Text
Frægasta glíma hinna fornu tíma
Það er svo margt sem ég veit ekki um þig, sagði Aría. Hvar lærðirðu að berjast svona? Ah, svona hér og þar, sagði eilífi maðurinn. Einhversstaðar á lífsleiðinni var ég svo heppinn að kynnast miklum bardagaköppum og verða fyrir áhrifum þess að æfa með þeim. Ég hef þekkt menn sem lifðu nánast fullkomnu lífi. Þeir höfðu vaxið upp í að vera meistarar sjálfs sín. Þetta voru heilagir bardagakappar sem lifðu allra einfaldasta lífi. Þeir sváfu, átu, æfðu líkama og sál, og sváfu svo aftur. Lífið innan dyra bardagahofsins. Ekkert annað. Engar lífsins lystisemdir sem hefðu getað flækt líf þeirra. Og þeir náðu fullkomnu jafnvægi í unaðslegum hversdegi. Alla daga fullkomin ró. Æfingarnar gerðu þetta fyrir þá, þær voru þeirra hugleiðsla… Eins hef ég notið góðs af því að þekkja andlega risa sem gátu hugleitt dögum saman án matar og svefns. Ég hef hitt alls konar fólk og reyni að læra og tileinka mér það besta. Það er ekkert sérstakt við þessa bardagahæfni mína, þegar þú hugsar út í það. Svo lærði ég líka heilmikið að slást í Mesapótamíu. Vá, ég vissi, til dæmis, ekkert af þessu, sagði Aría. Það er mjög svekkjandi raunveruleiki að ég geti aðeins ferðast áfram í tíma, en ekki aftur á bak, og fái því aldrei að sjá fyrri daga þína. Það er svo skrítið með fortíðina, hélt Aría áfram. Þeir sem maður þekkir eiga heilt líf sem þeir hafa lifað sem við þekkjum ekki. Við þekkjum aðra aldrei fullkomlega, þekkjum aðeins okkur sjálf, og annað fólk segir okkur aldrei alla söguna, því hún er svo löng… Nákvæmlega, sagði eilífi maðurinn. Það er út af þessu sem ég get ekki sagt þér nema stuttar sögur og stiklað á stóru úr ævi minni. Ef ég þyldi allt upp værir þú dauð úr elli eða leiðindum áður en ég kæmist almennilega af stað. Já en… mig langar að heyra fleiri sögur af fortíð þinni. Þær eru sveipaðar einhverjum töfraljóma, kannski því þær tilheyra tíma og veröld sem ég fæ aldrei að snerta og hafa áhrif á. Svo ég vil að þú segir mér sögu, einhverja alveg sérstaklega góða, jafnvel þó þú sért búinn að segja hana þúsund sinnum og sért orðinn leiður á henni sjálfur. Ah, sko! sagði hann og hún sá hvernig hann uppljómaðist. Einhversstaðar í heila hans tengdust tvær hugmyndir og mynduðu nýja, sem hann bunaði hratt út úr sér: Sko, sumar sögurnar mínar hef ég sagt þúsund sinnum í gegnum tíðina. Það er í rauninni kraftaverk, en ég verð aldrei leiður á sögunum mínum. Ég hef haft fleiri árþúsund til að fara yfir og endursegja sumar sögurnar, aftur og aftur, án þess að verða leiður á þeim - ótrúlegt… Af hverju? Jú - ég held - að sögurnar mínar séu eins og snákar sem skipta reglulega um ham - þær verða eins og nýjar. Þegar ég skoða fortíðina þá kem ég nefnilega aftur að gömlum tímum með nýja visku… Fortíðin er fersk því ég sé hluti sem ég skildi ekki áður, ég set þá í samhengi við hluti sem þá voru ekki til, tilheyrðu hinni ós��nilegu framtíð, og þannig rímar framtíðin við fortíðina og ég finn að allir söguþræðir lífs míns eru vafðir saman, ég finn betur hver aðalsöguþráður lífs míns raunverulega er, og mér finnst ég geta spáð fyrir um framtíðina… Það er í raun magnað að hugur okkar geti endurskoðað minningar, hélt hann áfram, og greint þær út frá nútíðarþekkingu, sem þá var framtíðarþekking og ekki til. Þannig hjálpar framtíðin okkur að skilja fortíðina… Það er ekkert skrítið að við gætum auðveldlega týnt okkur í hugsunum, minningum og draumum okkar, og kannski aldrei sloppið, því ekki bara fortíðin, heldur fortíðin, nútíðin og framtíðin er svo langt og margofið fyrirbæri… Og ég skal segja þér sögu, Aría. Sögu sem mér sýnist núna að spili lykilpart í lífi mínu. Hún fjallar um einn besta vin minn. Þetta er saga úr fortíðinni, frá því áður en við hittumst, en þú hefur kannski heyrt eitthvað af henni áður. Þetta er nefnilega saga sem hefur verið sögð oft áður, saga sem talin er dýrmæt í stærri sögu mannkyns… Þetta er sagan af mér og Gilgamesh, konungi Úrúk. Saga sem var fyrst skráð á steintöflur fyrir þúsundum ára, þegar ritmálið var enn í fæðingu, og svo varðveitt í öllum helstu konungshöllum heimsins, meðal gulls, kóróna og eðalmálma… sem æðsta gersemin. Hún væri eflaust týnd og glötuð nú í dag, ef ekki hefði verið fyrir skringilega atburðarrás… Tvö þúsund árum eftir að sagan var rituð í stein ákvað voldugasti konungur heimsins, hinn mikli Ashurbanipal Assyríukonungur, að safna að sér mestu bókmenntaverkum mannkynssögunnar. Hann byggði sér besta bókasafnið af þeim öllum, heilagt bókasafnið í borginni Nineveh, stærstu borg veraldar, höfuðborg Assyríu-veldis… Og þar var sagan af mér og Gilgamesh æðst af þeim öllum, sjálft krúnudjásnið. En gullöldinni lauk skyndilega og harkalega: Nineveh hafði aðeins verið stærsta borg heimsins í fimmtíu ár þegar andstæðingar Assyríu sneru bökum saman og gjöreyddu fornu Assyríuveldinu, Nineveh, og bókasafnið varð rústir einar… Bókasafnið var rústir einar, en bókasafnið hafði verið svo gríðarstórt að þessar rústir voru samt ennþá merkilegasta bókasafn heimsins… Rústirnar voru þvílíkar að þrjú hundruð árum síðar áttu þær eftir að blása Alexander mikla eld í brjóst, og láta hann hefja byggingu sjálfs Alexandríubókasafnsins. Og í þessum mikilfenglegu rústum Nineveh láu steintöflur sögunnar lengi, þar til næstum engir í heiminum gætu skilið fornt kúníform-ritmálið, þekkingin týndist, og töflurnar voru verðlausar, óskiljanlegar, talandi löngu liðið tungumál… En tvö þúsund ára þögn þeirra var rofin er Nineveh-rústirnar fundust á ný, og fræðimenn endurlærðu kúniform-ritmálið, og sagan lifnaði aftur við, var lesin, skilin, dýrkuð! En eins og ég og þú, Aría, getum ekki sagt nema hluta af ævisögu okkar, þá gátu skáld fortíðarinnar ekki sagt nema það helsta í sögu okkar Gilgamesh. Þeir skráðu söguna á steintöflur, og af þessum steintöflum voru gerðar eftirmyndir, og þannig var sagan hoggin í stein, og steinninn brotnaði, og hún var hoggin í nýjan stein, því sagan er eldri en steinar… En það komust aðeins fá orð fyrir á steinunum, þetta voru ekki nema tólf töflur… Saga þeirra var takmörkuð af lengd sinni, þeir gátu ekki sagt þér alla söguna, en ég get sagt þér svo mikið meira, ég get sagt þér öll glötuðu smáatriðin, allt sem gleymdist, söguna í allri sinni lengd. Úr munni mér rennur frumsagan eins og straumhart fljót, og rykföllnu steintöflurnar jafnast ekkert á við það: --- Villimaðurinn gekk inn í fyrstu bronsborg jarðarinnar. Fyrir nokkrum dögum hafði hann verið hlaupandi um skóginn að veiða dýr. Nú blasti við honum útsýni yfir hundruði húsa sem rúlluðu niður hæðina að sjálfum borgardjásnunum: ziggúrötunum frægu, hundrað metra háum. Þetta var með því tilkomumesta sem hann hafði séð. Hann var staddur í höfuðborg Súmeríuveldis í Mesapótamíu. Borgin hét Úrúk, og var á landsvæði sem síðar var kallað Írak. Þetta var stærsta borg sem heimurinn hafði séð. Hún iðaði af lífi: götusalar á hverju horni seljandi mat, tónlistarmenn og dómsdagspámenn í hverjum kima, krakkar í boltaleik, og umfram allt gríðarlegt flæmi af fólki á leið hingað og þangað gegnum troðnar götur. Þetta var sannkölluð heimsborg. Borgin hét Úrúk, og orðið "Úrúk" var hróp mannkyns á framtíðina. Úrúk! Bronsborgin fyrsta. Úrúk, framtíðin, mátturinn, bronsið! Úrúk, sem færði manninn úr steinöldinni, úr villimennsku sinni, úr frumstæðri forneskju sinni… Í milljónir ára hafði maðurinn barið frá sér með grófum vopnum og tré og grjóti, kylfum, spjótum, öxum, hnífum. Á hinni hálfendalausu steinöld risu maðurinn og verkfærin hans hægt upp úr því að vera klunnaleg þar til í lokin, þegar mammútarnir voru alveg að deyja út, bjó maðurinn ekki lengur í hellum, ekki einu sinni í þorpum, heldur í gríðarstórum borgum með tugþúsundum íbúa. Það var í borgunum sem þróunin tók fyrst virkilega stökk. Úrúk var stærsta borg í heiminum, og fyrsta bronsborg heimsins, þökk sé því sem gerðist í litlum fátæklegum kofa í Úrúk, áður en hún varð stór. Í þessum litla kofa, einn góðan veðurdag, varð eitt stærsta þróunarstökk mannkynssögunnar: Þarna voru nokkrir færir iðnaðarmenn að hita leir og bræða kopar þegar þeir misstu smá tin út í eldinn. Það sem gerðist þegar tinið blandaðist koparnum, í þessum kofa hjá fyrstu alkemistunum, markaði dögun nýrrar aldar. Úr þessari blöndu varð brons og þar með hófst bronsöldin. Bronsið var margfalt sterkara en bæði tin og kopar og hægt var að nota það til að búa til margfalt betri vopn, tól og tæki en nokkru sinni áður. Þetta nýja hráefni bauð upp á gríðarlega tækniþróun. Beittari vopn. Betri spjót. Betri axir. Betri hnífa. En ekki ekki sverð, því menn gátu enn ekki gert sverð, þá löngu og léttu hluti sem skáru í gegnum allt. Villimaðurinn kom til Úrúk í byrjun bronsaldar, þegar þessi langstærsta borg heimsins var í blóma sínum. Þetta var mekka heimsins, þrjú þúsund árum áður en Mekka varð heilög borg. Þarna hafði fyrsta ritmálið, fleygrúnirnar, kúníformið, orðið til. Þarna varð bronsið til. Í Úrúk, Mesapótamíu, Súmeríu, miðju heimsins, miðju bronsaldarinnar. Og yfir Úrúk ríkti Gilgamesh, hinn mikli, frægi konungur. Villimaðurinn var kominn í borgina. Villimaðurinn, Enkido, sem var enn maður steinaldarinnar. Hann kom frá fjarlægum löndum, svo fjarlægum að bronsöldin hafði ekki snert þau, þar ríkti steinöld, þar voru enn smíðuð vopn úr tré og grjóti, þar voru fáar borgir, mörg þorp. Þar slakaði hann á undir árniðssinfóníunni, með tóman huga í náttúrukyrrð og fegurð. Hér slakaði hann á undir fólkskliðssinfóníunni, leyfði fjölbreytileika mannssálarinnar að fylla huga sinn. Hér sá hann óteljandi ókunnug andlit. Hér væri auðvelt að týnast í fjöldanum… En villimaðurinn Enkido var ekki kominn hingað til þess, hann var kominn hingað til að setja mark sitt á þessa miklu borg! --- Enkido hafði ekki verið lengi í Úrúk fyrr en hann fór að heyra fyrstu sögurnar af konungnum. Gilgamesh var mesti kappi Mesapótamíu og raunar talinn af mörgum vera kominn af guðunum sjálfum: tveir þriðju guðlegur, einn þriðji mennskur. Gilgamesh var frægur langt út fyrir konungsríki sitt og dýrkaður sem hetja vegna allra afreka sinna. Það mætti þó segja að Gilgamesh hafi ekki þjónað konungsríki sínu af heilindum heldur fyrst og fremst sjálfum sér og dýrð sinni. Egó hans var gríðarst��rt - hann taldi sig guðlegan og yfir dauðlega menn hafinn. Á næstu dögum heyrði Enkido margar sögur af stórfengleik Gilgamesh og persónugöllum hans, narsísismanum, hedónismanum, sjálfmiðaðri lífssýn innan allra heimsins gæða. Enkido var fátækur af veraldlegum gæðum, ríkur af andlegum. Að einhverju leyti var hann andstæða Gilgamesh, sem sólundaði öllu í eltingarleik við hverfular nautnir lífsins. En eins og allar andstæður áttu þeir ýmislegt sameiginlegt. Enkido var mikill kappi og ætlaði einnig að vinna sér inn frægð fyrir afrek sín. Svo þegar Enkido heyrði að árleg bardagakeppni Úrúk væri að nálgast varð hann strax spenntur. Þarna mættust allir mestu kappar Súmeríuveldis að berjast um frægðina. Þegar hann heyrði að Gilgamesh hefði unnið keppnina seinustu tíu árin í röð gat hann ekki beðið. Hann þyrfti að vinna sig í gegnum keppnina, vinna andstæðing eftir andstæðing, klífa alla leið á toppinn þar sem hann fengi tækifæri til þess að kljást gegn mesta kappa ríkisins, konungi borgarinnar, hinum ósigraða Gilgamesh. Enkido hafði enga trú á því að Gilgamesh væri af guðum kominn. Enkido viðurkenndi það að sögurnar af Gilgamesh renndu stoðum undir það að hér væri mikilmenni á ferðinni, mikilmenni í hæstu valdastöðu heimsins, mikilmenni sem gæti áorkað gríðarmiklu fyrir mannkynið. En Gilgamesh kastaði þeim hæfileikum á glæ í leit að gómsætustu ávöxtum lífsins. Enkido ætlaði