrum og bað upp láta og segir, hver þar var; dyrverðir létu þegar upp hurðina. Konungur sat yfir borðum.
Arinbjörn bað þá ganga inn tólf menn, nefndi til þess Egil og tíu menn aðra. "Nú skaltu, Egill, færa Eiríki konungi höfuð þitt og taka um fót honum, en eg mun túlka mál þitt."
Síðan ganga þeir inn; gekk Arinbjörn fyrir konung og kvaddi hann. Konungur fagnaði honum og spurði, hvað er hann vildi.
Arinbjörn mælti: "Eg fylgi hingað þeim manni, er kominn er um langan veg að sækja yður heim og sættast við yður; er yður það vegur mikill, herra, er óvinir yðrir fara sjálfviljandi af öðrum löndum og þykjast eigi mega bera reiði yðra, þó að þér séuð hvergi nær. Láttu þér nú verða höfðinglega við þenna mann; lát hann fá af þér sætt góða fyrir það, er hann hefir gert veg þinn svo mikinn, sem nú má sjá, farið yfir mörg höf og torleiði heiman frá búum sínum; bar honum enga nauðsyn til þessar farar nema góðvilji við yður."
Þá litaðist konungur um, og sá hann fyrir ofan höfuð mönnum, hvar Egill stóð, og hvessti augun á hann og mælti: "Hví varstu svo djarfur, Egill, að þú þorðir að fara á fund minn? Leystist þú svo héðan næstum, að þér var engi von lífs af mér."
Þá gekk Egill að borðinu og tók um fót konungi; hann kvað þá:
Kominn emk á jó Ívaangrbeittan veg langanöldu enskrar foldaratsitjanda at vitja;nú hefr sískelfir sjalfansnarþátt Haralds áttarviðr ofrhuga yfrinnundar bliks of fundinn.
Eiríkur konungur sagði: "Ekki þarf eg að telja upp sakar á hendur þér, en þó eru þær svo margar og stórar, að ein hver má vel endast til, að þú komir aldrei héðan lífs. Áttu engis annars af von en þú munt hér deyja skulu; máttir þú það vita áður, að þú myndir enga sætt af mér fá."
Gunnhildur mælti: "Hví skal eigi þegar drepa Egil, eða manstu eigi nú, konungur, hvað Egill hefir gert, drepið vini þína og frændur og þar á ofan son þinn, en nítt sjálfan þig; eða hvar vita menn slíku bellt við konungmann?"
Arinbjörn segir: "Ef Egill hefir mælt illa til konungs, þá má hann það bæta í lofsorðum þeim, er allan aldur megi uppi vera."
Gunnhildur mælti: "Vér viljum ekki lof hans heyra; láttu, konungur, leiða Egil út og höggva hann; vil eg eigi heyra orð hans og eigi sjá hann."
Þá mælti Arinbjörn: "Eigi mun konungur láta að eggjast um öll níðingsverk þín; eigi mun hann láta Egil drepa í nótt, því að náttvíg eru morðvíg."
Konungur segir: "Svo skal vera, Arinbjörn, sem þú biður, að Egill skal lifa í nótt; hafðu hann heim með þér og fær mér hann á morgun."
Arinbjörn þakkaði konungi orð sín. "Væntum vér, herra, að héðan af muni skipast mál Egils á betri leið; en þó að Egill hafi stórt til saka gert við yður, þá lítið þér á það, að hann hefir mikils misst fyrir yðrum frændum. Haraldur konungur, faðir þinn, tók af lífi ágætan mann, Þórólf, föðurbróður hans, af rógi vondra manna, en af engum sökum; en þér, konungur, brutuð lög á Agli fyrir sakar Berg-Önundar; en þar á ofan vilduð þér hafa Egil að dauðamanni og drápuð menn af honum, en rænduð hann fé öllu, og þar á ofan gerðuð þér hann útlaga og rákuð hann af landi, en Egill er engi ertingamaður. En hvert mál, er maður skal dæma, verður að líta á tilgerðir. eg mun nú," segir Arinbjörn, "hafa Egil með mér í nótt heim í garð minn."
Var nú svo; og er þeir komu í garðinn, þá ganga þeir tveir í loft nokkurt lítið og ræða um þetta mál. Segir Arinbjörn svo: "Allreiður var konungur nú, en heldur þótti mér mýkjast skaplyndi hans nokkuð, áður létti, og mun nú hamingja skipta, hvað upp kemur; veit eg, að Gunnhildur mun allan hug á leggja að spilla þínu máli. Nú vil eg það ráð gefa, að þú vakir í nótt og yrkir lofkvæði um Eirík konung; þætti mér þá vel, ef það yrði drápa tvítug og mættir þú kveða á morgun, er við komum fyrir konung. Svo gerði Bragi, frændi minn, þá er hann varð fyrir reiði Bjarnar Svíakonungs, að hann orti drápu tvítuga um hann eina nótt og þá þar fyrir höfuð sitt; nú mætti vera, að vér bærum gæfu til við konung, svo að þér kæmi það í frið við konung."
Egill segir: "Freista skal eg þessa ráðs, er þú vilt, en ekki hefi eg við því búist að yrkja lof um Eirík konung."
Arinbjörn bað hann freista; síðan gekk hann brott til manna sinna; sátu þeir að drykkju til miðrar nætur. Þá gekk Arinbjörn til svefnhúss og sveit hans, og áður hann afklæddist, gekk hann upp í loftið til Egils og spurði, hvað þá liði um kvæðið.
Egill segir að ekki var ort - "hefir hér setið svala ein við glugginn og klakað í alla nótt, svo að eg hefi aldregi beðið ró fyrir."
