hugrenningar
vangaveltur og hugleiðingar
18 posts
Don't wanna be here? Send us removal request.
hugrenningar · 6 years ago
Text
þ   æ   ö
Þögn í framsætinu
Þú í aftursætinu
Þokkalega mikill hrollur í mér
Þægilegar en ó svo ómerkilegar umræður
Æ hvað ég er uppfull af eftirsjá
Æpir á mig
Ævintýraþyrst æskan
Æsingurinn
Örþunnur glerveggur
Örvæntingaróp innra með mér
Örlátur máttir þú þó vægast sagt kallast
Ölvaðar samræður til sameiningar (eða sundrungar???)
0 notes
hugrenningar · 6 years ago
Text
takk
takk stelpur ég elska ykkur svo mikið fyrir að vera ávallt til staðar
0 notes
hugrenningar · 6 years ago
Text
ó minn hjartans...
ó minn hjartans kæri ljúfur
sem blíðlega beraði vinstri vanga
hraktir vit mitt út um þúfur
eftir kvöldstund okkar drykklanga
ó minn hjartans rósótti skrúður
sem blómstrar einn á auðum dranga
hélst um arm minn siðprúður
meðan lófann varstu að fanga
ó minn hjartans sykursnúður
ég afsaka hegðun mína alranga
fyrirgefðu allt mitt klúður
munum við áfram ganga?
0 notes
hugrenningar · 6 years ago
Text
fjöruborð
dagur deyr við drunur hafsins dáleiðandi dulúð sólarlagsins volæði voturra veðra við sólsetur vara þinna varmi vafa knésetur geymir röðull grát liðinna stunda gullin er ára góðvljaðra funda heimleið syrgja hjartaborgir hjaðnar í kolum, nýjar sorgir
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
kaffisopi
Handahreyfingarnar tjá það sem orð fá ekki lýst. Þú leggur hægri hendina flatt ofan á þá vinstri, í eins konar U-laga faðmlag þar sem þumlarnir hringa sig upp að hver öðrum líkt og trjágreinar að hvor annarri og mig langar mig að faðma þig þétt að mér. Andartakið er straumlínulaga, eins konar staðfesting á staðfestu róleikans í loftinu. Kemistrían er sterk.
Röddin hefur tapað töturlegum titringnum. Hún er yfirveguð og huggandi, áferð hennar mjúk og slétt eins og óátekið egglaga handsápustykki. Hvað er betra en að leyfa röddinni einni að faðma mann að sér? Hrynurinn leiðir mann áfram í leiðslu, áreynslulaust. Hughreystandi orðin eru kaffærð í kaffisopanum, sem þú færð þér með reglulegu millibili. Hálsinn er hrjúfur eftir vel útilátna vindlingagjafir gærdagsins. Það gerir samt ekkert til, síglettna brosið bætir upp fyrir allar misfarir og fljótfærnislegar ákvarðanatökur. Ég tek á mig alla ábyrgð, þó ekkert ákall sé til þess gert.
Manni vefst tunga um tönn. Tungunni er vafið í eins konar hringi um forjaxlana, hikandi og hugsandi. ��rátt fyrir hjartfólgið öryggi, er hægt í hælinn stigið, þér er hælt frá hjarta mínu. Hlotnaðist mér svar? Var ég virðingarinnar virði? Hvarmaljósin hýr vísa til hvílu, skynsemishugsunin til langrar og miður ljúfrar heimleiðar. Að lokum tók skynsemin yfir...
Nokkrum kvöldstundum síðar, gekk fang mitt í þitt. Ég man, ó! Ég man! Mér vöknaði um augu! Kom þér í svo opna skjöldu, kom svo ógurlega flatt upp á þig! Svo flöt lá röddin, steinlá. Armurinn bræddi mjúkan raddblæinn til grunna, svo sár og seiðandi í kjölfar kveðjustundarinnar. Við sjáumst von bráðar, ljúfurinn!
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
að venju
Hér sit ég. Ein, í silkislopp og mínum fínustu undirklæðum, á vappi um miðja nótt. Það liggur engin sérstök ástæða að baki fatavali mínu, þó svo að ég óski þess. Stundum þarf maður einfaldlega að koma vel fram við sjálfan sig.
Meltingin er í ólagi (að venju).
Mér er kalt (að venju).
Hjartað missir úr slag (að venju).
Ég læt mig hafa það (að venju).
Í rauninni get ég ekkert gert (að venju). 
Blákaldur sannleikurinn liggur í augum uppi (að venju). 
Þá er best að liggja í bæli hæstráðanda og tjá innantóm orð og hugsanir sem engum er annt um, sem engum koma við.