að kenna honum lexíu. Hann ætlaði að skora á styrk Gilgamesh og skilja djúp spor eftir í egói hans. Hann ætlaði að beita styrk sínum og sigra Gilgamesh, sannfæra hann um breiskleika sinn, óguðleika, mennsku… Yfir þessari stórkostlegu borg átti ekki að ríkja ma��ur sem taldi sig yfir mannkynið hafinn. Fjallstoppur, þú munt falla! Ég ætla mér ekki bara frægð, ég ætla líka, með hörku, að sameina Gilgamesh mannkyninu, svo hann geti gefið mannkyninu orku sína og veldi og nýtt það í göfugri verkefni… göfugri verkefni en að reyna að breyta lygi í sannleik, í að reyna að fylla óseðjandi þrá falsguðs í meira, og meira… Falsguð! Þú munt falla! Svo Enkido skráði sig á hið hátíðlega mót Úrúk í frjálsum bardaga. Þetta var útsláttarkeppni með mörgþúsund áhorfendum og þrjátíu og tveimur vönum köppum sem komu víða að úr Súmeríu til þess að berjast um brons, silfur, gull, verðlaun og frægð. Flestir voru frægir súmerskir hermenn, glímukappar, hnefaleikamenn, íþróttamenn. Allt ungir og sterklegir menn, því það var ekki til siðs hér að konur berðust með. Enkido mætti til leiks sem eini óþekkti maðurinn, framandi útlits og frá fjarlægu landi. Hann, líkt og allir keppendurnir, vakti mikla athygli. Hann skar sig úr fyrir þær sakir að hann var ekki þekktur, ekki frægur, og í því var frægð hans fólgin. Enkido var stór og stæltur með dökkan hármakka á höfðinu og skegg mikið. Það var orð manna að Enkido væri barbari úr ósiðmenntuðu landi. Það var að hluta til rétt. Enkido var villimaður náttúrunnar andspænis þessum borgarmönnum. Steinaldarmaðurinn mættur til að berja á bronsinu. Það var barist í grasinu undir opnum himni. Fullkomið fyrir Enkido. Honum leið alltaf betur þannig heldur en lokaður í kassa. Reglurnar voru einfaldar. Frjáls slagsmál með olnbogum og hnúum, löppum og hnjám. Það var bannað að skalla, bíta, klóra, brjóta fingur og ýmislegt þess háttar sem gat skaðað kappana varanlega. Enkido skildi. Hann mátti sparka og slá og beita ýmsum glímutökum og kyrkingum. Sigur fékkst þegar andstæðingurinn gafst upp eða missti meðvitund. Þar sem mikil eftirvænting var fyrir því að sjá útlendinginn glíma þá fékk Enkido þann heiður að taka þátt í fyrstu glímu mótsins. Hann gekk hálfnakinn og stórkostlegur inn á túnið. Áhorfendur furðuðu sig á tröllslegri líkamsbyggingu hans: búkur hans minnti á máttarstólpa. Öll fæðumst við sem mjúk og veikburða börn, en þessi maður hafði augljóslega farið í gegnum margt til þess að verða að þessum harða, skorna og vöðvastælta manni sem hann var. Þetta var sannarlega líkami sem gæti haldið heiminum á lofti, hann var byggður eins og Atlas. Tveim árþúsundum síðar sagði Aristóteles að "sá, sem getur ekki búið í samfélagi manna, eða hefur enga þörf fyrir það því hann er sjálfum sér nægur, hlýtur að vera annað hvort skepna eða guð", og þessi setning hefði allt eins getað verið lýsing á því sem sumir áhorfendur voru að hugsa á þessari stundu. Þarna var þessi erlenda ógn: sá sem ólst ekki upp í borginni heldur hljóp með villtu dýrunum, og hann virtist algjörlega sjálfum sér nægur, virtist á þann hátt eins öflugur og borgin öll til samans - og loðinn, sterklegur búkur hans var byggður eins og á skepnu eða guði. Í steikjandi hitanum var Enkido þegar byrjaður að hitna og svitna og vöðvar líkamans lifnaðir við. Þegar þú byrjar að svitna þá fer vélin fyrst í gang. Líkaminn er vél sem var hönnuð til þess að kveikja fyrst á sér þegar á því þarf, þegar þú þarft virkilega að nota hana, til dæmis til að berjast, svo þegar Enkido byrjaði að svitna dýrðlegum dropum þá komu ýmis vel geymd leyndarmál líkamans í ljós: þegar hann hitnar tekur hann fyrst almennilega við höggum - þú gætir hrúgað grjóthnullungum yfir Enkido og hann myndi varla finna fyrir því, þú gætir brákað í honum tíu bein, og hann myndi ekki taka eftir því fyrr en daginn eftir, þegar líkaminn væri orðinn kaldur… Enkido var, með öðrum orðum, tilbúinn í slaginn, í alla slagina fjóra og svo slaginn við konunginn Gilgamesh. ---
Fyrsti andstæðingur hans hét Mesalim. Mesalim hafði áður staðið sig vel í þessum bardagakeppnum og unnið nokkra frækna sigra. Hann var ungur og dáður af mörgum samlöndum sínum og varð síðar konungur borgar sinnar, Kish. Áhorfendur vissu hins vegar ekkert um Enkido. Það var spenna í loftinu. Það var kliður. En spennan komst ekki inn í Enkido. Það væri hægt að sjá lífið sem kaótískt samansafn af myndrænum andartökum sem birtast okkur, og þá væri þetta taugatrekkjandi. En Enkido sá lífið ekki svona, líf hans var ekki bara samansafn af því sem hann sér með augunum og heyrir með eyrunum. Líf hans var bundið saman í eina skýra sögu með honum í miðjunni sem byggingarmanni lífs síns. Svo hann sá tvo hluti: taugatrekkjandi aðstæður og sjálfan sig. Óreyndir menn hefðu kannski verið æstir og stressaðir rétt fyrir bardagakeppni en allt slíkt drukknaði í djúpu hafi sálar hans. Á andliti hans mátti sjá fullkomna ró. Á hafi sálar hans mátti ekki sjá eina einustu öldu. Hann tók í hendina á andstæðingnum fyrir bardagann. Andstæðingurinn var örlítið léttari en Enkido og örugglega hraður. Enkido hafði veitt antilópur og hraðskreiðari dýr á ævi sinni. Hann hafði æft bardagalistir víða í gleymdum menningarheimum. Fyrir honum var þetta leikur. Andstæðingurinn gæti kannski náð að koma honum í einhverja erfiðleika en Enkido kunni að bjarga sér frá flestum vandræðum; hann hafði nefnilega lent í þeim öllum áður og fundið sér leiðir út. Hann var lifandi sönnun þess - ef honum hefði einhvern tímann mistekist væri hann eflaust ekki lengur hér á þessari jörð. Enkido hugsaði ekkert. Allar þær hugmyndir sem nefndar eru að framan eru eitthvað sem Enkido hafði lært fyrir löngu og hafði gert að ósjálfráðum, órjúfanlegum hluta af sjálfum sér. Hann leiddi hugann ekki að neinu, hann var tómt blað. Það eina sem þú gerir þegar þú glímir vel er að horfa á það sem gerist. Hugur þinn hugsar ekki í orðum, þú hugsar í gjörðum eins og dýr, bregst við og framkvæmir eitthvað sem eftir þúsund æfingar er gjörsamlega innbyggt í þig og þarfnast ekki hugsunar. Öll orð hugans þagna í algjörri einbeitingu á andartakið, á núið… líkaminn gerir það sjálfkrafa þegar hann finnur að hann er að berjast fyrir lífi sínu. Engin orð, engin hugsun, aðeins upplifun á andartakinu. Þetta hugarástand… Í zen var það kallað mushin no shin. Hugur án huga. Í taó var það kallað wu wei. Að gera án þess að gera. Flæði. Algjörlega tómur, opinn og einbeittur hugur. Bjallan hringdi, gongið sló, þeir byrjuðu að berjast. Ég gæti einfaldlega sagt hvor vann og sleppt því að lýsa bardaganum. En það væri ákveðin vanvirðing við öll þau ár sem þeir æfðu sig í list sinni, svo ég geri það ekki. Það eru óteljandi margar leiðir til að segja frá svona bardaga. Þessi bardagi var samt ekki sérlega langur. Þeir byrjuðu standandi. Enkido stóð rólegur og kyrr með vinstri fót framar en þann hægri og hnúana fyrir neðan kinnar og olnboga niður með síðum. Þetta yrði kannski blóðugt, en Enkido myndi ekki segja að þetta væri bardagi í raun, ekki upp á líf og dauða… Þetta var aðeins keppni. Þeir voru ekki óvinir. Þeir Mesalim væru raunar bræður í bardaga, báðir viljugir. Bardagalist er tveggja manna íþrótt, mitt á milli einstaklings- og hópíþrótta. Þess vegna voru þeir vinir, fyrir og eftir bardagann. En á meðan bardaganum stóð mátti sjá glitta í þá grimmd sem Enkido átti djúpt í hjarta sínu. Grimmd eða ákveðni, það var erfitt að segja hvort, því þarna rákust á andstæðir viljar Enkidos og Mesalims þar sem báðir vildu sigra hinn. Eða það er það sem áhorfandi hefði sagt þér… En við skulum ekki taka of mikið mark á hálftómum höfðum áhorfenda… Áhorfandinn heldur að glímukappinn hugsi bara um að sigra, því áhorfandinn skilur fátt nema hvor sigraði og hvor tapaði. En glímumennirnir geta ekki einbeitt sér að útkomunni, þeir verða að fara í ferðalagið… Þeir hugsa því ekki bara um að sigra, heldur að glíma eins vel og þeir geta. Þess vegna er þetta íþrótt, ekki bara blóðugur barbarismi. En nóg um hægar hugsanir. Að hraða bardagans! Andstæðingurinn var á mikilli hreyfingu. Fætur hans dúuðu og höfuð hans og hendur sveigðust fram og til baka við einhvern óútreiknanlegan innri ryþma. Þessi ryþmi virtist koma úr hnefaleikaþjálfun og var til þess að hafa sífellt kveikt á vörn og sókn: hann skiptist á að hafa þungann í fremri og aftari fæti til að hlaða þyngd í mögulegt högg frá fremri eða aftari hönd. Með þessum stanslausu hreyfingum var hann að breyta stöðunni, gera sig óútreiknanlegan, hálan sem ál, og koma sér í stellingar fyrir hinar og þessar árásir. Á bakvið þetta lá margra ára þjálfun í tækninni. Þeir voru báðir rétthentir, sem einfaldaði málin. Vinstri hönd Enkidos var fremri. Hún var hröð og létt eins og hnífur. Aftari höndin hæg sem sleggja. Þeir voru í armslengd frá hvor öðrum. Enkido sá færi. Enkido tók því fyrsta höggið. Hann sá lítið op milli hnúa andstæðingsins og fleygði fremri hönd sinni þar á milli beint í andlit hans. Hún flaug tignarlega fram eins bein og spjót sem kastað er til að drepa. Um leið færði Enkido þyngd sína örlítið á aftari fót til að gefa sterkari hönd sinni þyngd til að kasta í næsta högg. Andstæðingurinn hafði tekið fyrra höggið varnarlaust í andlitið en hækkaði svo hendur sínar eldsnöggt og náði að verjast síðara högginu frá hinni hönd Enkido. Samtímis síðara högginu hafði Enkido aftur fært líkama sinn og þyngdarpunkt örlítið yfir á hinn fótinn og þaðan tók hann vinstri krók: hönd hans fór fögur í fleygboga eins kröftug og pláneturnar á sporbaug um sólina og með algeran þunga hins snúandi líkama Enkido lenti vinstri hönd hans á kinn Mesalims sem riðaði við höggið. Þá voru þeir komnir svo nálægt hvor öðrum að Mesalim greip um Enkido í stað þess að kýla til baka. Mesalim hafði náð krók undir báðar hendur Enkidos og reyndi að draga hann að sér til þess að fella hann. Enkido var hins vegar sterkur og ódasaður og náði því að losa sig og greip um leið um aðra hönd andstæðingsins. Þetta grip gat hann notað til þess að fella andstæðinginn með uchi mata. Enkido sneri sér því í hálfhring, beygði sig um leið örlítið í hnjánum, dró hann upp á bak sér samtímis því að hann lyfti sér á tærnar, svo fætur andstæðingsins lyftust upp af jörðinni og hann hafði enga jarðtengingu, ekkert jafnvægi - Enkido stjórnaði öllum búk hans. Allt þökk sé litlu, góðu gripi á annarri hönd - stríðið unnið vegna smáatriðs. Enkido fleygði nú andstæðingnum í gríðarlega tignarlegan hringferil sem endaði harkalega með árekstri Mesalims og plánetunnar sem við köllum Jörð. Mesalim var vanur svona glímutökum, en hann missti samt andann. Það heyrðist dynkur frá jörðinni og hróp frá áhorfendum. Að minnsta kosti nokkrir áhorfendur hugsuðu með sér: þetta langar mig að geta einhvern tímann gert. Enkido var í góðri stöðu ofan á andstæðingnum og virtist ætla að vinna bardagann. Hann var með eina af bestu mögulegu stöðunum: hann lá í hliðarstöðu þvert ofan á bringu andstæðingsins, haldandi honum föstum. En þó að Enkido sé ofan á í bardaganum þá er sigur aldrei tryggur. Meira að segja maður sem er undir getur kyrkt þann sem er ofan á með alls kyns brögðum. Og Mesalim náði einmitt að brjótast úr hliðarstöðunni og komst í lokaða varðstöðu þar sem hann lá þvert á móti Enkido, sem var sitjandi á hnjánum, og Mesalim hafði vafið, lokað og læst löppum sínum utan um kvið Enkidos. Áhorfendur hrópuðu og klöppuðu fyrir Mesalim sem hafði tekist að sleppa úr slæmri stöðu og komast í mun betri stöðu. Enkido vissi að hér þurfti hann að passa sig. Andstæðingurinn gæti reynt að fleygja honum við svo staðan myndi snúast við og Enkido yrði undir. Andstæðingurinn gæti