Síðan gekk Arinbjörn á brott og út um dyr þær, er ganga mátti upp á húsið, og settist við glugg þann á loftinu, er fuglinn hafði áður við setið; hann sá, hvar hamhleypa nokkur fór annan veg af húsinu. Arinbjörn sat þar við glugginn alla nóttina, til þess er lýsti; en síðan er Arinbjörn hafði þar komið, þá orti Egill alla drápuna og hafði fest svo, að hann mátti kveða um morguninn, þá er hann hitti Arinbjörn; þeir héldu vörð á, nær tími myndi vera að hitta konung.
0 notes
Text
Egils Saga (chapters 31 to 40)
31. kafli
Skalla-Grímur og þau Bera áttu börn mjög mörg, og var það fyrst, að öll önduðust; þá gátu þau son, og var vatni ausinn og hét Þórólfur. En er hann fæddist upp, þá var hann snemma mikill vexti og hinn vænsti sýnum; var það allra manna mál, að hann myndi vera hinn líkasti Þórólfi Kveld-Úlfssyni, er hann var eftir heitinn. Þórólfur var langt um fram jafnaldra sína að afli; en er hann óx upp, gerðist hann íþróttamaður um flesta þá hluti, er þá var mönnum títt að fremja, þeim er vel voru að sér gerðir. Þórólfur var gleðimaður mikill; snemma var hann svo fullkominn að afli, að hann þótti vel liðfær með öðrum mönnum; varð hann brátt vinsæll af alþýðu; unni honum og vel faðir og móðir.
Þau Skalla-Grímur áttu dætur tvær; hét önnur Sæunn, en önnur Þórunn; voru þær og efnilegar í uppvexti.
Enn áttu þau Skalla-Grímur son; var sá vatni ausinn og nafn gefið og kallaður Egill. En er hann óx upp, þá mátti brátt sjá á honum, að hann myndi verða mjög ljótur og líkur föður sínum, svartur á hár. En þá er hann var þrevetur, þá var hann mikill og sterkur, svo sem þeir sveinar aðrir, er voru sex vetra eða sjö; hann var brátt málugur og orðvís; heldur var hann illur viðureignar, er hann var í leikum með öðrum ungmennum.
Það vor fór Yngvar til Borgar, og var það að erindum, að hann bauð Skalla-Grími til boðs út þangað til sín og nefndi til þeirrar ferðar Beru, dóttur sína, og Þórólf, son hennar, og þá menn aðra, er þau Skalla-Grímur vildu að færu; Skalla- Grímur hét för sinni. Fór Yngvar þá heim og bjó til veislunnar og lét þá öl heita.
En er að þeirri stefnu kemur, er Skalla-Grímur skyldi til boðsins fara og þau Bera, þá bjóst Þórólfur til ferðar með þeim og húskarlar, svo að þau voru fimmtán saman.
Egill ræddi um við föður sinn, að hann vildi fara; "á eg þar slíkt kynni sem Þórólfur," segir hann.
"Ekki skaltu fara," segir Skalla-Grímur, "því að þú kannt ekki fyrir þér að vera í fjölmenni, þar er drykkjur eru miklar, er þú þykir ekki góður viðskiptis, að þú sért ódrukkinn."
Steig þá Skalla-Grímur á hest sinn og reið í brott, en Egill undi illa við sinn hlut. Hann gekk úr garði og hitti eykhest einn, er Skalla-Grímur átti, fór á bak og reið eftir þeim Skalla-Grími; honum varð ógreiðfært um mýrarnar, því að hann kunni enga leið, en hann sá þó mjög oft reið þeirra Skalla-Gríms, þá er eigi bar fyrir holt eða skóga. Er það að segja frá hans ferð, að síð um kveldið kom hann á Álftanes, þá er menn sátu þar að drykkju; gekk hann inn í stofu. En er Yngvar sá Egil, þá tók hann við honum feginsamlega og spurði, hví hann hefði svo síð komið. Egill sagði, hvað þeir Skalla-Grímur höfðu við mælst. Yngvar setti Egil hjá sér. Sátu þeir gagnvert þeim Skalla-Grími og Þórólfi.
Það var þar haft ölteiti, að menn kváðu vísur; þá kvað Egill vísu:
Kominn emk til arnaYngvars, þess's beð lyngva,hann vask fúss at finna,fránþvengjar gefr drengjum;mun eigi þú, þægir,þrévetran mér betra,ljósundinna landalinns, óðar smið finna.
Yngvar hélt upp vísu þeirri og þakkaði vel Agli vísuna; en um daginn eftir þá færði Yngvar Agli að skáldskapar launum kúfunga þrjá og andaregg. En um daginn eftir við drykkju kvað Egill vísu aðra um bragarlaun:
Síþögla gaf söglumsárgagls þría Aglihirðimeiðr við hróðrihagr brimrótar gagra,ok bekkþiðurs blakkaborðvallar gaf fjorðakennimeiðr, sás kunni,körbeð, Egil gleðja.
Vel lagði Egill í þökk skáldskap sinn við marga menn.
Ekki varð þá fleira til tíðinda í ferð þeirra. Fór Egill heim með Skalla-Grími.
32. kafli
Björn hét hersir ríkur í Sogni, er bjó á Aurlandi; hans son var Brynjólfur, er arf allan tók eftir föður sinn. Synir Brynjólfs voru þeir Björn og Þórður; þeir voru menn á ungum aldri, er þetta var tíðinda. Björn var farmaður mikill, var stundum í víking, en stundum í kaupferðum; Björn var hinn gervilegasti maður.
Það barst að á einu hverju sumri, að Björn var staddur í Fjörðum að veislu nokkurri fjölmennri; þar sá hann mey fagra, þá er honum fannst mikið um. Hann spurði eftir, hverrar ættar hún var; honum var það sagt, að hún var systir Þóris hersis Hróaldssonar og hét Þóra hlaðhönd. Björn hóf upp bónorð sitt og bað Þóru, en Þórir synjaði honum ráðsins, og skildust þeir að svo gerðu.