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
morguninn eftir (brot)
Appelsínur á fölleitu skurðarbretti
Sítrónur á eldhúsbekknum
Límónur í glösum
 Allt baðað svo fölsku ljósi
Svo ógurlega fölsku íslensku ljósi
Gluggaveður (að venju)
 Mér er svo kalt
Æ svo ógurlega kalt
...
...
...
Má ég faðma þig?
Ég faðmaði þig ekki í gær
Jú reyndar, samt ekkert voðalega lengi
 En má ég faðma þig núna?
Ég sneri mér svo undan og kvaddi
Horfðist ekki í augu við það (tækifærið)
Gat ekki leyft mér að fabúlera um langþráð faðmlagið
Trúi ekki enn að ég hafi mölbrotið þig með líferni mínu...
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
hvítfextur
Ekur eftir Hringbrautinni
hvítur hestur
með faxið �� tagli
tekið temmilega saman
  Ljósfjólulillablái prinsinn
baðaður lágháreistum ljóma
í blóma lífsins
þögulla og beinaberra bóna
  Vaknaði ókunnug
vönkuð að vori,
með kökk í hálsi
af kímni að kvaka
  Úti hvessir,
hugsa: „hvað með það
þó nærvera þín og ketilsins
kappkosti kyrrðina“
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
fokking ógeðslegur
„Svo lengi elskuðumst við, þig ég vefja tók...“
Úff, úff, úff, það er reykur í stofunni. Augun reyna í reiðuleysi sínu að ráða fram úr dularfullum drunga reyksins. Ég rýni í mökkinn, en greini ekkert annað en óljósar útlínur svallsins. Rýni í myrkrið, í leit að samþykkinu sem ég gaf aldrei.
„Þúsund sinnum segðu já...“
Ó, ó, ó, mig auma. Langar að gleyma andvökunóttunum, þegar ég þóttist víst eiga vingott við þig til þess eins að fá klapp á bakið og kannski víðar. Sögur herma...
 „Þúsund sinnum segðu ó…“
Nei, nei, nei, ég vildi aldrei fara svo langt.
Að minnsta kosti ekki með náunga af þínu sauðahúsi. Þetta gerðist bara.
Ég sé ennþá eftir því í dag. Ég sá eftir því í gær, og mun sjá eftir því á morgun.
 „Segðu hvað þér þykir gott…“
Æ, æ, æ, hvað völdin lita þig gráan. Ég sem vildi trúa á sérstæður þínar, trúði því virkilega að þú værir öðruvísi, þú værir kannski bara eins og ég. Fokkaðu þér.
 „Segðu já…“
Nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei!
Þú tókst fram fyrir hendurnar á mér þegar hausinn minn var ekki hjá mér.
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
krákan
Hver dagur svífur frá mér líkt og krákan á húsþakinu. Hún á greinilega fáa að, ég virði hana fyrir mér í örlitla stund áður en ég hleyp af stað á eftir strætisvagninum. Þar með er ég flogin á brott úr hreiðrinu.
Ég lygni aftur augunum af sjálfsvorkunn. Atburðarás dagsins er auðfyrirsjáanleg, ég mun stíga sífellt nær strandlengjunni þar sem krákan hefur beðið mín síðan í morgun. Ég anda að mér ferskleika daggarinnar.
Í fangi eða örmum hvors annars dveljast þeir sem umkringja mig allan liðlangan daginn. Ég sveipa um mig sjálfstraustinu, í formi hnésíðs ullarfelds sem fýkur aftur í vestur með vindinum. Helsta virðingar-einkenni mitt er í formi blákaldrar efnishyggju, ég efast um ágæti mitt sem virðulegur borgari með frjálslyndi í hjarta og beinskeytni í huga.
Lipur á fæti, ég fylgist með taktvissu göngulagi þínu. Hvað skyldi leynast handan múrsins sem þú hefur byggt umhverfis andlega tilvist þína?
Ásjónan lýsir á hendur mér andúð, en jafnan áhugasemi, jafnvel undirliggjandi forvitni. Ó, hve ég sakna blíðunnar, aflíðandi klæðanna og hlýranna sem freistuðu okkar í hlýlegri blíðu síðustu árstíðar. Nú fljúga gulnuð laufin mér til móts, fylgja norðanáttinni og það glittir í krákuna yfir Faxaflóanum. Svartir vængir hennar hylja augu mín nær algerlega.