reynt að ná höndum Enkidos í lás svo hann þyrfti að gefast upp ellegar handleggsbrotna. Andstæðingurinn gæti reynt að kyrkja Enkido með löppunum í þríhyrningslásnum, svo Enkido yrði að gefast upp ellegar missa meðvitund og tapa. En Enkido gat einnig gert ýmislegt. Þar sem hann sat yfir hinum liggjandi Mesalim þá var hann í góðri stöðu til þess að láta höggum rigna og það gerði hann. Hann kýldi nokkrum sinnum til Mesalims sem reyndi að verjast. Enkido fann að andstæðingurinn var dasaður. Enkido notfærði sér það tækifæri til að stökkva á fætur og standa þannig yfir liggjandi andstæðingnum, án þess þó að ná að losa fætur Mesalims sem voru enn vafðir um mitti Enkidos. Enkido barði í áttina að andliti andstæðingsins, sem reyndi ennþá að nota fágaðar höfuðhreyfingar til að forðast höggin, svo Enkido kýldi í jörðina, og Mesalim leitaði að þríhyrningskyrkingunni, reyndi að vefja löppunum um háls Enkidos. En Enkido sendi hægri hönd sína þráðbeint niður í áttina að jörðinni og höfði Mesalims, hitti beint á höku hans, svo höfuðið snerist og innan í höfuðkúpu Mesalims mótmælti heilinn hristingnum og höggunum með því að slökkva á sér. Hinn liggjandi andstæðingur, Mesalim, missti meðvitund. D��marinn stökk inn og stöðvaði bardagann. Mesalim kom til meðvitundar örfáum sekúndum síðar, dasaður, liggjandi, en heill á húfi. Áhorendur voru í andartak þöglir en hrópuðu svo af fögnuði. Dómarinn lýsti Enkido sigurvegara. Hann tók vinalega í hendur Mesalims. Enkido brosti örlítið. Það var ekki vegna fögnuðs áhorfendanna heldur vegna þess að Mesalim hafði verið ánægjulegur andstæðingur og glíma þeirra hafði verið góð. Þá var opnunarbardagi hátíðarinnar búinn og mótið sett. Hinir þrjátíu keppendurnir höfðu horft á spenntir að sjá hvernig hið óþekkta afl myndi standa sig. Sjálfur Gilgamesh hafði fylgst með. Hann var með sterka nærveru, konunglega áru. Næst stigu á stokk tveir glímukappar frá heimalandinu og börðust vel í nokkrar mínútur þar til annar gafst upp vegna handaláss sem kallaðist olnbogastrekking. Sigurvegarinn hafði vafið líkama sínum öllum um handlegg hans og hótað að nota mjaðmarstyrk sinn til þess að gjöreyðileggja olnboga hans. Því var gefist upp. Alls komust sextán kappar áfram upp úr fyrstu umferð, og sextán ekki. Fyrsta umferðin var því langlengsta umferðin og það var langt í næstu glímu Enkidos. Enkido tók því rólega, slakaði á og fylgdist með köppunum berjast. Margir þeirra voru mjög færir. Enkido sá Gilgamesh gjörsigra glímu og þótti mikið til koma. Sigur Gilgamesh var öruggur og hann hélt sjálfumglöðu fasi sínu í gegnum bardagann allann. Í miðri glímunni sá Enkido hann brosa. Hann var að leika sér að andstæðingnum. Svona gnæfir Gilgamesh yfir Súmeríu, auðveldlega og með brosandi grimmd. Falsguðinn… Fjallstoppurinn… ---
Andstæðingur Enkidos í annarri umferð hét Aríel. Aríel var sterkur sem naut og reyndi strax að nota styrk sinn til þess að fella Enkido. Hann keyrði á Enkido og reyndi að ýta honum og draga hann fram og til baka og til hliðanna og koma honum úr jafnvægi með ofsa sínum til þess að fella hann… Enkido mætti árásum nautsins með því að stíga gríðarsmá og fáguð skref; hann hélt jafnvæginu gegn ofsa nautsins með nákvæmum fótahreyfingum línudansara, svo áhorfendur dáleiddust yfir þeim þokkafulla dansi, er hann dansaði á hnífseggi jafnvægisins… Og þegar nautið réðst hratt gegn honum, þegar það keyrði loks of harkalega inn í hann, setti þunga sinn of framarlega, þá greip Enkido í það og fleygði því fimlega til jarðar. Að fella menn er ekki leikur styrks heldur jafnvægis… ekki leikur fyrir naut, heldur línudansara. Enkido stekkur nú á hinn liggjandi andstæðing og reynir að sækja í handalása til að klára glímuna en andstæðingurinn er gríðarlega sterkur og berst um. Enkido reynir að temja nautið og halda því niðri en Aríel tekst að brjótast undan og snúa stöðunni við. Krraftajötuninn stendur nú yfir Enkido sem liggur á bakinu. Áhorfendur hrópa og fagna þegar þeir sjá heimamanninn með yfirhöndina. Og það var rétt hjá þeim að Enkido var í vandræðum. Andstæðingurinn var mjög sterkur, stöðvaði sóknir Enkidos og kramdi hann. Enkido hugsaði engar mennskar hugsanir, hann hugsaði ekki um hróp áhorfendanna. Andstæðingurinn var það eina sem var til. Og andstæðingurinn var líflaus klettur, og það eina sem skipti máli var að klífa þennan klett… reyna að berja hann og brjóta niður, fella hann og klifra upp á hann, kremja hann og kyrkja, ná toppinum… í miðju fárviðri bardagans… á meðan sjálfur kletturinn fleygir í þig grjóti, ber þig og reynir að brjóta þig niður, kremja og kyrkja… Ekkert annað skipti máli, ekki einu sinni kurteisi við aðra lífveru, heldur bara brjáluð adrenalín-gleðin í erfiðleika bardagans, og það að gefast ekki upp sama hve erfitt þetta verður, sama hversu óþægilegt… og forðast samtímis að lenda í svo slæmum aðstæðum að þú verðir að gefast upp ellegar slasast… Þú verður að hafa óendanlega þolinmæði í erfiðleikum, að finna að kjarni lífsins getur verið sársauki, en það þýðir ekki að við megum gefast upp. Enkido hafði margoft séð dýr, plöntur og alls kyns lífverur sýna hetjulega þrá til lífsins undir sársaukafullum aðstæðum… Enkido hafði eitt sinn fylgst í klukkustund með lítilli flugu í miðjum stormi, og óþreytandi baráttu hennar til þess að lifa storminn af… Enkido hafði eitt sinn verið innblásinn af þrjóskri flugu. Hún kenndi honum lexíu um lífið. Lexíu sem gagnaðist honum núna. Hann var undir en hann gafst ekki upp, hann lifði í sársaukanum og beið tækifærisins. Og það kom. Enkido brást eldsnöggt við og sótti í þríhyrningskyrkinguna sjálfa: hann náði góðu taki á annarri hönd andstæðingsins og vafði löppum sínum utan um þá hönd og háls andstæðingsins, og stöðvaði blóðflæðið til höfuðsins. Aríel, sem var yfir Enkido, finnur að allt í einu er hann að kyrkjast. Hann reynir að losna og brjóta sér leið út úr kyrkingartakinu en finnur að hann er fastur. Hann reynir að kremja Enkido til þess að losna, en þá er öll þyngdin hans beint ofan á Enkido sem nær auðveldlega að nýta sér kaosinn og fella hann á hliðina. Enkido fylgir skriðþunganum og rúllar sér ofan á hinn fallandi andstæðing. Nú situr Enkido á bringu hans, kyrkjandi hann með báðum löppum sínum og annarri hönd andstæðingsins - andstæðingsins sem hefur ekkert svar gegn öllum þessum þunga og styrk… Veröld hans smækkar og smækkar eftir því sem Enkido herðir takið, veröldin inniheldur bara þá tvo, í þrengingunum, þrýstingurinn að aukast, þar til allt fer að verða svart og Aríel missir meðvitund… Hann náði ekki að gefast upp áður en hann missti meðvitund. Enkido fann líkama andstæðingsins verða linan er viljinn og lífið lak úr vöðvunum - og Enkido sleppti honum samstundis. Dómarinn stökk til og hristi Aríel þar til Aríel vaknaði upp úr draumi og vissi ekki hvar hann var. Aríel missti aðeins meðvitund í nokkrar sekúndur en honum fannst sem margar klukkustundir hafi liðið í draumi sínum. Hann var einnig með smá minnisleysi: hann mundi ekki seinni part glímunnar. Þegar hann kom til sjálfs sín börðust í honum miklar tilfinningar: hann hafði aldrei misst meðvitundina svona, það var sárt að tapa en hann var forvitinn að tala við þann sem sigraði sig, og endurheimta brot af hinni týndu minningu, um hvernig hann tapaði, og hvað hann gæti lært af því. Þessi keppni var fjallganga og Aríel þurfti að snúa til baka í fjallinu miðju. Hann horfði niður fjallið, til heimilis síns, hugsaði sér að hann gæti sigrað fjallið næst. En hann lagði ekki af stað niður, hann gat það ekki, hann þráði svo mikið að heyra leyndarmál Enkidos, minninguna týndu og hvernig hann gæti komist lengra upp fjallið… Þeir töluðu saman og Aríel ríghélt í samtalið… Enkido gaf honum öll orðin sem honum komu til hugar, sem gæfu Aríel kannski hugarró, en samtalið var Enkido ekki eins mikilvægt. Enkido var kominn fram úr honum, hann hafði unnið glímuna og horfði upp fjallið. ---
Enkido var einungis nokkrum skrefum frá fjallstoppinum. Hann var kominn í átta manna úrslit. Tveir andstæðingar hans voru fallnir. Áhorfendur fylgdust ákafir með, því ef Enkido sigraði núna væri barbarinn kominn í hóp fjögurra bestu bardagamanna Súmeríuveldis. Andstæðingur hans, Ashúr, var frægur vítt og breitt yfir Súmeríu fyrir hetjuverk sín og átti síðar eftir að stofna hið mikla Assyríuheimsveldi og hafa mikil áhrif á mannkynssöguna. Áhorfendur töldu Ashúr mikið líklegri til sigurs. Enkido var þó ennþá afl af óþekktri stærð, og enginn vissi fyrir víst hvernig þetta myndi fara. Eitt rothögg gæti alltaf breytt öllu. Enkido og Ashúr stóðu andspænis hvor öðrum og Enkido sá strax að andstæðingurinn var örvhentur. Það þýddi að betra var fyrir Enkido að standa ekki beint fyrir framan hann, heldur að stíga smá til vinstri og vera með örlítið horn á Ashúr. Stór hluti bardagans þeirra snerist í rauninni um að stjórna þessu horni, þessu örlitla hliðarskrefi, því þetta hliðarskref gaf þeim sem var með betra horn möguleika á að slá beint yfir högg frá leiðandi hönd andstæðingsins. Og höggin frá leiðandi hendi eru algengustu höggin í hnefaleikunum, svo þetta skipti gríðarlegu máli. Eins skiptir fjarlægðin milli boxaranna gríðarlegu máli. Sjálft jabbið frá leiðandi hendi er einmitt til þess að stjórna fjarlægðinni. En þetta var ekki bara einföld boxkeppni, hér mátti líka sparka, fella og glíma - svo Enkido reyndi að stjórna fjarlægðinni sérstaklega vel og hélt höndunum lægra en venjulegur boxari, til þess að geta varist mögulegum spörkum og fellingum… Það voru því mjög margir hlutir í gangi í einu, er Enkido notaði fótavinnu til að halda sér á hárréttum stað, fleygði þyngd sinni fram og til baka á fótunum til að fá kraft í höggin, hreyfði höfuðið og búkinn til að vera óútreiknanlegur, feikaði högg til að fá viðbrögð og sendi fram hröð jöbb með leiðandi hendi og reyndi að narra andstæðinginn inn í þyngri högg frá aftari hendi eða króka… Þetta var mikill og margvíður dans - eitt feilspor og dansfélaginn myndi rota þig. Þeir byrjuðu á að skiptast á allskyns hnefahöggum, hröðum, þungum, beinum, krókum, og þetta var tignarlegur dans, og hárnákvæmur í bæði vörn og sókn því eitt högg gæti alltaf breytt öllu. Svo fór Ashúr að bæta spörkum við. Ashúr náði nokkrum há- og lágspörkum í Enkido án þess að fá svar. Svo þegar Ashúr sendi enn eitt sparkið til Enkidos þá svaraði hann með því að stökkva inn í það og kýla andstæðinginn samtímis og hann fékk sparkið í sig. Ashúr varð strax svolítið dasaður eftir höggið, en náði að kýla Enkido frá sér. Þeir reyndu að fella hvorn annan en tókst ekki, og kýldu svo hvern annan frá sér. Enkido fann að hann var með yfirhöndina og að spörk Ashúr voru ekki að virka, svo Enkido ákvað að sparka sjálfur og við tók stormur af höggum. Ashúr reyndi að verjast er högg og spörk komu úr öllum áttum, og hann reyndi að berja frá sér þess á milli til þess að reyna að koma sínum eigin ryþma í gang. En það gekk ekki, spörk og högg Enkidos voru að drekkja honum, svo hann tók ákveðið veðmál. Hann sparkaði hátt að höfði Enkidos. Vonaðist til þess að hitta. Óttaðist að fá annað þungt högg í andlitið. Óvænt fann hann hvernig Enkido greip um löpp sína og ýtti sér. Ashúr féll í jörðina en Enkido stökk ekki á hann heldur hélt ennþá um löppina hans og sveiflaði sér fimlega utan um hana og reif hana í fótalás. Ashúr fann eldsnöggt hvernig sársaukinn þaut frá fætinum til heilans, og honum langaði að hrópa uppgjöf, því fótalásar geta valdið langtímaskaða, en hann fann hvernig hann gat losað fót sinn, tókst það óskaddaður og andaði léttar. Nú var hann staddur yfir Enkido sem var með hann í lokaðri varðstöðu. Enkido var undir, og Ashúr kýldi hann ítrekað úr yfirburðastöðunni, en Enkido gafst ekki upp. Enkido reyndi að fleygja andstæðingnum við og snúa stöðunni, en Ashúr stöðvaði það með því að setja aðra höndina í jörðina til þess að halda jafnvæginu. Það reyndust svo vera lífshættuleg mistök, þegar Enkido stökk eldsnöggt á einangraða hendina og reif hana djúpt upp í kimura-armlás og Ashúr hrópaði, í þetta sinn í alvöru, uppgjöf. Enkido sleppti honum og þeir stóðu á fætur. Dómarinn lyfti hönd Enkidos og lýsti hann sigurvegara. Það var mikið klappað og hrópað. Nú efaðist enginn um hæfileika villimannsins. Eina spurningin sem var eftir var hvort útlendingurinn Enkido væri betri en bestu menn Súmeríu? ---