En það sama haust fékk Björn sér liðs og fór með skútu alskipaða norður í Fjörðu og kom til Þóris og svo, að hann var eigi heima. Björn nam Þóru á brott og hafði heim með sér á Aurland; voru þau þar um veturinn, og vildi Björn gera brúðlaup til hennar. Brynjólfi, föður hans, líkaði það illa, er Björn hafði gert, þótti svívirðing í því, þar sem áður hafði löng vinátta verið með Þóri og Brynjólfi.
"Því síður skaltu, Björn," segir Brynjólfur, "brúðlaup til Þóru gera hér með mér að óleyfi Þóris, bróður hennar, að hún skal hér svo vel sett, sem hún væri mín dóttir, en systir þín."
En svo varð að vera allt, sem Brynjólfur kvað á, þar í hans hýbýlum, hvort er Birni líkaði vel eða illa.
Brynjólfur sendi menn til Þóris að bjóða honum sætt og yfirbætur fyrir för þá, er Björn hafði farið. Þórir bað Brynjólf senda heim Þóru, sagði, að ekki myndi af sætt verða ella. En Björn vildi fyrir engan mun láta hana í brott fara, þó að Brynjólfur beiddi þess; leið svo af veturinn.
En er vora tók, þá ræddu þeir Brynjólfur og Björn einn dag um ráðagerðir sínar; spurði Brynjólfur, hvað hann ætlaðist fyrir.
Björn sagði það líkast, að hann myndi fara af landi á brott; "er mér það næst skapi," sagði hann, "að þú fáir mér langskip og þar lið með og fari eg í víking."
"Engi von er þess," sagði Brynjólfur, "að eg fái þér í hendur herskip og lið mikið, því að eg veit eigi, nema þá komir þú þar niður, er mér er öll óaufúsa á, og stendur þó nú áður ærin óró af þér. Kaupskip mun eg fá þér í hendur og þar með kaupeyri; farðu síðan suður til Dyflinnar; sú er nú ferð frægst. Mun eg fá þér föruneyti gott."
Björn segir svo, að hann myndi það verða upp að taka, sem Brynjólfur vildi; lét hann þá búa kaupskip gott og fékk menn til; bjóst Björn þá til þeirrar ferðar og varð ekki snemmbúinn.
En er Björn var albúinn og byr rann á, þá steig hann á bát með tólf menn og reri inn á Aurland, og gengu upp til bæjar og til dyngju þeirrar, er móðir hans átti; sat hún þar inni og konur mjög margar; þar var Þóra. Björn sagði, að Þóra skyldi með honum fara; leiddu þeir hana í brott, en móðir hans bað konurnar vera eigi svo djarfar, að þær gerðu vart við inn í skálann, sagði að Brynjólfur myndi illa í höndum hafa, ef hann vissi, og sagði, að þá væri búið við geig miklum með þeim feðgum. En klæðnaður Þóru og gripir voru þar allir lagðir til handargagns, og höfðu þeir Björn það allt með sér. Fóru þeir síðan um nóttina út til skips síns, drógu þegar segl sitt og sigldu út eftir Sognsæ og síðan í haf.
Þeim byrjaði illa og höfðu réttu stóra og velkti lengi í hafi, því að þeir voru öruggir í því að firrast Noreg sem mest. Það var einn dag, að þeir sigldu austan að Hjaltlandi hvasst veður og lestu skipið í landtöku við Mósey, báru þar af farminn og fóru í borg þá, er þar var, og báru þangað allan varning sinn og settu upp skipið og bættu, er brotið var.
33. kafli
Litlu fyrir vetur kom skip til Hjaltlands sunnan úr Orkneyjum; sögðu þeir þau tíðindi, að langskip hafði komið um haustið til eyjanna; voru það sendimenn Haralds konungs með þeim erindum til Sigurðar jarls, að konungur vildi drepa láta Björn Brynjólfsson, hvar sem hann yrði áhendur, og slíkar orðsendingar gerði hann til Suðureyja, allt til Dyflinnar. Björn spurði þessi tíðindi og það með, að hann var útlægur ger í Noregi. En þegar er hann hafði komið til Hjaltlands, gerði hann brúðlaup til Þóru; sátu þau um veturinn í Móseyjarborg.
En þegar um vorið, er sjó tók að lægja, setti Björn fram skip sitt og bjó sem ákaflegast; en er hann var búinn og byr gaf, sigldi hann í haf; fengu þeir veður stór og voru litla stund úti, komu sunnan að Íslandi. Gekk þá veður á land, og bar þá vestur fyrir landið og þá í haf út, en er þeim gaf byr aftur, þá sigldu þeir að landinu. Engi var sá maður þar innan borðs, er verið hefði fyrr á Íslandi.
Þeir sigldu inn á fjörð einn furðulega mikinn, og bar þá að hinni vestri ströndinni; sáu þar til lands inn ekki nema boða eina og hafuleysur; beittu þá sem þverast austur fyrir landið, allt til þess er fjörður varð fyrir þeim, og sigldu þeir inn eftir firðinum, til þess er lokið var skerjum öllum og brimi. Þá lögðu þeir að nesi einu; lá þar ey fyrir utan, en sund djúpt í milli; festu þar skipið. Vík gekk upp fyrir vestan nesið, en upp af víkinni stóð borg mikil.