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
fyrstu kynni
Mér finnst ég vera stödd á sólarströnd, þó ég líti nú aðeins yfir afsprengi Atlantshafsins. Golan leikur við léttliðað hárið, sem ég óf í fléttu um hádegisleitið í gær. Augun eru lokuð, ég er önnum kafin við að ná andanum. Reykurinn umvefur mig og mér finnst ég fljúga samsíða ljósum hettumáfunum sem garga nærri mér í gríð og erg.
Að venju hentar fataval dagsins ekki aðstæðum. Blár rykfrakkinn og síðir garmarnir stinga í stúf við léttklædda samlanda mína í sínum daglegu erindagjörðum, sem draga umsvifalaust þá ályktun að birtan úti merki hátt hitastig. Grænn rúllukraginn og baneitraður naglinn keppast um að verða fyrri til að kyrkja mig. Ótrúlegt hversu kærulaus maður getur verið þegar vel viðrar.
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
svartagallsraus
Rökkur nálgast, mægða vandi,
róum um hafið reikandi.
Af eldmóði hjörtu fyllast,
elskhugar í Eden tryllast.
  Hátt melankólískt angistaróp,
morkið, hikandi, myrkrið skóp.
Svart á hvítu, raunin er helst
sótrauður sortnandi harmavers.
  Gróflegheitin á sér kræla,
gráðug greddan, tilurð harmkvæla.
Fallin er hún dýpst í hyldýpi,
fegurð fjalla, í þverhnípi.
  Ró hinnar fögru kynsystur,
hvílir mitt hjartfólgna rykmistur.
Kveðjustundin alla tærir,
kunnulegan koss mér færir.
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
ellefti mars
Farvegur okkar mótast í kjölfar athafnanna sem við framkvæmum. Hver sögn sem lýsir atferli og viðbrögðum okkar markar upphaf nýrrar atburðarásar. Það er ekkert fyrirfram ákveðið og því er framtíðin stöðugt ótvíræð. Framtíðin mótast líkt og skúlptúr í kjölfar þess að við tökum mið af viðbrögðum annarra (sem ryðja sér rúms þegar viðkomandi eða umhverfið tekur mark á athöfnum okkar).
Ótvíræðnin er þó fremur afstætt hugtak, því í raun er jafnan fyrirsjáanlegt hvernig atburðarás mun leiða af tilteknum athöfnum. Því til rökstuðnings er nokkuð augljóst hvað hvert skref okkar leiðir af sér, við komumst einu skrefi nær áfangastaðnum okkar. Með hverju skrefi vinnum við okkur sífellt nær tilsettu markmiði að hverju sinni. Þegar ákveðnu markmiði er náð, tekur annað við. Þessi hringrás fylgir okkur alla tíð.
Flest markmið okkar eru ómeðvituð. Þau sem tilheyra fylgifiskum grunnnáttúrulegra tilvistarþarfa, s.s. næringar-, hvíldar- og heilbrigðismarkmið, eru þau sem drottna ofar öllum öðrum ómeðvituðum markmiðum. Við hugsum allra síst um þau meðvitað en tilvera okkar snýst fyrst og fremst um að sinna þessum tilteknu þörfum. Við sem búum við þau forréttindi að hafa greiðan aðgang að því að sinna slíkum þörfum veltum okkur sjaldnast upp úr atburðarásinni sem uppfyllir grunnhvatirnar.
Ofan á þetta getum við byggt félagslegar þarfir og þá er markmiðið að skynja, skilja og tjá okkur sjálf, jafnt til að tjá og vernda eigin hagsmuni sem og annarra í ákveðnum tilvikum. Öryggi er okkur efst í huga ef athöfnin er áhættusöm eða nýtur almennrar andúðar miðað við aðstæður.
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
augnagotur í hádeginu
Allt við hana er dulúðlegt, líkt og tilvist hennar sé óleyst ráðgáta.  Hún virðist svo kærulaus ásýndum. Ef vel að er gáð glittir í vott af kærleika í augnaráði hennar. Þó eru þyngslin, virðuleikinn og viskan, sem eru mest áberandi í fari hennar. Allt þetta heillar mig upp úr skónum.
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
ringluð
Ótal orðasambönd vefja tilveru okkar saman, líkt og efnasamböndin sem hafa byggt okkur og allt áþreifanlega umhverfið upp. Getgátur um að sameiginlegt áhugasvið og ágæti okkar liggja í augum uppi, gefa í skyn að ég skuli halda ótrauð áfram að efast efans og giska á getgáturnar.
Um leið og ég steig fæti mínum á bólakaf í grásleginn gróðurinn var um seinan. Ég hafði lifað líf mitt tvisvar áður, ég þekkti allar kringumstæður mínar og ekkert kom mér í opna skjöldu. Allt er þegar þrennt er. Doðinn leitast svara við angist minni og byrði berdreymisins.