Enkido var kominn í fjórðungsúrslit. Hann lenti á móti sterkum andstæðingi sem hét Isaja. Isaja hafði fengið silfurverðlaun árið á undan. Gilgamesh lenti á móti bronsmanni síðasta árs. Ef Enkido ynni þessa glímu myndi hann mæta Gilgamesh næst í lokarimmunni. Það bar örlítið á því að andstæðingur Enkidos væri orðinn þreyttur eftir allar glímur dagsins. Það er ekki eins og Enkido hafi aldrei orðið þreyttur, en þreytan aftraði honum ekki. Hann kunni að fara ljúflega að þreytunni og vinna með henni í stað þess að vinna gegn henni. Hann glímdi því enn á fullum styrk og varð það til þess að hann gat sparkað og barið silfurhetjuna Isaja að vild. Það að kýla er örlítið meira en bara að segja það. Til þess að kýla vel átt þú að lenda högginu þannig að aðeins tveir fremstu hnúar þínir lendi á andstæðingnum. Mannshnúinn hefur mjög merkilega sögu. Við getum notað hann bæði sem gróft vopn og til þess að framkvæma fínhreyfingar. Það er nánast eins og hann hafi verið þróaður til þess að gera bæði. Og Enkido var vel æfður í notkun hans og notaði hnefa sinn til þess að senda þung en hárnákvæm högg á rétta staði á silfurhetjunni. Enkido réðst á veikustu bletti hans og tók hann í sundur af mikilli þekkingu. Að lokum hneig silfurhetjan niður eftir kviðarhögg og dómarinn stökk inn og stöðvaði Enkido sem var allt eins tilbúinn að elta silfurhetjuna í fallinu til að veita honum fleiri högg. ---
Það var mikill æsingur allt í kring. Allir sigruðu kapparnir og allir áhorfendurnir biðu spenntir eftir að sjá Gilgamesh klára glímu sína við bronsmann seinasta árs svo hann gæti mætt hinum nýja og öfluga villimanni. Gilgamesh var stór og mikill. Hann var voldugur, sterkur og stæltur mjög og með sítt hár og dökkt skegg. Andstæðingur Gilgamesh var léttari, en fimur og sterkur. Það kom Enkido örlítið á óvart að sjá bronsmanninn opna bardagann á nokkrum ósvöruðum spörkum þar til Gilgamesh svaraði með því að stökkva á andstæðing sinn og ná honum í gólfið, þar sem Gilgamesh náði yfirburðastöðu er hann sat á bringu andstæðings síns og lét þaðan höggum rigna. Þegar bronsmaðurinn lyfti höndum sínum of hátt í varnarskyni greip Gilgamesh um aðra hönd hans og sveiflaði sér tignarlega um hana og náði henni í olnbogastrekkingar-armlás. Bronsmaðurinn gafst snögglega upp. Gilgamesh var hress með sigur sinn. Loks var komið að seinustu glímu dagsins. Áhorfendurnir voru í þann mund að sjá frægustu glímu hinna fornu tíma. Enkido brann af ákafa. Allir vöðvar líkamans voru spenntir. Hann réð ekkert við adrenalínið, líkaminn öskraði bara á bardagann. Loks fengi hann að prófa styrk sinn gegn Gilgamesh, gegn þeim goðumlíka, sterka andstæðingi… Hann myndi hella sér aftur í erfiðleikana, þrengingarnar, bardagavímuna sem gleypir algjörlega allt annað í veröldinni, sem gerir hana smáa og einfalda lífsbaráttu. Gilgamesh og Enkido tókust í hendur fyrir glímuna. Gilgamesh lét ekkert uppi þó hann hefði fengið fyrirboða um þennan villta stríðsmann í draumi. Það var rafmagn í loftinu. Mikil þögn sem var við það að springa. Tveir glímukappar að kljást. Súmeríuveldi að horfa á. Enkido gegn Gilgamesh. Villimaðurinn og konungur heimsveldisins. Nafnleysinginn og mesta hetja sinna tíma. Hið erlenda, ókunna afl og sá ósigrandi, sá konunglegi, sá goðumlíki, sá sem gnæfir yfir. Fjallstoppurinn, falsguðinn, og villimaðurinn, skepnan! Hvor myndi sigra? Stolt Súmeríu eða skepna steinaldarinnar? Þeir runnu saman og spurningum var svarað. Þeir byrjuðu standandi og skiptust á þungum og þokkafullum hnefahöggum og spörkum. Kjöt og bein barði kjöt og bein. Búkarnir dönsuðu sinn dauðadans, réðust ofsafullir hvor á annan og vörðu sig listilega. Enkido beygði sig undir hnefahögg og stökk á Gilgamesh, og læsti svo höndum um búk hans. Þeir glímdu þar til Enkido náði Gilgamesh í jörðina og þar börðust þeir með höggum og glímutökum. Gilgamesh sneri stöðunni við og varð ofan á og lét höggum rigna niður í átt að jörðinni. Enkido náði að standa upp og þar skiptust þeir aftur á höggum og spörkum. Svo náði Gilgamesh Enkido niður með því að grípa um aðra löpp hans og sveifla honum í jörðina. Þeir voru gríðarsterkir og þreyttu hvorn annan. Svitinn draup af þeim svo þeir runnu í honum er hann féll í jörðina. Þeir syntu nánast í honum. Blóð, sviti og tár - og einbeiting og viljastyrkur sem var yfir svo veraldlega hluti hafinn. Þúsund æfingar bak við hvert bragð, heilanum var unun af því þegar þau tókust vel - og líkaminn var allur með í bardaganum, hann gaf alla sína orku og efni í þessa lífsbaráttu. Þeir gerðu stanslausar árásir á hvor á annan en ekkert stöðvaði hinn. Þeir rúlluðu um á gólfinu að berjast um betri stöður, stöðurnar snerust við, þeir enduðu standandi, svo aftur á gólfið, og í hring. Þannig hlupu þeir í gegnum hundrað stöður og barsmíðar, án þess að taka eftir því hvað tímanum leið. Hvorugur hafði barist gegn svona öflugum andstæðingi áður svo ýmislegt kom þeim á óvart. Þeir börðust með tækni fyrir smáatriðunum og styrk fyrir stóru atriðunum í langri rimmu. Þegar maður glímir við einhvern sem er svona öflugur þá getur maður farið að velta einu fyrir sér… Þegar maður er að glíma alveg jafnt við einhvern og finnur hvað það er gífurlega erfitt þá veltir maður því kannski fyrir sér hversu erfitt væri að glíma við mann sjálfan? Væri það ekki það erfiðasta í heiminum? Gæti maður ekki glímt til jafnteflis við sjálfan sig af öllu manns afli í erfiða eilífð? Gilgamesh velti þessu fyrir sér, ævinlega með sjálfan sig á heilanum. En það var satt, að bardagi þeirra var mjög jafn. Þeir glímdu frekar jafnt, börðu hvorn annan fram og til baka, en þó jafnt, og þó gáfust líkamar þeirra aldrei upp, heldur héldu sífellt áfram af ofsafullum, æðisgengnum, óstöðvandi krafti. Í öllum bardögum Gilgamesh sást aldrei í óöryggi, alltaf virtist hann tilbúinn að taka yfirhöndina þegar sér hentaði, alltaf virtist hann ósnertanlegur. Enkido mundi eftir sjálfumglöðu brosi Gilgamesh úr fyrstu glímunni hans. Hann mundi eftir yfirlæti hins goðumlíka Gilgamesh, og hann var kominn hingað til að brjóta þá blekkingu. Hann mundi tilgang sinn. Hann var ekki hingað kominn til þess að þessi stórkostlega glíma yrði til jafnteflis og Gilgamesh kæmi óbreyttur úr bardaganum. Þetta yrði ekki auðvelt fyrir Gilgamesh, hann kæmi ekki óskrámaður og tignarlegur út úr bardaganum - konungur skyldi fá að berjast örvæntingarfullur fyrir lífi sínu eins og skepna! Ekki guð, heldur maður, dýr og skepna. Glæsileiki konungsins, glæsileiki Gilgamesh var eins og skjöldur sem verndaði hina guðdómlegu ímynd hans. Enkido fleygði hnefum sínum gegn þessum skildi af alefli, hann ætlaði að brjóta niður varnir Úrúk-konungs, rispa, beygla og brjóta guðdómleika hans, skilja eftir ör á mennsku holdi. Í slíkri baráttu upp á líf og dauða víkur yfirlæti, hroki, þykjusta, plat og lygar fyrir sannleikanum, þá geturðu ekki lengur þóst yfir þetta hafinn nema ímynd þín skipti þig meira máli en lífið, þess vegna kemur sannleikurinn þar í ljós. Þar fer Gilgamesh hinn goðumlíki að haga sér í samræmi við sál sína en ekki konungdóm sinn, þar er konungur skrámaður og sýnir óguðleik sinn, en einnig sitt brennandi mennska hjarta. Höggum Enkidos hafði tekist að láta konungi blæða. Úr andliti konungs, sem var tveir þriðju guðdómlegur og einn þriðji mennskur, flæddi rautt blóð. En Gilgamesh öskraði í gegnum blóðið, eins og djöfullegur hefndarguð réðst hann gegn Enkido með nýfundnum styrk. Þeir féllu saman í gólfið og Gilgamesh barði til hans. Gilgamesh náði góðri stöðu sem Enkido varðist með því að setjast á grúfu eins og skjaldbaka. Þá vafði Gilgamesh hönd sinni um háls og hönd Enkidos, tilbúinn að kyrkja hann, og rúllaði sér og bráðinni eins og krókódíll þannig að Enkido féll á hliðina. Þá þrengdi Gilgamesh kyrkingartakið með því að labba nær og nær Enkido. Enkido leið eins og kyrkislanga væri að kremja sig. Algjört myrkur og ekkert pláss fyrir tilvist hans, hvað þá súrefni. Það er í svona erfiðum stöðum, þegar allt virðist lokað, sem innilokunarkenndin getur hrellt fólk. En Enkido hafði verið hér oft áður, þetta var honum kunnugleg staða. Honum tókst að koma löppum sínum þannig fyrir að Gilgamesh kæmist ekki nær og hann vissi að hann gæti ekkert meira gert úr nákvæmlega þessari stöðu. Þeir voru komnir í pattstöðu. Gilgamesh gat ekkert gert heldur úr nákvæmlega þessari stöðu, hann yrði að færa sig örlítið til þess að geta gert einhverjar árásir. Hér var hann ofan á, í betri stöðu, en Gilgamesh náði ekki að nýta það. Enkido var rólegur þrátt fyrir erfiði þess eins að draga andann. Enkido var þolinmóður og gerði ekkert nema að halda stöðunni kyrri. Hann barðist ekki á móti. Hann vissi að hann gæti ekkert gert héðan, hann væri bara að eyða orku. Gilgamesh var kominn með hann út í horn, en Gilgamesh gæti ekkert gert héðan. Hann þurfti að bíða eftir örlitlum mistökum frá Gilgamesh og þá myndi hann nýta þau. Og Gilgamesh hreyfði sig örlítið og gerði þau smáu mistök sem urðu hratt að stórum mistökum er Enkido náði að standa á fætur. Tilfinningin þegar þú nærð að snúa við stöðu og losna undan andstæðingi er svipuð þeirri og þegar þú ríst upp úr djúpi hafsins og getur dregið andann, þvílíkur léttir… Og nú hafði Enkido fullt ferðafrelsi og það nýtti hann til þess að berja á Gilgamesh sem barði til baka. Þeir voru farnir að læra mikið á hvorn annan og sjá mynstur í hreyfingum sem þeir gátu nýtt sér til að spá fyrir um hreyfingar andstæðingsins. Áhorfendur horfðu á í transi á þessa löngu glímu. Gilgamesh var farinn að óttast blikuna. Hann var í svakalegum vandræðum með þennan andstæðing. Þessar hugsanir trufluðu hann. Enkido var algjörlega einbeittur á glímuna, ekkert annað, ekkert egó að trufla. Hann hafði komið hingað til þess að kenna Gilgamesh harða lexíu og hann var að því með hverri hreyfingu. Hann var naumlega að ná yfirhöndinni núna því hann var algjörlega einbeittur. Glíman getur gert þetta: þú verður svo einbeittur að allt annað gleymist. Þú berð ekkert nafn í miðri glímu. Þú hefur enga fortíð. Þú ert aðeins til, og það eina sem þú veist er það sem er að gerast á þessu gargandi andartaki. Enkido glímdi við Gilgamesh að endimörkum þreytunnar og kramdi hann þar til aðeins góðu bútarnir voru eftir af Gilgamesh. Enkido náði bakinu á Gilgamesh og kyrkti hann að aftan. Hann vafði annarri hönd sinni um háls Gilgamesh og vafði svo hinni hönd sinni um þá hönd og herti að. Enkido heyrði hjartslátt Gilgamesh verða háværari. Hann heyrði það samt varla fyrir sínum eigin hjartslætti sem var gríðarhraður og hávær. Þetta var hið þögla andartak í glímunni þegar áherslan varð í fyrsta sinn á að hlusta. Hann hafði ekki heyrt í áhorfendunum alla glímuna en heyrði nú hrópin dauf við hliðina á hjartslættinum máttuga. Gilgamesh gafst ekki upp. Hinn ósigraði, goðumlíki konungur Úrúk missti meðvitund í örmum steinaldarskepnunnar. Alheimurinn er voldugur. -- Gilgamesh dreymdi að hann væri að fara með