Björn gekk á bát einn og menn með honum; Björn sagði förunautum sínum, að þeir skyldu varast að segja það ekki frá ferðum sínum, er þeim stæði vandræði af því. Þeir Björn reru til bæjarins og hittu þar menn að máli; spurðu þeir þess fyrst, hvar þeir voru að landi komnir. Menn sögðu, að það hét að Borgarfirði, en bær sá, er þar var, hét að Borg, en Skalla-Grímur bóndinn. Björn kannaðist brátt við hann og gekk til móts við Skalla-Grím, og töluðust þeir við; spurði Skalla-Grímur, hvað mönnum þeir væru. Björn nefndi sig og föður sinn, en Skalla-Grími var allur kunnleiki á Brynjólfi og bauð Birni allan forbeina sinn, þann er hann þurfti; Björn tók því þakksamlega. Þá spurði Skalla-Grímur, hvað fleira væri þeirra manna á skipi, er virðingamenn væru. Björn sagði, að þar var Þóra Hróaldsdóttir, systir Þóris hersis. Skalla-Grímur varð við það allglaður og sagði svo, að það var skylt og heimilt um systur Þóris, fóstbróður síns, að hann gerði slíkan forbeina, sem þurfti eða hann hefði föng til, og bauð þeim Birni báðum til sín með alla skipverja sína. Björn þekktist það. Var þá fluttur farmur af skipinu upp í tún að Borg; settu þeir þar búðir sínar, en skipið var leitt upp í læk þann, er þar verður; en þar er kallað Bjarnartöður, sem þeir Björn höfðu búðir.
Björn og þeir skipverjar allir fóru til vistar með Skalla-Grími; hann hafði aldri færri menn með sér en sex tigu vígra manna.
34. kafli
Það var um haustið, þá er skip höfðu komið til Íslands af Noregi, að sá kvittur kom yfir, að Björn myndi hafa hlaupist á brott með Þóru og ekki að ráði frænda hennar, og konungur hafði gert hann útlaga fyrir það úr Noregi.
En er Skalla-Grímur varð þess var, þá kallaði hann Björn til sín og spurði, hvernig farið væri um kvonfang hans, hvort það hefði gert verið að ráði frænda. "Var mér eigi þess von," sagði hann, "um son Brynjólfs, að eg myndi eigi vita hið sanna af þér."
Björn sagði: "Satt eitt hefi eg þér sagt, Grímur, en eigi máttu ámæla mér fyrir það, þótt eg segði þér eigi lengra en þú spurðir. En þó skal nú við ganga því, er satt er, að þú hefir sannspurt, að ekki var þetta ráð gert við samþykki Þóris, bróður hennar."
Þá mælti Skalla-Grímur, reiður mjög: "Hví varstu svo djarfur, að þú fórst á minn fund, eða vissir þú eigi, hver vinátta var með okkur Þóri?"
Björn segir: "Vissi eg," segir hann, "að með ykkur var fóstbræðralag og vinátta kær; en fyrir því sótti eg þig heim, að mig hafði hér að landi borið og eg vissi, að mér myndi ekki týja að forðast þig. Mun nú vera á þínu valdi, hver minn hlutur skal verða, en góðs vænti eg af, því að eg er heimamaður þinn."
Síðan gekk fram Þórólfur, sonur Skalla-Gríms, og lagði til mörg orð og bað föður sinn, að hann gæfi Birni eigi þetta að sök, er þó hafði hann tekið við Birni; margir aðrir lögðu þar orð til.
Kom þá svo, að Grímur sefaðist, sagði, að Þórólfur myndi þá ráða "og tak þú við Birni, og ef þú vilt, ver til hans svo vel sem þú vilt."
35. kafli
Þóra ól barn um sumarið, og var það mær; var hún vatni ausin og nafn gefið og hét Ásgerður. Bera fékk til konu að gæta meyjarinnar.
Björn var um veturinn með Skalla-Grími og allir skipverjar hans; Þórólfur gerði sér títt við Björn og var honum fylgjusamur.
En er vor kom, þá var það einn hvern dag, að Þórólfur gekk til máls við föður sinn og spurði hann þess, hvert ráð hann vildi leggja til við Björn, veturgest sinn, eða hverja ásjá hann vildi honum veita. Grímur spurði Þórólf, hvað hann ætlaðist fyrir.
"Það ætla eg," segir Þórólfur, "að Björn vildi helst fara til Noregs, ef hann mætti þar í friði vera; þætti mér það ráð fyrir liggja, faðir, að þú sendir menn til Noregs að bjóða sættir fyrir Björn, og mun Þórir mikils virða orð þín."
Svo kom Þórólfur fyrirtölum sínum, að Skalla-Grímur skipaðist við og fékk menn til utanferðar um sumarið; fóru þeir menn með orðsendingar og jartegnir til Þóris Hróaldssonar og leituðu um sættir með þeim Birni. En þegar er Brynjólfur vissi þessa orðsending, þá lagði hann allan hug á að bjóða sættir fyrir Björn. Kom þá svo því máli, að Þórir tók sættir fyrir Björn, því að hann sá það, að þá var svo komið, að Björn þurfti þá ekki að óttast um sig. Tók Brynjólfur þá sættum fyrir Björn, en sendimenn Gríms voru um veturinn með Þóri, en Björn var þann vetur með Skalla-Grími.
En eftir um sumarið fóru sendimenn Skalla-Gríms aftur; en er þeir komu aftur um haustið, þá sögðu þeir þau tíðindi, að Björn var í sætt tekinn í Noregi. Björn var hinn þriðja vetur með Skalla-Grími, en eftir um vorið bjóst hann til brottferðar og sú sveit manna, er honum hafði þangað fylgt.
En er Björn var búinn ferðar sinnar, þá sagði Bera, að hún vill, að Ásgerður, fóstra hennar, sé eftir, en þau Björn þekktust það, og var mærin eftir og fæddist þar upp með þeim Skalla-Grími.