Ég greini tilvist þína betur en ég hef getað greint sjálfið mitt upp á síðkastið, það kemur þó ekki í veg fyrir ítrekaðar árangurlausar mananir sem leiða til góðs eða ills. Andstæðurnar eru mér viðstöðulaust efst í huga, umhyggjuþörfin á sér fastapunkt í miðjum huganum en illskan hefur komið sér vel fyrir í hlýju hálsakotinu. Illskan er mér hulin ráðgáta, hvaðan hún kom eða hvert hún stefnir er mér ekki kunnugt um.
Á því andartaki sem ég sleit blásaklausan tannþráðinn burt úr hylki sínu brugðu fyrir augu mér síðustu andartök viljans, þegar ég hékk á bláþræði og þreifaði fyrir mér í tóminu, leitaði mér undankomuleiðar og sá handan handa minna. Veraldleikinn uppljóstrar hafsjó upplýsinga samtímis, ég get varla unnið úr magninu. Ringulreiðin mín snýst líkt og Úranus í fjarska.
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
um sköpun heimsins
Á fyrsta degi sátum við á þakinu, eða réttara sagt, horfði ég upp til himins og sá þig sitja á þakinu. Eftir örlitla umhugsun hóf ég að klífa upp til þín. Með hverju skrefi breikkaði brosið, golan lék létt við síðu lokkana mína sem brostu við sólinni líkt og biðukollur í góðviðrinu.
Á öðrum degi lá ég í gluggakistunni, hífði bolinn upp fyrir haus svo ég huldi fjóluleita lokkana mína. Léttur vals var leikinn á magann. Slóst svo létt að það heyrðist varla í fingrunum rétt fyrir ofan naflann.
Á þriðja degi stóð ég í eldhúsinu. Um kvöldmatarleytið sneiddi ég grænmetið, vafði stuttu lokkunum upp í fagran klút til að sporna við því að hár bærist í matinn. Ég bar fram súpu á boðstólinn. Hendurnar titruðu, því úti var kalt, mér var óglatt og mér fannst ég hafa verið svikin.
Á fjórða degi tókst þú mig í sátt. Ég var stödd á framandi slóðum, stóð í regninu með lokka sem rétt náðu niður fyrir eyru og grét með himninum.
Á fimmta degi lágum við samsíða í sjúskuðum sófanum, horfum á þjóðina hrynja. Á þeim tíma virtumst við vera í blóma lífsins, lokkarnir lífglaðir og ljósir. Þegar ég var á förum, síðla kvölds eða árla morguns, tók ég þó eftir tárinu. Glöggt er gests auga.
Á sjötta degi sast þú við tjörnina, ég færði þér og öndunum brauð. Við töluðum um veðrið. Lokkarnir héngu nú þungbúnir líkt og bláklukkur, lutu niður sínu einstaka höfði í átt að vatninu. Vatnið gleypti í sig alla sorgina og drekkti sér að lokum í eigin þyngslum. Þá var illt í efni.
Á sjöunda degi hvarfst þú með lokkunum mínum, fjarri alfaraleið.
0 notes
hugrenningar · 7 years ago
Text
júnímánuður
Tilvistin er að vakna um hádegisbil, alveg jafn úrkula vonar og þreytt og ég var þegar ég fór að sofa við fyrstu geisla sólarupprásarinnar, og andvarpa þegar í stað við tilhugsunina um það sem er framundan.
Tilvistin er að standa stöðugt milli steins og sleggju hvað varðar viðhald líkamlegrar heilsu, siðferðiskenndar, geðheilsu og tengslum við umheiminn.
Tilvistin er að fá gæsahúð og tár í augun þegar manngæska annarra ljómar, en manns eigin er kaffærð í áunnu mannorði sem þráir djúpt nýtt upphaf.
Tilvistin er að naga neglurnar til blóðs í von um að þær klóri ekki og hvæsi á þá sem standa manni næstir áður en til næstu atlögu kemur.
Tilvistin er að sitja í rúmi, með grænt lak undir sér og umvafin hvítum rúmfötum sem skarta fagurrauðum blómum, meðan maður teygar síðasta rauðvínsglasið og bíður eftir því að lífið fjari út í takt við fjarlæga angistarsöngva.
Tilvistin er ekki öllum í hag, allar okkar dýpstu vonir og þrár eru einungis hugmyndir sem þvælast jafnan fyrir þeim sem þrá nýtt upphaf og sverta allt það bjarta sem við höfum áður unnið okkur inn. Maður þarf bara að þukla sig áfram þar til endanlegi botninn er fundinn.
0 notes