stórkostlegum her sínum gegn gríðarmiklum óvini. Tíu þúsund hermenn Gilgamesh gengu gegn óvinaher sem teygði sig víðar en augað eygði. Þegar fjarlægðin milli herveggjanna tveggja var um kvartkílómeter sá Gilgamesh hvar Enkido, í miðjum her Gilgamesh, dró upp og kastaði fyrsta spjótinu. Það flaug í áttina að kórónukrýndu höfði óvinsins. Gilgamesh vaknaði úr meðvitundarleysinu. Hann lá í grasinu með dómarann og Enkido yfir sér. Hann mundi eftir draumunum tveimur sem ásóttu hann skömmu fyrir keppnina. Hann hafði fyrst dreymt að mikill loftsteinn hefði fallið af himnum ofan með miklum látum en einhver forvitni hafði dregið Gilgamesh áfram í leit að gígnum. Hann fann loftsteininn og bar hann að fótum móður sinnar. Svo hafði hann dreymt að hann hefði fundið fagra öxi á jörðinni í miðri borg sinni. Öxin var slíkur dýrindisgripur að fólk safnaðist í kringum hana. Gilgamesh dáðist að öxinni og bar hana að fótum móður sinnar. Móðir hans hafði ráðið draumana og sagt Gilgamesh að mikill stríðsmaður væri á leiðinni á fund hans. Gilgamesh stóð á fætur og dómari keppninnar, mikilsmetinn stríðsmaður, tók í hendur villimannsins Enkido og konungins Gilgamesh og lyfti hönd Enkidos upp í sigri. Áhorfendur héldu í sér andanum. Hvernig tekur ósigrandi maður ósigri? Dómari lét hendur niður falla og um leið tók Gilgamesh Enkido bróðurlega í arma sína svo alþjóð sá konung taka keppinaut í sátt. Svo mælti konungur: "ÞETTA ER MESTI MAÐUR SEM ÉG HEF NOKKURN TÍMANN ATT KAPPI GEGN. EN HALDIÐ EKKI AÐ KONUNGUR YKKAR SÉ AF BAKI DOTTINN. GILGAMESH, KONUNGUR KONUNGA, HEFUR ÆTÍÐ GENGIÐ SIGURVEGINN EN FÉKK NÚ AÐ BRAGÐA Á BITRU TAPI OG SÉR AÐ HANN GETUR ENN VAXIÐ, ENN ORÐIÐ STERKARI. ÉG HEF FERÐAST VÍÐA OG VEIT AÐ MAÐUR ÞEKKIR EKKI VEG NEMA MAÐUR HAFI GENGIÐ HANN TIL BEGGJA ÁTTA." Alþjóð byrjaði að klappa fyrir mætri ræðu konungs og ég hneygði mig niður á hné frammi fyrir Gilgamesh og alþjóð fylgdi með. Þar með var ég samþykktur inn í Úrúk. Nú var glímuhátíð lokið, sól við það að setjast, og gylltum bjarma sló yfir fólkið er allir stefndu til heimkynna sinna. Gilgamesh og konunglegt fylgdarlið hans tók saman föggur sínar og gerði sig tilbúið til farar er Gilgamesh gekk að mér og bauð mér nokkurra daga vist í höll sinni. Ég þáði með þökkum og við gegnum yfir mölina í átt að sólsleginni borginni og konungur talaði til skiptis við fylgdarlið sitt og mig. Hann spurði hvaðan ég kæmi. Ég sagðist vera skilaboð frá afli sem væri meira en afl Gilgamesh. Gilgamesh skildi þetta þannig að ég væri skilaboð frá guðunum. Ég meinti að ég væri skilaboð frá mannkyninu. Ég vissi að hann hafði lært að alheimurinn er voldugur. Er við komum til hallarinnar var mér boðið að dvelja í gríðarstóru rými sem var yfirfullt af laglegum smíðisgripum. Á veggjum héngu málverk og marglitir dýrafeldir við hlið fagurra tréspjóta með bronsoddum og skjalda skreyttra með eðalsteinum. Á gólfinu stóðu skreyttir leir- og málmgripir ofan á flóknum fagurofnum teppum. Þetta var ríkulegasta herbergi sem ég hafði séð. Konungur bauð mér að dvelja hér og koma við í hirð sinni næsta dag til þess að við gætum att kappi saman í vopnaburði. Hann hafði allan hug á að reyna mátt sinn enn frekar gegn mér og reyna að sigra mig ellegar læra af mér. Ég sá fyrir að hann myndi brotna eins og öldur á steinskreyttum ströndum styrkjar míns en í hvert skipti myndi hann læra og rísa aðeins sterkari þar til loks öldurnar myndu yfirbuga mig, sem yrði á þeim degi er styrkur okkar væri jafn. Gilgamesh sá þetta strax og hann tapaði fyrir mér: að ef ég reyndist nógu sterkur gæti ég orðið hans mentor. Ef styrkur minn reyndist einungis jafn hans, þá væru það samt stórfréttir í lífi hans, því þá hefði hann eignast jafningja. Í öllum tilvikum voru þetta stórfréttir í borginni. Ég hafði komið eins og stormur inn í Úrúk og sigrað hinn ósigrandi konung. Mig grunaði að æðstu hermenn konungs væru æfir og vildu ólmir lækka tign mína með því að sigra mig í einhverjum stríðsleikjum. Mín beið spennandi morgundagur og ég sofnaði því seint. -- Fyrsta daginn eftir glímu okkar Gilgamesh vaknaði ég við fuglasöng og sólarbirtu. Ég reis fáklæddur á fætur og gerði morgunæfingar í átt að sólinni þar til ég var farinn að svitna og gleymdi stað og stund í leiðslu. Ég gekk inn og settist og hugsaði um liðna daga er fagurleitar þjónustustúlkur komu færandi mat. Ég heilsaði þeim og þakkaði gjöf þeirra. Það var enn langt í boðaða stund við hirðina svo ég át í rólegheitum er kappann Mesalim bar að dyrum. "Sæll Enkido," sagði hann, "og takk fyrir glímuna í gær. Þú glímdir vel og ég lærði ýmislegt af henni." "Ah, takk, Mesalim. Þú varst fimur og hraður og gríðarlega fær. Við ættum endilega að glíma aftur við tækifæri. Þú varst sérstaklega með góðan þunga í lokaða verðinum og ég var heppinn að þú náðir ekki að snúa því fimlega upp í kimura eða þríhyrningskyrkingu." Við ræddum svo um smáatriði glímunnar okkar og stóru atriði glímunnar almennt eins og vímuna á góðum æfingum þar sem sigur og tap skiptir ekki máli, og hvernig víman súrnar í keppni ef maður leyfir sigri eða tapi að skipta máli í stað þess að glíma bara sína bestu glímu. Það er best að keppa við sjálfan sig og engan annan. Að einblína á að sigra sjálfan sig frekar en aðra. Þetta er kannski sérstaklega mikilvægt í glímunni. Glímuæfingar eru einstakar að því leyti að þær eru hvorki hóp- né einstaklingsíþrótt. Þetta er í rauninni tveggja manna íþrótt þar sem öll þjálfun fer fram með samblöndunni af þér og æfingarfélaga þínum. Þetta er eflaust ástæðan fyrir því að glímuæfingar eru yfirleitt ríkar af góðum anda og vinskap. Loks tjáði Mesalim mér að hann hefði komið til þess að færa mér gjöf og dró þá fram marglitan skjöld og glitrandi spjót og gaf mér. Ég var himinlifandi yfir þessari gjöf og tók traustan skjöldinn í aðra höndina og hvasst spjótið í hina og líkt og skuggaboxari þá steig ég stuttan stríðsdans til þess að prófa verkfærin. Mesalim þótti dansinn töfrandi og þá beindist athygli mín af athyglisverðri gjöfinni að gefandanum og ég áttaði mig á því að ég ætti að gefa honum einhverja gjöf til að sýna góðhug og þakklæti mitt. Í huga mér fletti ég myndum af margvíslegum stríðsvopnum þar til ég staldraði við einfalda og heppilega lausn. Ég spurði Mesalim: "Veistu hvað atlatl er?" "Nei," svaraði hann. "Það er verkfæri til spjótkasts sem mig langar að kenna þér á og gefa þér. Ég hef einmitt tíma til þess núna áður en ég hitti Gilgamesh. Kemurðu með mér út í skóg?" spurði ég og Mesalim sagði já. Við röltum stuttan spöl í borginni og ég fékk að láni öxi hjá smið sem Mesalim þekkti. Þá gegnum við að trjánum og ég valdi tvær góðar greinar sem ég hjó af trénu og hjó svo í rétt form. Ég tók annan fullmótaðan, einfaldan atlatlinn og sýndi Mesalim: "Þetta er atlatl og nú skal ég sýna þér hvernig hann virkar." Ég hélt um annan enda atlatlsins og setti flatan enda spjótsins í hinn endann. "Atlatlinn er eins konar framlenging á hönd minni svo ég geti kastað spjótinu af meira afli," útskýrði ég. Svo sveiflaði ég atlatlinum af allri minni reynslu í fullkominn hálfhring og spjótið þaut hraðar en augu gátu séð þar til það stöðvaðist með miklum dyn miðjunni í stóru tré sem hristist við höggið og klofnaði í tvennt svo við sáum í hjarta þess milli allra laufblaðanna sem féllu nú til jarðar. Mesalim starði á mig líkt og ég væri einn guðanna. Ég rétti honum atlatlinn og sagði: "Þetta einfalda verkfæri gef ég þér að gjöf." -- Síðar um daginn mætti ég til hirðar Gilgamesh með hinn atlatlinn hversdagslega eins og hverja aðra spýtu í annarri höndinni. Það voru þungvopnaðir hermenn í skrítnum málmbrynjum sem vörnuðu mér leið með atgeirum sínum og orðunum: "Hver ert þú?" Ég svaraði "Enkido" og þeir hleyptu mér inn í langan hallarsalinn. Gilgamesh sat tignarlegur í gylltu hásæti ofar öllum þar inni, sem voru þó vígalegir sjálfir. Þetta voru helstu hermenn hans. Þung rödd keisarans glumdi um rýmið: "VELKOMINN, ENKIDO!" "Þakkir, konungur!" "VIÐ ÁTTUM SVO GÓÐA GLÍMU Í GÆR AÐ MIG LANGAR HELST AÐ STÖKKVA AF HÁSÆTI MÍNU OG HJÓLA STRAX Í ÞIG AFTUR, EN HERFORINGI MINN, HINN MIKLI IZDUBAR, SANNFÆRÐI MIG UM AÐ VIÐ ÆTTUM AÐ SÝNA ÞÉR VELDI HERS OKKAR ÁÐUR EN LENGRA ER HALDIÐ. IZDUBAR, HALTU SÝNINGU ÞÍNA." Og fram gekk hár og langur maður, tignarlegur sem örn, með mikinn boga. Ég hafði aldrei séð svona mikinn boga, hann var á stærð við fullvaxta mann og virtist gríðarsterkur. Izdubar sagði: "Hermenn okkar eru mörg þúsund og hafa allir margra ára þjálfun með spjót, axir, hnífa og hnúa. Þetta er ekkert nýtt. En okkar þjóð er best allra með boga, og fyrir þær sakir óttast okkur allir. Þar sem þú hefur nú þegar unnið þér inn mikla frægð í Úrúk krefst ég þess að þú horfir ekki einungis á sýninguna líkt og venjulegir erindrekar annarra þjóða, heldur takir þátt. Við tveir skulum etja kappi í bogfimi, nema þú hræðist ósigur." Ég hafði aldrei séð svona tignarlega boga, ég hafði aðeins séð grófar gerðir og aldrei fallið ástfóstri við bogann. "Ég skal etja kappi við þig en við skulum standa jafnfætis: ég mun standast sömu þrautir og þú en ég mun velja vopn mitt sjálfur." "Samþykkt. Fyrsta þrautin er fimm fuglar. Fylgstu með." Og í öðrum enda salsins opnaði einn hermannanna fuglabúr og út flugu fimm miklir ernir. Izdubar færði hægri hönd sína leifturhratt í örvamælinn og ég fann hvernig það hægðist á tímanum er hann greip fimm örvar með einni hendi í einni hreyfingu þannig að milli litlafingurs og baugfingurs var ein ör, milli baugfingurs og löngutangar var ör, milli löngutangar og vísifingurs var ör og milli vísifingurs og þumals voru tvær örvar. Ég hafði aldrei séð þessa skrítnu aðferð áður og gat ekki ímyndað mér að hann ætlaði að skjóta fimm örvum samtímis, það væri hrein geðveiki að reyna að hitta þannig, á hægu sekúndubrotinu þegar hann færði höndina að boganum reyndi ég að ímynda mér hvað hann gæti gert með þetta og svo sá ég það. Með hægra auga og vinstri hönd beindi hann boganum að nýsloppnum örnunum og lagði vísifingur og löngutöng að strengnum og dró hann upp með sterkum bakvöðvum sínum er hann dró zen-legur inn andann og sendi fyrstu örina af stað. Hún var í loftinu þegar hann færði þumal sinn fimlega svo önnur örvanna féll milli vísifingurs og löngutangar og hann dró bogann aftur upp og sleppti örinni lausri. Hratt og með mikilli handarfimi raðaði hann örvunum fimm í loftið þar sem þær flugu að grunlausum örnunum sem féllu dauðir í jörðina. Allir í salnum klöppuðu nema ég því ég var að reyna að átta mig á því sem hafði gerst og hvernig ég gæti staðist raunina. Er ég hafði séð fuglana hafði mér dottið í hug að búa mér til búmerang og fella þá þannig fimm fugla með einu vopni sem flygi alltaf aftur í hendur mínar líkt og fyrir galdra. En fjandakornið það virkaði ekki lengur, það yrði hægvirkt vesen og ekki tignarlegt að þurfa að bíða búmerangsins í hvert skipti eftir að ég hefði fellt örn, þeir myndu ná að fljúga út um allt herbergið áður en yfir lýki og þó hermönnunum þætti búmerangið eflaust mikill furðuhlutur þá myndi ég ekki standast raunina með sóma, heldur yrði ég margfalt hægari en Izdubar. Ég rótaði í hausnum eftir lausnum… Og endaði á að sætta mig við þá einföldustu. Í vasa mínum voru fimm þungir steinar. Þetta yrði ekki tignarlegt en fjandinn ég gæti verið fljótur ef ég hitti með þeim öllum. "ENKIDO, HVAÐ FINNST ÞÉR? MIKILL HRAÐI OG MIKIÐ AFL. GETUR ÞÚ LEIKIÐ ÞETTA EFTIR?" "Já, ég skal jafnvel vera sneggri. Sleppið fuglunum." Og fimm örnum til viðbótar var sleppt og um leið tók ég fimm steina með vinstri hönd og greip einn þeirra með hægri og sveiflaði honum svo hann flaug með banvænu afli í átt