Þórólfur, sonur Skalla-Gríms, réðst til ferðar með Birni, og fékk Skalla-Grímur honum fararefni; fór hann utan um sumarið með Birni. Greiddist þeim vel og komu af hafi utan að Sognsæ; sigldi Björn þá inn í Sogn og fór síðan heim til föður síns; fór Þórólfur heim með honum; tók Brynjólfur þá við þeim feginsamlega.
Síðan voru ger orð Þóri Hróaldssyni; lögðu þeir Brynjólfur stefnu sín í milli; kom þar og Björn til þeirrar stefnu; tryggðu þeir Þórir þá sættir með sér. Síðan greiddi Þórir af hendi fé það, er Þóra átti í hans garði, og síðan tóku þeir upp, Þórir og Björn, vináttu með tengdum. Var Björn þá heima á Aurlandi með Brynjólfi; Þórólfur var og þar í allgóðu yfirlæti af þeim feðgum.
36. kafli
Haraldur konungur hafði löngum aðsetu sína á Hörðalandi eða Rogalandi að stórbúum þeim, er hann átti að Útsteini eða Ögvaldsnesi eða á Fitjum, á Álreksstöðum eða á Lygru, á Sæheimi; en þann vetur, er nú var frá sagt, var konungur norður í landi. En er þeir Björn og Þórólfur höfðu verið einn vetur í Noregi og vor kom, þá bjuggu þeir skip og öfluðu manna til, fóru um sumarið í víking í austurveg, en fóru heim að hausti og höfðu aflað fjár mikils. En er þeir komu heim, þá spurðu þeir, að Haraldur konungur var þá á Rogalandi og myndi þar sitja um veturinn. Þá tók Haraldur konungur að eldast mjög, en synir hans voru þá mjög á legg komnir margir.
Eiríkur, son Haralds konungs, er kallaður var blóðöx, var þá á ungum aldri; hann var á fóstri með Þóri hersi Hróaldssyni; konungur unni Eiríki mest sona sinna; Þórir var þá í hinum mestu kærleikum við konung.
Björn og þeir Þórólfur fóru fyrst á Aurland, er þeir komu heim, en síðan byrjuðu þeir ferð sína norður í Fjörðu að sækja heim Þóri hersi. Þeir höfðu karfa þann, er reru á borð tólf menn eða þrettán, og höfðu nær þrjá tigu manna; skip það höfðu þeir fengið um sumarið í víking; það var steint mjög fyrir ofan sjó og var hið fegursta. En er þeir komu til Þóris, fengu þeir þar góðar viðtökur og dvöldust þar nokkura hríð, en skipið flaut tjaldað fyrir bænum.
Það var einn dag, er þeir Þórólfur og Björn gengu ofan til skipsins; þeir sáu, að Eiríkur konungsson var þar, gekk stundum á skipið út, en stundum á land upp, stóð þá og horfði á skipið.
Þá mælti Björn til Þórólfs: "Mjög undrast konungsson skipið, og bjóð þú honum að þiggja að þér, því að eg veit, að okkur verður það að liðsemd mikilli við konung, ef Eiríkur er flutningsmaður okkar. Hefi eg heyrt það sagt, að konungur hafði þungan hug á þér af sökum föður þíns."
Þórólfur sagði, að það myndi vera gott ráð. Gengu þeir síðan ofan til skipsins, og mælti Þórólfur: "Vandlega hyggur þú að skipinu, konungsson; hversu líst þér á?"
"Vel," segir hann; "hið fegursta er skipið," segir hann.
"Þá vil eg gefa þér," sagði Þórólfur, "skipið, ef þú vilt þiggja."
"Þiggja vil eg," segir Eiríkur, "en þér munu lítil þykja launin, þótt eg heiti þér vináttu minni, en það stendur þó til vonar, ef eg held lífi."
Þórólfur segir, að þau laun þótti honum miklu meira verð en skipið. Skildust þá síðan, en þaðan af var konungsson allkátur við þá Þórólf.
Þeir Björn og Þórólfur koma á ræðu við Þóri, hvað hann ætlar, hvort það sé með sannindum, að konungur hafi þungan hug á Þórólfi. Þórir dylur þess ekki, að hann hefði það heyrt.
"Þá vildi eg það," sagði Björn, "að þú færir á fund konungs og flyttir mál Þórólfs fyrir hon um, því að eitt skal ganga yfir okkur Þórólf báða; gerði hann svo við mig, þá er eg var á Íslandi."
Svo kom, að Þórir hét ferðinni til konungs og bað þá freista, ef Eiríkur konungsson vildi fara með honum; en er þeir Þórólfur og Björn komu á þessar ræður fyrir Eirík, þá hét hann sinni umsýslu við föður sinn.
Síðan fóru þeir Þórólfur og Björn leið sína í Sogn, en Þórir og Eiríkur konungsson skipuðu karfa þann hinn nýgefna og fóru suður á fund konungs og hittu hann á Hörðalandi; tók hann feginsamlega við þeim. Dvöldust þeir þar um hríð og leituðu þess dagráðs að hitta konung, að hann var í góðu skapi; báru þá upp þetta mál fyrir konung, sögðu, að sá maður var þar kominn, er Þórólfur hét, son Skalla-Gríms; vildum vér þess biðja, konungur, að þú minntist þess, er frændur hans hafa vel til þín gert, en létir hann eigi gjalda þess, er faðir hans gerði, þótt hann hefndi bróður síns."
Talaði Þórir um það mjúklega, en konungur svaraði heldur stutt, sagði, að þeim hafði ótili mikill staðið af Kveld- Úlfi og sonum hans, og lét þess von, að sjá Þórólfur myndi enn vera skaplíkur frændum sínum; "eru þeir allir," sagði hann, "ofsamenn miklir, svo að þeir hafa ekki hóf við og hirða eigi, við hverja þeir eiga að skipta."
Síðan tók Eiríkur til máls, sagði, að Þórólfur hefði vingast við hann og gefið honum ágætan grip, skip það, er þeir höfðu þar. "Hefi eg heitið honum vináttu minni fullkominni; munu fáir til verða að vingast við mig, ef þessum skal ekki tjóa. Muntu eigi það vera láta, faðir, um þann mann, er til þess hefir fyrstur orðið að gefa mér dýrgripi."
Svo kom, að konungur hét þeim því, áður létti, að Þórólfur skyldi í friði vera fyrir honum; "en ekki vil eg," kvað hann, "að hann komi á minn fund; en gera máttu, Eiríkur, hann svo kæran þér sem þú vilt eða fleiri þá frændur, en vera mun annaðhvort, að þeir munu þér verða mjúkari en mér hafa þeir orðið, eða þú munt þessar bænar iðrast og svo þess, ef þú lætur þá lengi með þér vera."
Síðan fór Eiríkur blóðöx og þeir Þórir heim í Fjörðu; sendu síðan orð og létu segja Þórólfi, hvert þeirra erindi var orðið til konungs.
Þeir Þórólfur og Björn voru þann vetur með Brynjólfi; en mörg sumur lágu þeir í víking, en um vetrum voru þeir með Brynjólfi, en stundum með Þóri.
37. kafli
Eiríkur blóðöx tók þá við ríki; hann hafði yfirsókn á Hörðalandi og um Fjörðu; tók hann þá og hafði með sér hirðmenn.
Og eitt hvert vor bjó Eiríkur blóðöx för sína til Bjarmalands og vandaði mjög lið til þeirrar ferðar. Þórólfur réðst til ferðar með Eiríki og var í stafni á skipi hans og bar merki hans; Þórólfur var þá hverjum manni meiri og sterkari og líkur um það föður sínum.
Í ferð þeirri var margt til tíðinda; Eiríkur átti orustu mikla á Bjarmalandi við Vínu; fékk Eiríkur þar sigur, svo sem segir í kvæðum hans, og í þeirri ferð fékk hann Gunnhildar, dóttur Össurar tóta, og hafði hana heim með sér; Gunnhildur var allra kvenna vænst og vitrust og fjölkunnug mjög. Kærleikar miklir voru með þeim Þórólfi og Gunnhildi; Þórólfur var þá jafnan á vetrum með Eiríki, en á sumrum í víkingu.
Það varð þá næst til tíðinda, að Þóra, kona Bjarnar, tók sótt og andaðist, en nokkuru síðar fékk Björn sér annarrar konu, hún hét Ólöf, dóttir Erlings hins auðga úr Ostur; þau áttu dóttur, er Gunnhildur hét.
Maður hét Þorgeir þyrnifótur; hann bjó á Hörðalandi í Fenhring; þar heitir á Aski; hann átti þrjá sonu; hét einn Haddur, annar Berg- Önundur, þriðji hét Atli hinn skammi. Berg-Önundur var hverjum manni meiri og sterkari og var maður ágjarn og ódæll; Atli hinn skammi var maður ekki hár og riðvaxinn og var rammur að afli. Þorgeir var maður stórauðugur að fé; hann var blótmaður mikill og fjölkunnugur. Haddur lá í víking og var sjaldan heima.
38. kafli
Þórólfur Skalla-Grímsson bjóst eitt sumar til kaupferðar; ætlaði þá, sem hann gerði, að fara til Íslands og hitta föður sinn. Hann hafði þá lengi á brottu verið; hann hafði þá ógrynni fjár og dýrgripi marga.
En er hann var búinn til ferðar, þá fór hann á fund Eiríks konungs; en er þeir skildust, seldi konungur í hendur Þórólfi öxi, er hann kveðst gefa vilja Skalla-Grími; öxin var snaghyrnd og mikil og gullbúin, upp skellt skaftið með silfri, og var það hinn virðilegasti gripur.
Þórólfur fór ferðar sinnar, þegar hann var búinn, og greiddist honum vel og kom skipi sínu í Borgarfjörð og fór þegar bráðlega heim til föður síns; varð þar fagnafundur mikill, er þeir hittust. Síðan fór Skalla-Grímur til skips móti Þórólfi, lét setja upp skipið, en Þórólfur fór heim til Borgar með tólfta mann.
En er hann kom heim, bar hann Skalla-Grími kveðju Eiríks konungs og færði honum öxi þá, er konungur hafði sent honum. Skalla-Grímur tók við öxinni, hélt upp og sá á um hríð og ræddi ekki um; festi upp hjá rúmi sínu.
Það var um haustið einn hvern dag að Borg, að Skalla-Grímur lét reka heim yxn mjög marga, er hann ætlaði til höggs; hann lét leiða tvo yxn saman undir húsvegg og leiða á víxl; hann tók hellustein vel mikinn og skaut niður undir hálsana. Síðan gekk hann til með öxina konungsnaut og hjó yxnina báða senn, svo að höfuðið tók af hvorumtveggja, en öxin hljóp niður í steininn, svo að munnurinn brast úr allur og rifnaði upp í gegnum herðuna. Skalla-Grímur sá í eggina og ræddi ekki um; gekk síðan inn í eldahús og steig síðan á stokk upp og skaut öxinni upp á hurðása, lá hún þar um veturinn.
En um vorið lýsti Þórólfur yfir því, að hann ætlaði utan að fara um sumarið. Skalla-Grímur latti hann, sagði, að þá var gott heilum vagni heim að aka; "hefur þú," sagði hann, "farið fremdarför mikla, en það er mælt, er ýmsar verður, ef margar fer; tak þú nú hér við fjárhlut svo miklum, að þú þykist verða mega gildur maður af."