til eins arnarins, og um leið greip ég næsta og þrykkti honum, og næsta, og næsta, og greip svo seinasta grjótið og fleygði því af öllu afli líkt og ég hafði kastað milljón steinum áður á ævinni og þeir flugu í ernina og brutu höfuð þeirra svo fimm hrundu niður dauðir. HA HA HA HA heyrðist glymja úr konungi. Restin af salnum var bæði undrandi og reið yfir ósvífni minni og því sem þeim fannst vera hálfgert svindl. Izdubar talaði fyrstur: "Jahá, þetta tókst þér, þó ekki væri það á tilætlaðan hátt. En steinarnir eru veikburða og hefur þú staðist raunina með krókaleiðum. Ég tel að þú hafir nú þegar tapað því aðferðir þínar virka ekki gegn næstu þraut. Hermenn, hengið upp brynjur." Og hermennirnir hengdu upp þrjár af þessum skrítnu málmbrynjum sem ég hafði aldrei séð áður. Hvergi annarsstaðar á jörðinni gátu menn klætt sig í málma sem vörðu þá gegn öllu illu. Aðeins hér, í stórborginni, í miðri siðmenningunni, þar sem öll þróunin átti sér stað, voru menn svo snjallir að geta smíðað svona gripi. Og Izdubar strengdi boga sinn upp og skaut bronsör sinni að fyrstu brynjunni. Ég hafði ekki hugmynd um hvað myndi gerast næst. Og þegar ég hélt að örin myndi smella í brynjunni og falla niður dauð þá reif örin sig í gegn og skildi eftir sig gat er hún hélt áfram og lenti í veggnum. Hm. Izdubar endurtók leikinn og gataði hinar brynjurnar tvær eins. "Leiktu þetta eftir með steinunum þínum, Enkido." Brynjurnar voru sterkar, það var ekki spurning. Steinarnir gætu ekki gatað þær, það var deginum ljósara. En málmurinn var greinilega ekki ósigrandi, hann gat bognað og rifnað. Annars hefðu þeir fyrir löngu búið til sverð, en það gátu þeir ekki á þessum öldum. Málmurinn hentaði aðeins í minni eggvopn því annars bognaði hann, og eins var með brynjurnar… "Já, ég skal gera gott betur. Hengið brynjurnar þrjár í eina röð og ég skal gera á þær gat." Þeir horfðu á mig skringilega en hlýddu því þeir töldu þetta ómögulegt. Þetta var örlítil sýnimennska í mér, ég var ekki viss hvort spjótið gæti gert gat á þrjár brynjur, en mér fannst það þess virði að veðja á það í stað þess að þurfa að sækja spjótið eftir hvert kast. Svo fékk ég lánað bronsspjót hjá næsta hermanni og lék mér að því að sveifla atlatlinum svo allir sæju þessa tilkomulitlu en mögnuðu spýtu. "Ætlarðu að vinna þessa kraftaraun með þessari veiklulegu spýtu?" "Já," og ég setti spjótið í atlatlinn sem var partur af hendi minni. Og ég sveiflaði spjótinu í stærri hálfhring en nokkur maður gæti með berum höndum. Og spjótið flaug af óstöðvandi afli í átt að brynjunum þrem. Og í gegnum þær allar. Og skildi eftir sig stórt gat. Og stöðvaði með miklum dyn og hristing í veggnum. Og þeir vissu ekki hvaðan ég kom. Ég, Enkido, villimaðurinn sem sannaði stríðsfimi mína frammi fyrir agndofa herforingjum hinnar gríðarstóru Úrúk. Og þeir klöppuðu. Og tóku mér loks allir fagnandi sem fullgildum jafningja þeirra og verðandi mentor í ýmsum af lævísum stríðsbrögðum mínum. --
Eftir þetta var ég boðaður reglulega á fundi við hirð Gilgamesh þar sem við öttum kappi í ýmiss konar stríðslistum og lærði ég listir þeirra og sýndi þeim mínar. Bættum við þannig hvern annan, ég, Gilgamesh og her hans. Ég tók mig til og lærði bogfimina af miklu kappi. Ég glímdi mikið við Gilgamesh og helstu kappa hans og hélt kennslustundir í spjótfimi, til kasts eða návígis. Við Gilgamesh öttum reglulega kappi og sýndi hann alltaf hættulega færni í stríðslistunum, svo mjög að við áttuðum okkur báðir á því að í einvígi okkar á milli gæti hvor sem er fallið, en sem betur fer urðum við mestu mátar. Og þannig héldum við Gilgamesh áfram að byggja upp vináttu á grundvelli þess að ég var jafningi hans, lærimeistari og lærlingur í stríðslistum sem lærði af og kenndi her hans, styrkti og varð hluti af her hans. Sjálfur var ég með eigin tilgang: hingað í þetta gríðarsterka ríki var ég kominn til þess að hafa áhrif og beina því á þá braut að það hefði langvarandi jákvæð áhrif á framtíð mannkynsins, því allt þetta áður óþekkta afl stórborgarinnar mátti ekki fara til spillis í að þjóna einni dauðlegri kynslóð Gilgamesh og falla svo. Við Gilgamesh urðum eins og bræður, og urðum líka miklir vinir. Við stunduðum íþróttir okkar saman og bættum hvorn annan. Við töluðum einnig saman um alla hluti undir sólinni. Ég varð hægri hönd konungs og brátt var varla minnst á nafn hans án þess að mitt fylgdi eftir. Gilgamesh og Enkido. Hetjurnar tvær. Lengi vel fórum við á veiðar mánaðarlega og létum okkur það nægja. Við felldum lítil dýr en svo sífellt stærri. Þetta var á tíma þegar loðfílar voru varla útdánir, en við veiddum þó enga loðfíla. Við veiddum ljón og stórar skepnur. Í nokkur skipti veiddum við guði. Í þessa daga voru guðirnir víða í heiminum. Fjölgyðistrúin var lifandi og allar borgirnar höfðu sína borgarguði. Löngu síðar átti smáþorpið Babýlon til dæmis smáguðinn Mardúk, sem varð að gríðarsterkum guði þegar Babýlon var orðin að miðju heimsveldis. Trúarbrögðin þróuðust með lífinu á jörðinni, og guðirnir voru notaðir í valdabaráttunni. Þannig sendi óvinaborg gegn okkur hið goðumlíka naut Gúgúlanna, sem átti að eyða Úrúk, en við Gilgamesh fundum það og þegar vopn okkar dugðu ekki á það stökk ég á bak þess og kyrkti það með ljónsbananum. Enn þann dag í dag er Gúgúlanna stjörnumerki á himnum. Eins veiddum við hinn ægilega, þúsundfalda, marghöfðaða risa Húmbaba. Honum fylgdi ekkert nema dauði, og fæstir þorðu að mæla nafn hans. Húmbaba! Við fórum margir að honum og ætluðum að yfirbuga hann strax, en hann drap marga okkar, þar á meðal Aríel glímukappa og fleiri vini okkar. Að lokum skárum við af honum eitt höfuðið og bárum það til Úrúks. Hið ægilega höfuð, til þess að fæla óvini Úrúks á brott. Þessa dagana sóttu margir óvinir að Úrúk, og það var mikið verk fyrir okkur Gilgamesh að stráfella þá. Að lokum þreyttumst við Gilgamesh á því að stráfella óvini Úrúk. Gilgamesh var farinn að eldast og fann fyrir því að hann væri ekki að fara að uppfylla neina stórkostlega spádóma um sig með því að drepa fleiri óvini, ekki að fara að uppfylla örlög sín sem tveir þriðji guð, einn þriðji maður með því að láta mönnunum blæða. Gilgamesh ákvað því að við skildum reisa veggi kringum Úrúk, veggi líkt og heimurinn hefði aldrei áður séð. Og við unnum hart að því í áratug að byggja hina goðumlíku veggi. Á bak við veggina miklu tóku við friðsæl ár fyrir Úrúk. Eftir nokkra áratugi af öllum þessum ævintýrum hafði Gilgamesh tekið eftir því að hann var að eldast, já, en hann hafði líka tekið eftir því að ég hafði ekki elst um einn einasta dag. Að lokum sagði ég honum frá því, að ég væri eilífur maður sem hafði fengið ódauðleikann að gjöf frá guðunum. Þetta byrjaði í samtali um borgarskipulagið. Ég hafði mikið vald í stjórnun hersins, en Gilgamesh hafði ekki trú á því að borgarskipulag væri staður fyrir barbara eins og mig. En ég var samt með ákveðnar hugmyndir. Gilgamesh hugsaði allt út frá því að lifa sínu lifi eins vel og hann gat, og það var ágætt. En ég hafði sýn fyrir borgina sem náði 20, 30 kynslóðir fram í tímann. Ég spurði Gilgamesh hvort hann vildi ekki lifa að eilífu í minningum mannanna. Hann svaraði að lífið væri stutt, það væri staðreynd sem hann hefði sæst við og tekið fagnandi, og hann ætlaði að lifa lífi sínu af alefli, ekkert meir. Ég gafst ekki upp: "Já, kannski, en… Ég er með langtímaplön fyrir borgina því líf mitt er lengra. Ég hef lifað í þúsundir ára, og mun lifa í þúsundir ára til viðbótar. Ég gæti gert þetta með þér. Ég gæti líka gert þetta eftir að þú ert látinn. Það skiptir mig ekki öllu máli. Aðalatriðið er að þú hefur öðlast vinskap minn, og ég ætla þér ekkert illt. Hvernig get ég sannað ódauðleika minn? Hm… Ég gæti sýnt þér galdra. Mundu bara að ég ætla þér ekkert illt, og þú ættir ekki að hræðast. Kraftar mínir eru miklir, ég hef aldrei sýnt þér nema brot af þeim… Og ég gæti leyft ætt þinni að ríkja yfir borginni að eilífu. Mér myndi nægja að vera borgarguð Úrúks. Vernda arfleifð ættar þinnar. Og með tímanum myndi ég hægt og rólega sýna afl mitt. Við gætum átt mesta veldi mannkynssögunnar, út alla mannkynssöguna. Ég og ætt þín." "EF ÉG ÞEKKTI ÞIG EKKI BETUR, MYNDI ÉG HALDA AÐ ÞÚ VÆRIR DJÖFULLINN SJÁLFUR, KOMINN TIL AÐ SEMJA VIÐ DEYJANDI MANN!" "Já, en þú þekkir mig. Að fylgja þessu markmiði hefur ekki neinn gífurlegan kostnað; þú getur enn lifað lífi þínu eins og þú hefur gert, en í stað þess að eyða allri orkunni í lífsnautnir, þá byggjum við gríðarstóra hluti saman. Fyrst þyrftum við þúsund hof og ziggúrata til heiðurs guðunum. Við höfum nú þegar byggt gríðarsterka veggi í kringum borgina. Stórkostlegan her. Við þurfum að rækta enn meiri menningu, þekkingu og framþróun. Ekkert af þessu er djöfullegt, þetta eru allt góðir hlutir, markmiðið er aðeins betri framtíð fyrir mannkyn allt. Ég er spenntur fyrir því að prófa að gera framtíð mannsins að áhugamáli mínu. Að vera verndargoð ættar þinnar og læra alla fínu punktana við stjórnun ríkidæmis. Hjörtu okkar slá nú þegar í takt, við erum blóðbræður." -- Sagan segir að Gilgamesh hafi farið að leita að ódauðleikanum því hann varð sorgmæddur er Enkido dó. Raunveruleikinn er sá að Gilgamesh fór að leita að ódauðleikanum því Enkido átti hann þá þegar. Gilgamesh lagðist í ferðalag um öll heimsins horn og fann Utnapishtim, dálæti guðanna. Þegar guðirnir höfðu drekkt flestu á jörðinni höfðu þeir fyrst látið Utnapishtim byggða örkina Lífsvarðveitir, og þar safnaði Utnapishtim öllu sem lífs var á jörðinni. Síðar var hermt eftir sögu hans í sögu um örkina hans Nóa. Gilgamesh bað Utnapishtim um að biðja guðina um að færa sér eilíft líf. Utnapishtim svaraði honum að það muni hann ekki gera, því að gjöf Enkidos sé einstök og verði ekki gefin öðrum mönnum. Utnapishtim segir Gilgamesh að hann geti ekki sigrað dauðann og til að sanna það skorar hann á Gilgamesh að vaka í viku. Gilgamesh sofnar á fjórða degi. Þetta sýnir að hinn mikli Gilgamesh getur ekki einu sinni sigrað svefninn, hvað þá dauðann! Gilgamesh lærði af þessari lexíu, eins og hann lærði af því þegar Enkido sigraði hann. Þegar Gilgamesh sneri til baka til Úrúk sagði hann mér að hann hefði sætt sig við að guðdómleiki sinn fælist ekki í löngu lífi. Í stað þess hafði hann ákveðið að gera Úrúk að guðdómlegri paradís á jörðu, og að hann yrði sanngjarn og góður konungur, sem minnst yrði árhundruðum eftir dauða sinn. Saman byggðum við Úrúk upp og gerðum hana að útópíu okkar daga og sannkallaðri draumaborg. Seinasta verk Gilgamesh var höggva sögu ævi sinnar í stein með fleygrúnum. Í þá daga var ritmálið einungis örfárra hundruða ára gamalt. Þegar sagan af Gilgamesh og Enkido hafði verið skrifuð niður varð ljóst að hún var einn mesti fjársjóður heimsins. Var hún og varðveitt víða í höllum helstu konungsdæma jarðarinnar í mörg þúsund ár. Í dag er hún eitt alelsta varðveitta bókmenntaverk mannkynsins. En Gilgamesh lést þegar mér fannst ég vera nýbúinn að kynnast honum. Hann var með stórbrotnustu manneskjum sem ég hef þekkt. Ég verndaði arfleifð hans og varð borgarguð Úrúk. Í þrjú hundruð ár blómstraði Úrúk og ætt Gilgamesh stjórnaði borginni. Fyrst var það sonur hans Ur-Nungal, svo sonur hans Udul-kalama, en fljótlega fóru ættmenni Gilgamesh að ókyrrast innan friðsælla veggja Úrúks og fundu sér landsvæði til að sigra. Að lokum fór það svo að þrjú hundruð árum eftir fall Gilgamesh þá braut afkomandi hans veggi Úrúks. Það var hinn mikli Sargon af Akkad, sem stofnaði Akkadíuheimsveldið og sigraði Súmeríu alla. Ég barðist ekki gegn honum, því ég lofaði Gilgamesh að berjast ekki gegn ætt hans. Úrúk, paradísin, féll… og Súmeríuveldi með henni.
-- Þetta eru aðalatriðin í sögu okkar Gilgamesh. Ég sagði þér þessa sögu, Aría, af því að ég held að þetta sé lykilsaga í lífi mínu. Þessi saga er lykilsaga í lífi mínu því þarna fyrst kynntist ég heimsmenningunni, þarna reyndum við að byggja paradísina og þarna hélt ég að ég hefði getað orðið fullkomlega hamingjusamur… Til þess að klára, langar mig að flytja þér söguljóð: ég hef ferðast víða lifað þúsund lífum ég var í úrúk, drottningarborg súmeríuveldis við lok steinaldar er alkemistarnir fundu upp bronsið og steinöld mannsins steinöld mannsins sem hann hafði verið í frá fæðingu, milljón ára barnæska hans henni lauk og hann varð fullorðinn er hann í fyrsta sinn gat smíðað verkfæri sem vitsmunum hans hæfðu úr bronsinu, málminum, og við tók bronsöldin í úrúk, súmeríu, mesapótamíu, landi fljótanna ég var í hjarta og vöggu siðmenningarinnar þar fæddist fyrsta borgin, erídú þar varð bronsið til þar fundum við upp hjólið þar fæddist ritlistin ég glímdi við gilgamesh, mesta kappa mesapótamíu, tveir þriðju guð, einn þriðji mennskur saman leituðum við að ódauðleikanum og saman mættum við börnum guðanna, húmbaba og gúgúlanna saman stráfelldum við óvini úrúks þar til við þreyttumst á því og byggðum veggi sem vernduðu úrúk þrjú hundruð árum lengur en gilgamesh gekk um jörðina allt þar til sargon af akkad braut þá niður líkt og hann braut súmeríu alla undir akkadíuveldi sitt sem síðar tvístraðist í babylóníu og assyríu assyríu hina miklu, sem sópaði yfir heiminn, tók yfir pýramída egyptalands, föníku, arabíu, persíu þar sem þeir byggðu bókasafnið mikla í nineveh, stærstu borg heimsins sem var aðeins stærsta borg heimsins í 50 ár, þar til hún og bókasafnið voru gjöreyðilögð ég var í babýlon þegar babýlon var örlítið þorp babýlon með borgarguðinn mardúk líkt og aþena með borgargyðjuna aþenu ég var í babýlon þegar babýlóníuveldi var miðja heimsins og mardúk með nöfnin fimmtíu hafði þróast með babýlon frá því að vera smár yfir í að vera mesti guð mesapótamíu því þetta var lifandi fjölgyðistrú sem þróaðist stundum með pólítíkinni, sem valdatæki, kannski ekki fallegt en hún þróaðist líka með heiminum, með fólkinu, með náttúrunni, tók þátt í lífinu á jörðinni… en úrúk, súmería, assyría, akkadía, babylónía öll ríki mesapótamíu þurrkuðust út og féllu undir persaveldi allir guðirnir og öll mesapótamíska menningin dó undir eingyðistrú persaveldis en grikkirnir risu með fram og upp úr persaveldi aþena var borgargyðja aþenu þannig hélt grikkland fjölgyðistrúnni á lífi og mestu synir grikklands sókrates, svo platón, svo aristóteles gáfu af sér lærisveininn alexander mikla sem lagði undir sig persaveldi ferðaðist víðar en nokkur maður, sigraði heiminn, sá bókasafnsrústirnar í nineveh og reisti hið glæsta alexandríubókasafn sem brann og allt saman glataðist ég lifi í þessum ævintýrum af konungum, gersemum, menningarheimum glötuðum og óglötuðum, sögu mannsins, hans mestu afrekum, mestu fjársjóðum, stærstu sögum ég var með þegar þeir sendu þúsund skip til tróju vegna fegurðar helenu hinn goðumlíki akkiles lést úr sárum sínum í örmum mér við lögðum tróju í rúst í sjöunda skipti og ódysseifur átti vart endurkvæmt þúsund skip fyrir helenu eitt skip fyrir hvert millihelen af fegurð ég hef séð þá senda nokkur skip, í mestu ástarsögum mannsins en menningin hefur miklu meira fram að færa: vasinn af warka, gríma agamemnons, guennol ljónynjan, sphinxar egyptalands ég legg allar þessar gjafir við fætur þér því allar paradísir sem maðurinn hefur reynt að skapa jafnast ekkert á við það himnaríki sem einn maður getur öðlast í litlu sjávarþorpi með stúlkunni sem hellir í kaffibollann hans
0 notes
Link
I find that fiction writing in general is easier for me when the characters I’m working with are awesome. The most important lesson I learned from reading Shinji and Warhammer 40K is that every character has the potential to be awesome - I’m thinking particularly here of when a random bridge...
262 notes
·
View notes
Text
Íslenskur glímukappi meðal goðumlíkra meistara árið 1910
Á myndinni hér að ofan má sjá fjóra glímukappa sem vöktu mikla athygli og gripu forsíður dagblaðanna á gullöld glímunnar þegar meistarar komu úr öllum löndum til Evrópu og Ameríku til að keppa fyrir hönd sinnar bardagalistar um heimsmeistaratitla í catch-as-catch-can glímu. Einn þeirra er Íslendingur. Lengst til vinstri er Jóhannes á Borg sem var mikill meistari íslensku glímunnar. Árið 1908 tók hann þátt í Sumarólympíuleikum fyrir hönd Danmerkur í greco-roman glímu og lenti í 4. sæti. Svo fór hann að ferðast um heiminn í sirkúsum að leika kraftalistir sínar og skora á menn í glímu. Hann sigraði til dæmis: - Gustav "Bohemian Hercules" Fristensky, líkamsræktar- og glímumeistara - Otagawa, japanskan talsmann jiu-jitsu, á þakinu á Madison Square Garden - Akitaro "Daibutsu" Ono, svartbelting í júdó sem virðist hafa orðið evrópumeistari í greco-roman wrestling og einn af "Four Kings of Cuba" Það virðist sem Jóhannes á Borg hafi sigrað báða Zbyszko bræðurna Stanislaus og Wladek. Sem er stórmerkilegt í ljósi þess að báðir bræðurnir eru miklar goðsagnir og voru á einhverjum tímapunkti heimsmeistarar. Wladek á til dæmis að hafa glímt til jafnteflis við sjálfan Helio Gracie, upphafsmann brazilian jiu-jitsu.
Mynd af Gustav Fristensky og bræðrunum Stanislaus og Wladek Zbyszko Jóhannes á Borg sendi líka út áskorun á ríkjandi heimsmeistara á sínum tíma: Frank Gotch (og James Cutler). Frank Gotch hafði orðið stórstjarna í Ameríku með því að verða fyrsti heimsmeistari Ameríkunnar. Sem dæmi um frægð hans þá bauð Theodore Roosevelt honum í Hvíta húsið og forvitnaðist í leiðinni um hvort Gotch gæti sigrað japanskan jiu-jitsu sérfræðing sem var þarna, og glímdi Gotch til sigurs við hann í Hvíta húsinu. Gotch hafði orðið heimsmeistari með því að hrifsa titilinn af fyrsta heimsmeistaranum sem einnig hafði verið stórstjarna. Theodore Roosevelt forseti hafði sagt um þann fræga, Rússneska, rólynda, massaða og fágaða hugsuð og heimspeking og glímukappa að: "If I wasn't president of the United States, I would like to be George Hackenschmidt." Gotch og Hackenschmidt glímdu í tvær klukkustundir. Gotch sigraði. Eftir glímuna sagði Hackenschmidt: "He is the king of the class, the greatest man by far I ever met [...] After going nearly two hours with him, my muscles became stale. My feet also gave out. I had trained constantly against the toe hold and had strained the muscles of my legs. When I found myself weakening, I knew there was no use continuing and that I had no chance to win. That was the reason I conceded the championship to him. I have no desire to wrestle him again. A return match would not win back my title." Síðar skipti Hackenschmidt reyndar um skoðun á Gotch og reyndi að ná titlinum til baka en það tókst ekki.
Mynd af Gotch og Hackenschmidt Glíma Jóhannesar af Borg við heimsmeistarann Frank Gotch varð aldrei að raunveruleika. Raunar voru heilmargir sem skoruðu á Frank Gotch, hann vildu allir sigra, en hann varð í fyrsta lagi ekki auðveldlega sigraður, og í öðru lagi hafði hann ekki tíma til að taka öllum áskorunum. Hann hélt heimsmeistaratitlinum gríðarlengi, frá 1908 til 1913.
Mynd af Gama Indverska goðsögnin the Great Gama skoraði á Frank Gotch en sú glíma varð heldur aldrei að raunveruleika. Sem er synd því Gama var gríðarsterkur glímukappi. Hann hafði ungur sigrað alla helstu glímukappa Indlands nema meistarann Raheem Bakhsh Sultaniwala sem hann gerði tvisvar jafntefli við. Þá ákvað Gama að horfa til heimsins og fór til vesturs að wrestla. Great Gama er oft álitinn besti Pehlwani glímukappi sögunnar og hans helsti frægðarljómi liggur kannski í því að á um 50 ára glímuferli tapaði hann ekki einni einustu glímu. Fyrsti atvinnuglímukappinn sem barðist gegn honum var Benjamin Roller (sem hafði einu sinni glímt við Frank Gotch og sigrað marga góða glímumenn eins og Ed "The Strangler" Lewis og Joe Stecher). Gama rúllaði í gegnum Ben Roller á stuttum tíma. Gama glímdi einnig við fyrrnefndan Stanislaus Zbyszko (sem hafði tvisvar glímt við Gotch: jafntefli og svo tap) sem var í mikilli vörn í 155 mínútna glímu og mætti svo ekki í seinni lotuna. Þegar Zbyszko mætti ekki var Gama nefndur sigurvegari og fékk John Bull beltið og gat kallað sig heimsmeistara (þó hann fengi aldrei að kljást við Frank Gotch).
Mynd af Benjamin Roller og margföldum heimsmeisturum Ed "The Strangler" Lewis og Joe Stecher Gama ítrekaði áskoranir sínar til bestu glímukappa veraldarinnar en fékk enga almennilega andstæðinga svo hann sneri aftur til Indlands. Þar mætti hann aftur Raheem Bakhsh Sultani Wala og sigraði í þetta skiptið og var þá kallaður Indlandsmeistari. Síðar þegar Gama var spurður hver hefði verið hans erfiðasti andstæðingur svaraði hann "Raheem Bakhsh Sultani Wala". Þetta eru bæði sorgleg orð, því hann fékk ekki að reyna sig gegn bestu mönnum vestursins, en líka fögur saga um forvitnu hetjuna sem fer út í heim í leit að fjársjóðinum, lærir ýmislegt, stækkar, og kemur svo til baka og finnur að fjársjóðurinn var alltaf til heima fyrir - þú þurftir bara að fara burt til að sjá hann. Áratugum síðar heillaðist Bruce Lee af sögu Gama og tileinkaði sér æfingar úr rútínu Gama eins og Cat Stretch og Hindu Push-ups. Af því tilefni læt ég fylgja með stutta lýsingu á hversdegi í lífi Gama: "Sir Atholl Oakley once described Gama’s typical day. Gama would rise regularly at 5am. He would swim and stretch for two hours, followed by a breakfast of mainly raw vegetables and 8 glasses of milk. Between 7am -10am, he would do callisthenics, consisting of Indian style squats in very high sets of 100 reps, often 2000 (20 sets) per day, followed by Cat/Hindu style push-ups done similarly. He would then work with buckets of very thick clay. He would work his hands all the way in, until they were about mid forearm deep, and squeeze the clay between his fingers and hands for 30 minutes. This took him to roughly 11am, when he would eat another light fruit snack and have an hours sleep. Between 12 noon to 2pm he would practice various individual moves, not the whole repertoire but just the bits he wanted to work on. Gama would sleep again from 2pm to 4pm. From 4pm to 8pm he would wrestle in various ways, generally wrestling two opponents at a time. He would take dinner at 8pm, which was his main meal, rest for an hour, and drink another 8 glasses of milk. Gama would then to sleep at 10pm sharp." --- Þór tók saman af Wikipediu og Google. Nenni ekki að gera formlega heimildaskrá.