Þórólfur sagði, að hann vill enn fara einhverja ferð, "og á eg nauðsynleg erindi til fararinnar; en þá er eg kem út öðru sinni, mun eg hér staðfestast; en Ásgerður, fóstra þín, skal fara utan með mér á fund föður síns; bauð hann mér um það, þá er eg fór austan."
Skalla-Grímur kvað hann ráða mundu "en svo segir mér hugur um, ef við skiljumst nú, sem við munum eigi finnast síðan."
Síðan fór Þórólfur til skips síns og bjó það; en er hann var albúinn, fluttu þeir út skipið til Digraness, og lá þar til byrjar; fór þá Ásgerður til skips með honum.
En áður Þórólfur fór frá Borg, þá gekk Skalla-Grímur til og tók öxina ofan af hurðásum, konungsgjöfina, og gekk út með; var þá skaftið svart af reyk, en öxin ryðgengin. Skalla-Grímur sá í egg öxinni; síðan seldi hann Þórólfi öxina. Skalla-Grímur kvað vísu:
Liggja ýgs í eggju,ák sveigar kör deiga,fox es illt í öxi,undvargs flösur margar;arghyrnu lát árnaaptr með roknu skapti;þörfgi væri þeirar,þat vas inga gjöf, hingat.
39. kafli
Það varð til tíðinda, meðan Þórólfur hafði verið utanlendis, en Skalla-Grímur bjó að Borg, að eitt sumar kom kaupskip af Noregi í Borgarfjörð; var þá víða höfð uppsát kaupskipum í ár eða í lækjarósa eða í sík. Maður hét Ketill, er kallaður var Ketill blundur, er átti skip það; hann var norrænn maður, kynstór og auðugur. Geir hét son hans, er þá var fulltíði og var á skipi með honum. Ketill ætlaði að fá sér bústað á Íslandi; hann kom síð sumars. Skalla-Grímur vissi öll deili á honum; bauð Skalla-Grímur honum til vistar með sér með allt föruneyti sitt. Ketill þekktist það, og var hann um veturinn með Skalla-Grími.
Þann vetur bað Geir, sonur Ketils, Þórunnar, dóttur Skalla-Gríms, og var það að ráði gert; fékk Geir Þórunnar. En eftir um vorið vísaði Skalla-Grímur Katli til lands upp frá landi Óleifs með Hvítá, frá Fl��kadalsárósi og til Reykjadalsáróss og tungu þá alla, er þar var á milli upp til Rauðsgils, og Flókadal allan fyrir ofan brekkur.
Ketill bjó í Þrándarholti, en Geir í Geirshlíð; hann átti annað bú í Reykjadal, að Reykjum hinum efri; hann var kallaður Geir hinn auðgi. Hans synir voru þeir Blund-Ketill og Þorgeir blundur; þriðji var Þóroddur Hrísablundur, er fyrstur bjó í Hrísum.
40. kafli
Skalla-Grímur henti mikið gaman að aflraunum og leikum; um það þótti honum gott að ræða. Knattleikar voru þá tíðir. Var þar í sveit gott til sterkra manna í þann tíma, en þó hafði engi afl við Skalla-Grím; hann gerðist þá heldur hniginn að aldri.
Þórður hét sonur Grana að Granastöðum, og var hann hinn mannvænlegasti maður og var á ungum aldri; hann var elskur að Agli Skalla-Grímssyni. Egill var mjög að glímum; var hann kappsamur mjög og reiðinn, en allir kunnu það að kenna sonum sínum, að þeir vægðu fyrir Agli.
Knattleikur var lagður á Hvítárvöllum allfjölmennur á öndverðan vetur; sóttu menn þar til víða um hérað. Heimamenn Skalla-Gríms fóru þangað til leiks margir; Þórður Granason var helst fyrir þeim. Egill bað Þórð að fara með honum til leiks; þá var hann á sjöunda vetur; Þórður lét það eftir honum og reiddi hann að baki sér.
En er þeir komu á leikmótið, þá var mönnum skipt þar til leiks, þar var og komið margt smásveina, og gerðu þeir sér annan leik; var þar og skipt til.
Egill hlaut að leika við svein þann, er Grímur hét, sonur Heggs af Heggsstöðum; Grímur var ellefu vetra eða tíu og sterkur að jöfnum aldri. En er þeir lékust við, þá var Egill ósterkari; Grímur gerði og þann mun allan, er hann mátti. Þá reiddist Egill og hóf upp knatttréð og laust Grím, en Grímur tók hann höndum og keyrði hann niður fall mikið og lék hann heldur illa og kveðst mundu meiða hann, ef hann kynni sig eigi. En er Egill komst á fætur, þá gekk hann úr leiknum, en sveinarnir æptu að honum.
Egill fór til fundar við Þórð Granason og sagði honum, hvað í hafði gerst.
Þórður mælti: "Eg skal fara með þér, og skulum við hefna honum." Hann seldi honum í hendur skeggöxi eina, er Þórður hafði haft í hendi; þau vopn voru þá tíð; ganga þeir þar til, er sveinaleikurinn var. Grímur hafði þá hent knöttinn og rak undan, en aðrir sveinarnir sóttu eftir. Þá hljóp Egill að Grími og rak öxina í höfuð honum, svo að þegar stóð í heila. Þeir Egill og Þórður gengu í brott síðan og til manna sinna; hljópu þeir Mýramenn þá til vopna og svo hvorirtveggju. Óleifur hjalti hljóp til þeirra Borgarmanna með þá menn, er honum fylgdu; voru þeir þá miklu fjölmennri og skildust að svo gerðu.
Þaðan af hófust deildir með þeim Óleifi og Hegg; þeir börðust á Laxfit við Grímsá. Þar féllu sjö menn, en Heggur varð sár til ólífis, og Kvígur féll, bróðir hans.