0 notes
Text
dog-philosopher in a barrel, lives by example, world-citizen
This is Diogenes the Dog, who Plato called "a Socrates gone mad". He was one of the founders of the Cynic school of philosophy, and he taught by living example. There are thousands of strange, interesting stories about him: Diogenes is credited with the first known use of the word "cosmopolitan". When he was asked where he came from, he replied, "I am a citizen of the world (cosmopolites)". It was in Corinth that a meeting between Alexander the Great and Diogenes is supposed to have taken place. While Diogenes was relaxing in the sunlight in the morning, Alexander, thrilled to meet the famous philosopher, asked if there was any favour he might do for him. Diogenes replied, "Yes, stand out of my sunlight". He used to stroll about in full daylight with a lamp; when asked what he was doing, he would answer, "I am just looking for an honest man." Diogenes looked for a human being but reputedly found nothing but rascals and scoundrels. He destroyed the single wooden bowl he possessed on seeing a peasant boy drink from the hollow of his hands. Diogenes maintained that all the artificial growths of society were incompatible with happiness and that morality implies a return to the simplicity of nature. So great was his austerity and simplicity that the Stoics would later claim him to be a wise man or "sophos". In his words, "Humans have complicated every simple gift of the gods." Diogenes went to the Oracle at Delphi to ask for its advice and was told that he should "deface the currency”. Following the debacle in Sinope Diogenes decided that the oracle meant that he should deface the political currency rather than actual coins. He traveled to Athens and made it his life's goal to challenge established customs and values. He was attracted by the ascetic teaching of Antisthenes, a student of Socrates. When Diogenes asked Antisthenes to mentor him, Antisthenes ignored him and reportedly "eventually beat him off with his staff". Diogenes responds, "Strike, for you will find no wood hard enough to keep me away from you, so long as I think you've something to say." Diogenes became Antisthenes' pupil, despite the brutality with which he was initially received. When Plato gave Socrates' definition of man as "featherless bipeds" and was much praised for the definition, Diogenes plucked a chicken and brought it into Plato's Academy, saying, "Behold! I've brought you a man." After this incident, "with broad flat nails" was added to Plato's definition. One day King Philip of Macedonia arrived in Corinth, throwing everyone in town into hectic activities to please the king. Diogenes having nothing to do – of course no one thought of giving him a job – was moved by the sight to gather up his philosopher's cloak and begin rolling his tub energetically up and down the Craneum; an acquaintance asked for, and got, the explanation: "I do not want to be thought the only idler in such a busy multitude; I am rolling my tub to be like the rest." - source for everything: I simply took out the parts I liked from http://en.wikipedia.org/wiki/Diogenes_of_Sinope
1 note
·
View note
Text
holy wrestlers
Matches take place in a clay or dirt pit. Wrestlers begin each session by flattening the soil, an act which is considered both a part of endurance training and an exercise in self-discipline. During practice, wrestlers rub the dirt onto their own bodies. Once the arena has been prepared a prayer is offered to the gym’s patron deity, most commonly Hanuman. Many wrestlers live at their training hall but this is not always required. All wrestlers are required to abstain from sex, smoking and drinking so the body remains pure and the wrestlers are able to focus on cultivating themselves physically, mentally and spiritually. A wrestler’s only belongings are a blanket, a loincloth and some clothes. In this regard, they are often compared to Hindu-Buddhist holy men. - http://en.wikipedia.org/wiki/Malla-yuddha - http://en.wikipedia.org/wiki/Pehlwani
0 notes
Text
This is Joe Stecher. A three-time World Heavyweight Champion catch-as-catch-can wrestler (back when wrestling was real and champions were flocking from all countries to try their martial art against the world champions).
"Safety first is a mighty good slogan. I have tried to observe it with these rules: No tea or coffee. No tobacco. Eight hours sleep. No liquor. Plenty of fresh air. Plenty of sunshine."
0 notes
Text
Great Gama's typical day
This is the Great Gama. One of the greatest wrestlers of history. He went undefeated for 50 years, fighting with the best wrestlers of Europe and India.
"Sir Atholl Oakley once described Gama’s typical day. Gama would rise regularly at 5am. He would swim and stretch for two hours, followed by a breakfast of mainly raw vegetables and 8 glasses of milk. Between 7am -10am, he would do callisthenics, consisting of Indian style squats in very high sets of 100 reps, often 2000 (20 sets) per day, followed by Cat/Hindu style push-ups done similarly. He would then work with buckets of very thick clay. He would work his hands all the way in, until they were about mid forearm deep, and squeeze the clay between his fingers and hands for 30 minutes. This took him to roughly 11am, when he would eat another light fruit snack and have an hours sleep. Between 12 noon to 2pm he would practice various individual moves, not the whole repertoire but just the bits he wanted to work on. Gama would sleep again from 2pm to 4pm. From 4pm to 8pm he would wrestle in various ways, generally wrestling two opponents at a time. He would take dinner at 8pm, which was his main meal, rest for an hour, and drink another 8 glasses of milk. Gama would then to sleep at 10pm sharp."
0 notes
Text
Kafli 1
Kameldýrið óð áfram í sandinum. Þetta var traust skepna, sérhæfð til lífs í eyðimörkinni. Þetta var líka blíð skepna en hún hafði reyndar ekkert drukkið í viku svo knapinn fékk að finna fyrir pirringnum. Hún var svo þyrst að hún hefði getað drukkið tvöfalda þyngd hans af vatni á örfáum mínútum. Kameldýrin höfðu lengi þjónað mannkyninu af mikilli þrælslund. Þau voru þó þyngri, sterkari og hraðskreiðari en mennirnir og gætu auðveldlega barist gegn slæmum knöpum, eða einfaldlega skilið þá eftir í miðri eyðimörkinni. Knapinn tók réttlátri reiði úlfaldans samt mjög létt. Hann bar mikla sögu með sér hvert sem hann fór og var niðursokkinn í hugmyndafræðilegum dansi við mannkynssöguna. Sveimhuginn var reyndar líka búinn með vatnið sitt. Hann hafði ferðast víða, var mikill flakkari. Raunar hafði hann komið til næstum allra ríkjanna sem nú voru uppi. Hann hafði líka komið til þónokkra ríkja sem voru ekki lengur til. Einhverjir hefðu orðað þetta þannig að hann hefði komið til allra landa heimsins. Hann hefði sagt þetta öðruvísi. Ríkin koma og fara. Fjöllin, vötnin, hólarnir og hæðirnar stóðu eftir, það voru hans kennileiti. Og einmitt núna var hann að hugsa um allt þetta sameinaða landflæmi jarðarinnar sem hann hafði svo ítrekað farið fram og til baka um. Þeir sem hafa lítið ferðast lenda oft í vandræðum með að rata. Þeir vita ekki í hvaða átt þeir eiga að fara. Þeir eiga erfitt með að tengja saman þá staði og leiðir sem þeir þekkja. Landakort huga þeirra er gloppótt. Svo þeir aðskilja hlutina og gefa þeim sérstök nöfn. Þeir sem hafa ferðast eins mikið og knapinn hafa allt öðruvísi tengingar í kollinum. Hugarkort þeirra er fullkomnað. Þeir sjá að jörðin er öll tengd. Nöfn landanna eru bara tilbúningur, loft, froða. Hann hafði bara ferðast um eitt land, móður Jörð. Flakkarinn leyfði huganum að reika svona meðan hann flaut yfir eyðimörkina á baki úlfaldans. Hann hafði komið óteljandi oft í þessa eyðimörk. Synt á þessum sandöldum. Efnið í sandkornunum var eins gamalt og hann. Hann hafði séð mörg sandkornin áður, þó hann þekkti þau ekki í sjón. Hann átti minningar með þeim í óljósum bakgrunni. Sandkornin reiddust honum þó ekki fyrir þá ósvífni að muna sig ekki betur. Eyðimörkin skildi að hann var bara ferðalangur á eilífri sléttu sinni. Raunar var hann jafn eilífur og eyðimörkin. Hann var undantekningin. Hann var ódauðlegi maðurinn. Hann mundi ráfa um þessa eyðimörk eins lengi og hún yrði til. Hann yrði eldri en hún. Þessar háfleygu hugsanir voru truflaðar þegar úlfaldinn gafst upp og hneig niður. Flakkaranum brá aðeins. Þetta hefði þó vakið skelfingu hjá flestum. að vera vatns- og úlfaldalausir í miðri, funheitri eyðimörkinni. Hann steig af baki úlfaldans og þakkaði honum aðstoðina sem hann hafði þó veitt á seinustu dögum. Svo horfði hann til himins. Blár og hreinn himinn. Brennandi sól. Þurr eyðimörk. Hvergi hvítur skýhnoðri í augsýn. Eilífi maðurinn gekk fjögur skref frá úlfaldanum og lokaði augunum. Hann hristi hendur og fætur og liðkaði sig eftir setuna. Hann sneri höndum í hringi og hitaði sig upp. Úlfaldinn skildi ekkert í hegðun hans. Kannski var hann að sturlast úr þorsta. Eilífi maðurinn rifjaði upp gamla tíma. Hann hafði lifað með indjánunum lengi. Hann hafði lært vegi shamansins. Hann rifjaði upp regndansinn! Svo hann byrjaði að dansa. Hann þurfti að koma sér í algjörlega frjálsan trans og þaðan þyrfti hann að leika við guðina. Hann sveiflaði höndum og hreyfði fætur við einhvern innri takt. Hann heyrði ekki hjartslátt sinn, heyrði engan vind, engan takt, svo hann fór í minningar sínar og dansaði við taktinn úr fossinum við heimili hans forðum. Vatnsöldurnar dönsuðu við ryþmann frá mjaðmahreyfingum Skapara lífs og jarðar. Vatnsöldurnar dönsuðu við ryþma tunglsins. Allt saman var tengt. Eilífi maðurinn dansaði við ryþma vatnsins er það flæddi inn í jarðveginn og upp í grænt grasið. Er það gufaði upp í skýin. Hann dansaði við innri takt af algjöru frelsi og algleymingi er skýin umbreyttust og flutu ofar himnum. Hann var byrjaður að svitna, en hann fann ekki fyrir því. Skýið hans var statt við topp Ólympstindar. Skýið hans var undir fótum guðanna. Þeir fundu hvað það var velviljað, hvað það var þakklátt fyrir tilvist heimsins. Þeir sendu það áfram. Hann dansaði eins og óður maður, sveiflandi höndum, og dökk skýin fylltu himnana fyrir ofan hann. Svitatárin drupu af honum á sandinn. Og regndroparnir fylgdu á eftir. Hann fann regndropana falla á sig. Hann fann hvernig þeir kældu hann. Hann var sjóðheitur og þeir ískaldir. Þeir vöktu hann úr transi. Hann hoppaði af gleði. Úlfaldinn var frekar hress líka. Eilífi maðurinn lagðist svo niður og leyfði regninu að skolast yfir sig. Hann hlustaði á hvern einasta regndropa. Drakk þá sem kusu að falla í kjaft hans. Hann og úlfaldinn voru hólpnir.
2 notes
·
View notes
Text
ef allt andrúmsloftið myndi fara af jörðunni í 30 mínútur... þá myndi mannkynið samt ekki deyja út. við erum með súrefnisgrímur, yo. við erum duglegasta dýrategundin í því að búa okkur undir að lifa af allar mögulegar aðstæður, ofuraðlögun okkar og atlaga að lokasigri á náttúruvali felst í rugluðum vísindamönnum að fikta í hálfgagnslausum hlutum, sem verða síðar fáránlega mikilvægir er aðstæður breytast. forvitnin skilar okkur miklu. við erum undirbúin. súrefnisleysis-scenarioið minnir mig á Lake Kivu. vatnið er stútfullt af 500 milljón tonnum af karbondíóxíði svo ef vatnið umturnast myndu svo sem allir í kringum vatnið deyja. í kringum það búa um 2.000.000 manns. kannski yrðu svona 5 sem myndu lifa af fyrir þá tilviljun að þeir væru með súrefnisgrímur þegar þögull dauðinn myndi fella öll dýr í kringum vatnið.
0 notes
Text
w. h. auden
Stop all the clocks, cut off the telephone, Prevent the dog from barking with a juicy bone, Silence the pianos and with muffled drum Bring out the coffin, let the mourners come. Let aeroplanes circle moaning overhead Scribbling on the sky the message He Is Dead, Put crepe bows round the white necks of the public doves, Let the traffic policemen wear black cotton gloves. He was my North, my South, my East and West, My working week and my Sunday rest, My noon, my midnight, my talk, my song; I thought that love would last for ever: I was wrong. The stars are not wanted now: put out every one; Pack up the moon and dismantle the sun; Pour away the ocean and sweep up the wood. For nothing now can ever come to any good.
0 notes
Photo
0 notes
Audio
20K notes
·
View notes
Photo
svo gott
Bon Iver is ignoring me. I’ve pranced around in my fanciest dress, I’ve baked his favorite pineapple upside down cake, I’ve been singing our song at the top of my lungs — ‘You be my dust mop, I’ll be your best broom / I’ll be your whirlwind, you be my field,’ I yell. Still, I can’t seem to get his attention. ���Bon Iver, Bon Iver, Bon Iver,’ I repeat until my voice is hoarse.
Finally, he looks up, as though he is hearing me for the first time. ‘Yes, beautiful?’ he says calmly. ‘I love you,’ I say. ‘I love you, too,’ he replies. ‘That’s all,’ I say, and I return to my chores.
207 notes
·
View notes