En er Egill kom heim, lét Skalla-Grímur sér fátt um finnast, en Bera kvað Egil vera víkingsefni og kvað það mundu fyrir liggja, þegar hann hefði aldur til, að honum væru fengin herskip. Egill kvað vísu:
Þat mælti mín móðir,at mér skyldi kaupafley ok fagrar árarfara á brott með víkingum,standa upp í stafni,stýra dýrum knerri,halda svá til hafnar,höggva mann ok annan.
Þá er Egill var tólf vetra gamall, var hann svo mikill vexti, að fáir voru menn svo stórir og að afli búnir, að Egill ynni þá eigi flesta menn í leikum; þann vetur, er honum var hinn tólfti, var hann mjög að leikum. Þórður Granason var þá á tvítugs aldri; hann var sterkur að afli; það var oft, er á leið veturinn, að þeim Agli og Þórði tveimur var skipt í móti Skalla-Grími.
Það var eitt sinn um veturinn, er á leið, að knattleikur var að Borg suður í Sandvík; þá voru þeir Þórður í móti Skalla-Grími í leiknum, og mæddist hann fyrir þeim, og gekk þeim léttara. En um kveldið eftir sólarfall, þá tók þeim Agli verr að ganga; gerðist Grímur þá svo sterkur, að hann greip Þórð upp og keyrði niður svo hart, að hann lamdist allur, og fékk hann þegar bana; síðan greip hann til Egils.
Þorgerður brák hét ambátt Skalla-Gríms; hún hafði fóstrað Egil í barnæsku; hún var mikil fyrir sér, sterk sem karlar og fjölkunnug mjög.
Brák mælti: "Hamast þú nú, Skalla-Grímur, að syni þínum."
Skalla-Grímur lét þá lausan Egil, en þreif til hennar. Hún brást við og rann undan, en Skalla-Grímur eftir; fóru þau svo í utanvert Digranes; þá hljóp hún út af bjarginu á sund. Skalla-Grímur kastaði eftir henni steini miklum og setti milli herða henni, og kom hvortki upp síðan. Þar er nú kallað Brákarsund.
En eftir um kveldið, er þeir komu heim til Borgar, var Egill allreiður. En er Skalla-Grímur hafði setst undir borð og alþýða manna, þá var Egill eigi kominn í sæti sitt; þá gekk hann inn í eldahús og að þeim manni, er þar hafði þá verkstjórn og fjárforráð með Skalla-Grími og honum var kærstur; Egill hjó hann banahögg og gekk síðan til sætis síns. En Skalla-Grímur ræddi þá ekki um, og var það mál þaðan af kyrrt, en þeir feðgar ræddust þá ekki við, hvorki gott né illt, og fór svo fram þann vetur.
En hið næsta sumar eftir kom Þórólfur út, sem fyrr var sagt; en er hann hafði verið einn vetur á Íslandi, þá bjó hann eftir um vorið skip sitt í Brákarsundi.
En er hann var albúinn, þá var það einn dag, að Egill gekk til fundar við föður sinn og bað hann fá sér fararefni; "vil eg," sagði hann, "fara utan með Þórólfi."
Grímur spurði, ef hann hefði nokkuð það mál rætt fyrir Þórólfi; Egill segir, að það var ekki; Grímur bað hann það fyrst gera.
En er Egill vakti það mál við Þórólf, þá kvað hann þess enga von, "að eg muni þig flytja með mér á brott; ef faðir þinn þykist eigi mega um þig tæla hér í hýbýlum sínum, þá ber eg eigi traust til þess að hafa þig utanlendis með mér, því að þér mun það ekki hlýða að hafa þar slíkt skaplyndi sem hér."
"Vera má," sagði Egill, "að þá fari hvorgi okkar."
Um nóttina eftir gerði á æðiveður, útsynning; en um nóttina, er myrkt var og flóð var sjóvar, þá kom Egill þar og gekk fyrir utan tjöldin; hjó hann í sundur festar þær,er á útborða voru. Gekk hann þegar sem skjótast upp um bryggjuna, skaut út þegar bryggjunni og hjó þær festar, er á land upp voru. Rak þá út skipið á fjörðinn. En er þeir Þórólfur urðu varir við, er skipið rak, hljópu þeir í bátinn, en veðrið var miklu hvassara en þeir fengju nokkuð að gert. Rak skipið yfir til Andakíls og þar á eyrar upp, en Egill fór heim til Borgar.
En er menn urðu varir við bragð það, er Egill hafði gert, þá löstuðu það flestir; hann sagði, að hann skyldi skammt til láta að gera Þórólfi meira skaða og spellvirki, ef hann vildi eigi flytja hann í brott. En þá áttu menn hlut að í milli þeirra, og kom svo að lyktum, að Þórólfur tók við Agli, og fór hann utan með honum um sumarið.
Þegar Þórólfur kom til skips, þá er hann hafði tekið við öxi þeirri, er Skalla-Grímur hafði fengið í hendur honum, þá kastaði hann öxinni fyrir borð á djúpi, svo að hún kom ekki upp síðan.
Þórólfur fór ferðar sinnar um sumarið og greiddist vel um hafið, og komu utan að Hörðalandi; stefnir Þórólfur þegar norður til Sogns. En þar höfðu þau tíðindi orðið um veturinn, að Brynjólfur hafði andast af sótt, en synir hans höfðu skipt arfi. Hafði Þórður Aurland, bæ þann, er faðir þeirra hafði búið á; hafði hann gerst konungi handgenginn og gerst lendur maður.
Dóttir Þórðar hét Rannveig, móðir þeirra Þórðar og Helga; Þórður var faðir Rannveigar, móður Ingiríðar, er átti Ólafur konungur; Helgi var faðir Brynjólfs, föður þeirra Serks úr Sogni og Sveins.
0 notes